Skipun rannsóknarnefndar um málefni Landsbanka Íslands hf.

Föstudaginn 05. júní 1998, kl. 11:09:29 (7575)

1998-06-05 11:09:29# 122. lþ. 146.7 fundur 723. mál: #A skipun rannsóknarnefndar um málefni Landsbanka Íslands hf.# þál., utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 146. fundur, 122. lþ.

[11:09]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Mikið gerningaveður hefur verið í þjóðfélaginu að undanförnu út af þessu alvarlega máli sem tengist Landsbankanum. Ýmsir þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa borið mjög alvarlegar ásakanir á viðskrh. sem ég tel að sé nánast rógburður og þessar ásakanir halda áfram.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sagði í umræðunni að viðskrh. greindi ekki rétt frá. Að vísu kom annar stjórnarandstæðingur, hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir, og sagði að hæstv. ráðherra hefði sagt Alþingi rangt frá en óafvitandi. En allt ber það að sama brunni. Hæstv. ráðherra er rógborinn með þessum hætti.

Ég verð að segja alveg eins og er að þegar ég hlustaði í upphafi á hv. þm. Sighvat Björgvinsson þá minntist ég þess tíma þegar hann stóð í ræðustól 1976, ég held þann 2. febrúar, og fór með mjög alvarlegar ásakanir fyrir hönd Alþfl. á þáv. dómsmrh., Ólaf Jóhannesson. Hann sagði skipti eftir skipti í þeirri ræðu að hann hefði þurft að hafa meiri tíma til þess að rannsaka þetta mál og ég held að þingmaðurinn hefði átt að gefa sér betri tíma til að rannsaka málið áður en hann fór áðan í ræðustól og ég er feginn því að hann hefur hafið að fylgjast með umræðunni en hann hefur verið fjarverandi, kannski til að afla sér nýrra upplýsinga í málinu. Það var alvarlegt þegar Alþfl. stóð fyrir því en hann virðist lítið hafa lært.

Þetta er hins vegar ekki í fyrsta skipti og ekki í síðasta skipti sem mun koma upp alvarlegt mál í samfélagi okkar sem tengist fjármálum. Við minnumst þess að það komu upp mál sem tengdust Útvegsbankanum og Hafskip á sínum tíma. Það komu upp mál sem tengdust óreiðu á tímum Alþfl. í heilbrrn. Ekki datt okkur í hug þá sem sátum á Alþingi að setja upp sérstakan rannsóknarrétt í þeim málum. Við töldum rétt að nota þær stofnanir þjóðfélagsins sem við höfum verið að byggja upp. Við höfum verið að byggja upp óháð dómsvald og styrkja óháð dómsvald. Við höfum verið að byggja upp sjálfstæði rannsóknaraðila og verið að styrkja þær stofnanir. Við höfum komið upp Ríkisendurskoðun sem er óháð framkvæmdarvaldinu og rannsóknarvaldið er óháð. Nú vilja hv. stjórnarandstæðingar grafa undan þessum stofnunum og setja upp sérstakan rannsóknarrétt, pólitíska rannsóknarnefnd að hætti Maós, Stalíns og annarra slíkra. Þetta er framtíðarsýnin sem þessir flokkar hafa um afskipti Alþingis af alvarlegum málum í stað þess að styrkja þær stofnanir sem eiga um þetta að fjalla. (ÖJ: Er pólitíkin óhrein?) Ég tel að hún sé ekki óhrein en það er mikilvægt að dómsvaldið sé óháð og rannsóknarvaldið sé óháð en það sé ekki hv. þm. Ögmundur Jónasson sem fer með það. Það vil ég leggja áherslu á og það er það sem skiptir máli. (ÖJ: Er verið að meina mér um málfrelsi?) Þetta mál er í mjög skýrum farvegi. Nú vill hv. stjórnarandstaða koma því í óskýran farveg, í pólitískan farveg. (Gripið fram í: Upplýsa málið.) Treystir hv. þm., löglærður maðurinn, ekki réttum stofnunum landsins til þess að framkvæma slík mál? Treystir hann ekki Ríkisendurskoðun? Treystir hann ekki ríkissaksóknara? Hvers konar rugl er þetta að verða? Vita menn ekki á hverju lýðræðið byggir? (RG: Af hverju er ráðherrann svona æstur?) (ÖJ: Hvernig er þetta gert í þjóðþingum erlendis?) Ráðherrann sér fulla ástæðu til þess að vera reiður þegar ráðherra í ríkisstjórn er borinn slíkum rógi, ekki síst undir forustu Alþfl. sem kemur ekki á óvart.