Áfengis- og vímuvarnaráð

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 22:07:50 (7521)

1998-06-04 22:07:50# 122. lþ. 145.20 fundur 479. mál: #A áfengis- og vímuvarnaráð# frv. 76/1998, KÁ
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur, 122. lþ.

[22:07]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Eins og við vitum lifir nú stutt eftir þings og þar af leiðandi er sú umræða sem á sér stað okkar síðasta tækifæri til að ræða þessi mál á þessu vori og ég get tekið undir með hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur að einhverra hluta vegna hefur umræðan um fíkniefnavandann ekki átt sér stað inni á Alþingi nú í vetur er þó ærin ástæða til. Því vil ég nota tækifærið til að leggja nokkur orð í belg. Það verður ekki langt.

Ég kom inn á það í ræðu minni í gærkvöldi á eldhúsdeginum að víða um heim hafa menn gríðarlegar áhyggjur af vaxandi fíkniefnavanda og þar er ýmislegt að gerast sem veldur því að áhyggjur fara vaxandi. Það virðist svo sem þeir sem framleiða fíkniefni finni stöðugt nýjar og nýjar leiðir til að koma fíkniefnum á markað. Í fyrra kom hingað lögreglumaður frá Interpol sem kom m.a. á fund félmn. og hann var að skýra okkur frá þeirra vitneskju um eiturlyfjaheiminn. Það var afar fróðlegt að heyra það sem hann hafði að segja. Þetta var sænskur lögreglumaður sem vinnur hjá Interpol. Eitt af því athyglisverðasta sem hann sagði var að nú væru þeir byrjaðir í Suður-Ameríku að framleiða heróín. Þeir hafa hingað til fyrst og fremst verið í kókaíni og það þýddi að heróín færi að streyma inn á markaði, m.a. í Evrópu og til Bandaríkjanna, eftir nýjum leiðum. Eitt af erindum hans til Íslands var einmitt að benda á að Ísland væri viðkomustaður, menn yrðu að vera mjög vel á verði gagnvart því að eiturlyf yrðu ekki flutt frá Suður-Ameríku í gegnum Bandaríkin og síðan í gegnum Ísland til Evrópu og það leiðir okkur að þeirri meginspurningu: Hvernig stendur á því að jafnmikið magn er af eiturlyfjum hér á markaði og raun virðist bera vitni? Ég held að ekki sé hægt að segja annað en að hvað varðar löggæslu og tolleftirlit er greinilega pottur brotinn. Ég hef reyndar lesið frá ýmsum löndum að menn telja að það magn sem tollverðir og lögregla nær sé aðeins brot af því sem flutt er inn. Það eru svo mikil klókindi í þessari grein og menn finna alltaf nýjar og nýjar leiðir þannig að það virðist vera afar erfitt að draga þarna úr. Það er önnur hliðin á vandanum hvernig eiturlyf streyma sífellt inn á markaðinn. Hin hliðin er sú stóra spurning: Hvers vegna er eftirspurnin til staðar? Hvers vegna eru það jafnmargir sem reyna, prófa eiturlyf og ánetjast eiturlyfjum og raun ber vitni? Ég hef oftsinnis komið inn á það í umræðum að læknar og heilbrigðisyfirvöld hafa smátt og smátt verið að átta sig á því að tóbak, nikótín, er miklu sterkara eitur en menn hafa viljað vera láta og ég hef oft sagt frá því dæmi sem ég heyrði úti í Bandaríkjunum að tilraunir sýndu að rottur gerðu engan mun á heróíni og nikótíni. Þær ánetjuðust þessum tveimur efnum í jafnríkum mæli þannig að þær upplýsingar sem fram hafa komið sem benda til að tóbaksneysla geti oft verið byrjunin á öðru eru auðvitað afar athyglisverðar.

Ég hygg þó að það sé svo miklu meiri og stærri vandi sem þarna býr að baki. Ég minnist þess ekki að hafa séð neina ítarlega eða alvarlega rannsókn á því hér: Í fyrsta lagi hvaða fólk ánetjast eiturlyfjum, hver er bakgrunnur þess, hver er aldursdreifingin og hvernig hefur fólk náð í eitrið? Það eru ýmsar upplýsingar til en ég held að það sé svo mikilvægt ef takast á að ná einhverjum tökum á þessum vanda að reyna að átta sig á því hvað það er sem býr að baki. Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir kom inn á það í ræðu sinni að oft er um ungmenni að ræða sem eiga í erfiðleikum í lífi sínu. Þau koma oft frá brotnum heimilum. Það getur verið ofbeldi, jafnvel kynferðislegt ofbeldi sem þau hafa verið beitt, þau geta hafa lent í einelti í skóla eða gengur illa í námi. Síðan er einn þáttur í viðbót sem mér finnst alls ekki hafa verið gefinn nægjanlegur gaumur og það eru geðræn vandamál barna og unglinga sem menn hafa ekki áttað sig á og eins og við vitum er alls ekki nægilega vel sinnt í samfélagi okkar en slík veikindi leiða oft til lyfjanotkunar og eiturlyfjaneyslu. Þær tölur eru hræðilegar sem við höfum verið að sjá frá SÁÁ á undanförnum árum um fíkniefnaneytendur sem þangað koma og það hvað fíkniefnaneyslan virðist stöðugt vera að færast niður aldursstigann og ég vil beina spurningu til hæstv. heilbrrh.: Hvaða upplýsingar liggja fyrir varðandi bakgrunn og ástæður þess að ungt fólk fer út í eiturlyfjaneyslu? Hefur verið gerð einhver raunveruleg könnun á því hvað býr þarna að baki? Ég held, eins og ég nefndi, að það sé afar brýnt að átta sig á því ef okkur á að takast að ná tökum á þessum vanda. Hvað er það sem skapar eftirspurnina og hvaða ráðum getum við beitt til að draga úr henni?

[22:15]

Ég er sjálf af þeirri kynslóð, eins og reyndar hæstv. heilbrrh., sem upplifði það á sínum unglingsárum að eiturlyf tóku að streyma inn í landið. Maður áleit þau kannski þá ekki jafnhættuleg og ýmislegt annað. Þó var þar ýmislegt mjög hættulegt eins og LSD. Þá var sú hugmyndabylgja í gangi að sjálfsagt væri að prófa allt og býsna stórir hópar, t.d. í menntaskólum á þeim tíma, prófuðu að reykja hass og sumir reyndu ýmislegt annað og hafa aldrei beðið þess bætur.

Þó ýmislegt hafi verið til áður þá fylgdi þessi bylgja uppreisn ungdómsins kringum 1968. Ég held að því miður hafi þessu ekki linnt en það eru kannski ýmsar aðrar ástæður sem koma til núna vegna þess að það er --- nú ætla ég að fullyrða það, okkur vantar félagslegar kannanir hér á landi til að átta okkur á þjóðfélagsbreytingum --- í raun og veru hlutfallslega stærri hópur barna og unglinga sem á í félagslegum vandræðum núna en áður, við skulum segja fyrir 20 árum.

Ég fæ ekki betur séð, af þekkingu minni á samfélaginu, en að þetta sé vaxandi hópur. Þegar ég segi þetta er ég m.a. að vísa til þess sem konur sem vinna í þessum geira hafa sagt mér, á barnageðdeild Landspítalans og á meðferðarheimilum sem ég hef heimsótt. Þær eru gríðarlega áhyggjufullar yfir þessum vaxandi vanda sem kannski á að einhverju leyti rætur að rekja til mikillar vinnu foreldra og hreinlega vanrækslu á börnum. Þeim hefur fundist að þarna væri alls ekki nóg að gert. Það voru miklar áhyggjur af því í þessum hópi þegar krakkarnir gengu út, 16 ára. Nú hefur þó orðið sú breyting að það er hægt að halda þeim heima og hjálpa til 18 ára aldurs og vonandi bjargar það einhverju.

Nú kemur að næstu spurningu minni til hæstv. heilbrrh. Mér er sagt, og þar hef ég fyrir mér hóp foreldra barna sem hafa átt við fíkniefnavanda að stríða, að það vanti mjög sárlega úrræði. Mér skilst að meðferðarúrræði fyrir unglinga vanti. Foreldrarnir segja: SÁÁ er ekki rétti staðurinn. Það er ekki nógu gott að unglingar séu innan um fullorðið fólk. Þótt SÁÁ sæki fram í fíkniefnavörnum er starf þeirra auðvitað fyrst og fremst byggt upp í kringum áfengisvandann sem er nógu stór. Það er a.m.k. skoðun þessara foreldra að sárlega vanti meðferðarúrræði fyrir unglinga. Ég vil spyrja hæstv. heilbrrh.: Er eitthvað að gerast á því sviði? Er fram undan að opna einhver ný heimili sem sérstaklega taka á meðferð unglinga sem eiga við fíkniefnavanda að stríða?

Ég get tekið undir það sem kom fram fyrr í dag hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni þegar hann ræddi um Schengen. Ég held að ef við gerumst aðilar að Schengen þá þurfum við heldur betur að taka okkur á hvað varðar tollaeftirlit og annað eftirlit ef við eigum að bera ábyrgð á því gagnvart Evrópu hvað hér fer í gegn. Við berum hana nú þegar en þetta verður vitanlega miklu meiri ábyrgð.

Ég vil eins og fleiri segja að ég harma mjög að ekki skuli hafa náðst samstaða um þetta frv. og að ekki skyldi finnast einhver leið til að ná samstöðu stjórnar og stjórnarandstöðu. Hér er um svo alvarlegt og mikilvægt mál að ræða að ekki er hægt annað en að harma að nefndin skuli hafa klofnað. Eins og ég skil umræðuna sem átt hefur sér stað í dag er það fyrst og fremst tvennt sem ágreiningur er um, annars vegar um skipan ráðsins og hins vegar um verkefnin, skilgreiningar á því hvað ráðið eigi að gera.

Ég tek undir það með hæstv. heilbrrh. að ég held það hafi verið fullkomlega tímabært að leggja niður áfengisvarnaráð. Ég verð að segja að mér hefur lengi fundist það vera mjög úr takti við tímann. Ég held það sé vissulega af hinu góða að tengja saman þá aðila sem eru að vinna að þessum málum, einhver vettvangur sé þar sem menn koma saman og miðla upplýsingum. Hins vegar hefði ég talið að til að slíkt ráð, sem á að sinna ansi víðtækum verkefnum, nái árangri hefði verið til bóta að í það minnsta fulltrúar meðferðaraðila væru þarna með, að þeir sem hafa sérfræðiþekkingu á þessum málum væru þarna með. Að vísu gæti heilbrrn. auðvitað skipað einhvern slíkan fulltrúa. Í 2. gr. stendur reyndar að til setu í áfengis- og vímuvarnaráði skuli að jafnaði velja einstaklinga sem séu sérfróðir um áfengis- og vímuvarnir. Þá spyr maður sig: Er slíka sérfræðinga að finna innan ráðuneytanna eða utan ráðuneytanna? Hvers konar tengsl verða við ráðuneytin ef þessir fulltrúar eru ekki í ráðuneytunum? Ég átta mig ekki alveg á því hver hugsunin er í þessu. Hvert ráðuneyti fyrir sig tilnefnir fulltrúa, síðan Samband íslenskra sveitarfélaga og þá varamenn með sama hætti. Auðvitað geta ráðuneytin samkvæmt þessu kallað til einhverja sérfræðinga utan frá. En þá spyr maður, hvað verður þá um þetta samráð, tengslin inn í ráðuneytið, til þeirra sem bera hina raunverulegu ábyrgð?

Það kemur fram í fskj. 1 eins og við vitum að ríkisstjórnin hefur mótað stefnu í fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum. Töluvert samstarf hefur verið skipulagt, m.a. við Reykjavíkurborg og reynt er að virkja ýmis félagasamtök. Á bls. 7 getur að líta helstu meginmarkmið þessarar stefnu. Þau eru auðvitað öll af hinu góða en maður spyr sig auðvitað, hvað er verið að gera og hvað skilar árangri? Hefur heilbrrn., sem er yfir þessum málum, kynnt sér að einhverju marki hvað skilað hefur árangri erlendis?

Hér var um daginn gestur frá Ítalíu, ef ég man rétt, sem var að fræða fólk um það hvað þar hefur verið gert og sjálfsagt víðar þar sem hann þekkir til. Ég missti því miður af fundinum með honum, held ég hafi verið erlendis þegar hann kom. Fræðslan er auðvitað mjög af hinu góða og ég held það þyrfti að gera meira af því að fræða. Ég var á ráðstefnu í vor í Stokkhólmi á vegum Norðurlandaráðs þar sem fjallað var um velferðarkerfi Norðurlanda. Þar var komið inn á það, í sambandi við unga fólkið og aðgerðir í sambandi við atvinnuleysi ungs fólks, að ýmislegt sé gert til að reyna að draga úr hinni mjög svo óæskilegu notkun á fíkniefnum. Það er auðvitað stóra spurningin: Hvað er verið að gera til að fylgja þessari stefnu eftir?

Áðan var rætt um fjárveitingar til lögreglunnar og fleira í þeim dúr. Þá get ég auðvitað ekki látið hjá líða að rifja upp að í vetur hafa staðið yfir miklar umræður um stöðuna hjá lögreglunni, ekki síst lögreglunni í Reykjavík. Þar hefur fíkniefnalögregluna borið hæst. Öll sú umræða hefur vakið mikla athygli og gerir mann áhyggjufullan yfir stöðunni sem þar er. Þau mál hafa opnað okkur sýn inn í þennan heim sem ég þekki sem betur fer afar lítið.

Ég vil láta það koma fram að þótt ég sé af kynslóðinni sem ég tilgreindi áðan, hæstv. forseti, þá hef ég aldrei prófað nein fíkniefni önnur en að ég reyndi að byrja að reykja þegar ég var átta ára. Sem betur fer tókst það ekki en einstaka sinnum smakka ég áfengi, og ætti sjálfsagt að hætta því ef ég væri almennileg. Við sjáum nú til með það.

Ég var komin að því hvernig lögreglan er í stakk búin til að taka á þessum vanda og sú umræða sem hefur átt sér stað í vetur gerir mann mjög áhyggjufullan um það hvernig hún stendur að vígi. Vonandi mun þessi umræða og sú rannsókn sem gerð hefur verið á málefnum lögreglunnar leiða til þess að menn taki sér tak en ég reikna með og er viss um að efla þarf fíkniefnalögregluna og sjá til þess að hún hafi bæði nægilegan mannafla og nauðsynleg tæki til að sinna sínu verki.

Ég óttast mjög að þótt menn setji sér þau markmið að Ísland verði án fíkniefna árið 2002, eða að menn móti stefnu fram til ársins 2000 sem er nú mjög að styttast í, þá sé vandinn miklu stærri en svo. Því vil ég nú gera það að mínum lokaorðum að brýna hæstv. heilbrrh. til þess að láta vinna rækilega könnun á þessum vanda. Ég veit ekki til að raunveruleg könnun á þessum vanda hafi verið gerð svo að við getum áttað okkur á því sem þarna býr að baki. Hvað er það sem leiðir ungt fólk út í fíkniefnaneyslu í jafnríku samfélagi og Ísland er? Hér ríkir auðvitað misrétti og kjör fjölskyldna eru afar mismunandi en hvað veldur? Þar vil ég sérstaklega nefna, sem kemur reyndar fram í stefnu ríkisstjórnarinnar, möguleika foreldra til að sinna börnum sínum og jafnframt afstöðu Íslendinga til barna. Er eitthvað þar sem skýrir vandann? Erum við enn þá svo föst í því að láta börn ganga meira og minna sjálfala?

Við búum á eyju úti í Atlantshafi og ættum í raun og veru að hafa mikla möguleika til að fylgjast með öllu sem berst til landsins hvort sem það kemur gegnum hafnir eða flug. Því held ég það hljóti að vera hægt að stemma stigu við þessum innflutningi í ríkari mæli en við gerum. Við þurfum líka að átta okkur miklu betur á því hvað það er sem leiðir ungt fólk út í þennan vanda. Hvaða aðgerðir duga? Þær hljóta að vera á mörgum sviðum eins og auðvitað þessi stefna gerir ráð fyrir, það eru forvarnir og fræðsla og það er ýmislegt sem snýr að lífskjörum fólks og afstöðunni til barna og ungmenna. Síðast en ekki síst þurfa meðferðarúrræði að vera til þegar skaðinn er skeður. Sem betur fer þá eru þess mörg dæmi að hægt sé að hjálpa ungu fólki.

Þegar fulltrúar foreldra komu á minn fund fyrir nokkrum vikum þá sagði einmitt ein móðirin frá því hvernig hennar dóttur hefði verið bjargað. Þess vegna var hún að leggja öðrum lið til þess að það mætti bjarga fleirum. Ég held að við hljótum að vera sammála um að hér sé um svo stórt og alvarlegt mál að ræða að það þurfi verulega að taka á. Við hljótum að hlusta á umræðuna úti í heimi og þann ótta sem þar er vegna stöðugt aukinnar upplausnar hjá fjölskyldum.

Annað sem ég rakti í ræðu minni í gær var hvað fjölskyldumynstur eru að breytast um allan hinn vestræna heim. Það breytir auðvitað stöðu barna, það gefur auga leið. Endurteknir hjónaskilnaðir og ný og ný sambönd, þetta er mikið álag á börn. Mér finnst að fólk hugsi kannski ekki nægilega vel út í það. Ég vil gera það að mínum lokaorðum að ég held að við þurfum að stórefla ábyrgðarkennd foreldra. Þetta er ekki bara vandi barnanna, þetta er líka vandi og ábyrgð foreldra.