Skipun rannsóknarnefndar um málefni Landsbanka Íslands hf.

Föstudaginn 05. júní 1998, kl. 11:30:33 (7579)

1998-06-05 11:30:33# 122. lþ. 146.7 fundur 723. mál: #A skipun rannsóknarnefndar um málefni Landsbanka Íslands hf.# þál., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 146. fundur, 122. lþ.

[11:30]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Þetta mál snýst m.a um samskipti ráðherra við Alþingi. Ein af meginskyldum alþingismanna er eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Til þess að geta rækt þá skyldu verða þingmenn að geta aflað upplýsinga frá handhöfum framkvæmdarvaldsins, ráðherrunum. Það er nauðsynlegt að geta treyst því að svör og upplýsingar sem ráðherrar gefa séu réttar og þeir veiti þær upplýsingar sem tiltækar eru ef kallað er eftir þeim.

Fyrir tveimur árum, þegar ég spurði um málefni Lindar, vék hæstv. ráðherra sér undan að svara, var með undanbrögð og kvaðst einungis hafa upplýsingar úr fjölmiðlum. Á sama tíma var sami ráðherra með upplýsingar, ítarlega og alvarlega skýrslu Ríkisendurskoðunar um málefni Lindar og bréf formanns bankaráðsins um stöðu fyrirtækisins á skrifborðinu sínu.

Kannski var skýrsla Ríkisendurkoðunar vinnu- eða trúnaðarplagg á þeim tíma, eins og ráðherra segir nú. Ráðherra bar þá að segja frá því, segja að fyrir lægi skýrsla um málið en hún væri trúnaðarmál og þess vegna gæti hann ekki upplýst frekar um hana. Hann átti að gera sér grein fyrir upplýsingaskyldu sinni gagnvart Alþingi. Til þess voru næg tilefni.

Hæstv. ráðherra lét aftur á móti eins og engin skýrsla væri til og hann vissi jafnlítið um málið og fyrirspyrjandi.

Miðað við nýjustu upplýsingar virðist hér vera um samantekin ráð hjá ráðherra, bankaráðinu og bankastjórunum og jafnvel fleirum, að svæfa málefni Lindar. Það kallast yfirhylming.

Kjartan Gunnarsson, þáv. formaður bankaráðs Landsbankans, hefur nú viðurkennt, með því að vísa málinu til saksóknara, að hér sé um svo alvarlegt mál að ræða að það varði hugsanlega við lög landsins. Það hlýtur hann einnig að hafa vitað fyrir tveimur árum og án efa ýmsir hæstv. ráðherrar í ríkisstjórninni sem sannanlega höfðu ekki aðeins vitneskju heldur upplýsingar um málið.

Það er nauðsynlegt að fara yfir þessi mál. Mér finnst reyndar liggja ljóst fyrir að ráðherra brást skyldu sinni og leyndi upplýsingum í fyrirspurnatímanum 3. júní fyrir tveimur árum. Alþingi getur ekki farið heim án þess að ákveðið verði að skoða þessi samskipti bankamálaráðherra við Alþingi eða að tekið verði á framkomu hæstv. ráðherra við þingið þegar kallað var eftir upplýsingum um málefni Lindar fyrir tveimur árum. Þess vegna verður að samþykkja tillöguna sem hér er til umræðu en ekki vísa henni frá eins og stjórnarflokkarnir leggja til. Það að þeir vilji vísa henni frá gefur til kynna að hér sé einhverju að leyna, hér sé eitthvað sem ekki þoli dagsins ljós.