Skipun rannsóknarnefndar um málefni Landsbanka Íslands hf.

Föstudaginn 05. júní 1998, kl. 11:33:56 (7580)

1998-06-05 11:33:56# 122. lþ. 146.7 fundur 723. mál: #A skipun rannsóknarnefndar um málefni Landsbanka Íslands hf.# þál., SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 146. fundur, 122. lþ.

[11:33]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Hér er borin fram tillaga um rannsóknarnefnd til að fjalla um málefni Landsbanka Íslands hf. og samskipti framkvæmdarvalds og Alþingis. Öllum er ljóst að tilefni tillögunnar er títtnefnt Lindarmál, sem á síðustu vikum hefur ítrekað verið til umfjöllunar hér á Alþingi.

Ég er andvíg skipun rannsóknarnefndar af því tagi sem gert er ráð fyrir í tillögunni. Málefni Lindar hf. eru nú til rannsóknar hjá ríkissaksóknara, sem Alþingi ber fullt traust til. Ég tel það farsælli lausn til að upplýsa málið en að alþingismenn rannsaki störf hver annars. Það er einfaldlega ekki trúverðugt og raunar mjög hæpin vinnubrögð, enda sjaldan reynt á ákvæði stjórnarskrár í þessu efni.

Það er með öllu óviðeigandi, í sömu andrá og ríkissaksóknari fær Lindarmálið til rannsóknar, að Alþingi setji rannsóknarnefnd ofan í rannsókn hans. Slík vinnubrögð væru fullkomið vantraust á störf ríkissaksóknara og í engu fallin til að leiða til ásættanlegrar niðurstöðu í málinu.

Það er stundum talað um að við ættum ekki að nota amerískar aðferðir í stjórnarfari. Að þessu leyti get ég tekið undir þá skoðun. Ég hef ekki trú á að sérstök rannsóknarnefnd alþingismanna geti komist að trúverðugri niðurstöðu í málinu eftir það sem á undan er gengið. (ÖJ: Þið viljið bara rússneskar aðferðir.)

Ástæða er til að velta fyrir sér því, í þessu samhengi, hvort óundirbúnar fyrirspurnir skili okkur því sem við ætlumst til og eðlilegt er að krefjast. Varla verður ætlast til þess að sá einstaklingur sem gegnir ráðherradómi hafi fyrirvaralaust á hraðbergi allar þær upplýsingar sem um er beðið. Þá er hvorki málefnalegt né sanngjarnt að setja yfir hann pólitískan rannsóknardómstól vegna þess að hann hafi ekki haft á takteinum nákvæmustu upplýsingar um það efni sem um var spurt.

Það mál sem hér er reifað í þinginu er vissulega mikið alvörumál. Það hvarflar ekki að nokkrum manni, hvorki utan þings né innan, að gera lítið úr mikilvægi þess að koma í veg fyrir að sambærileg mál og Lindarmálið komi upp.

Herra forseti. Þessi þáltill. er fráleit. Málatilbúnaður stjórnarandstöðu í því sem að hæstv. viðskrh. snýr er byggður á röngum forsendum. Málið er þegar komið í þann farveg sem fullnægjandi er. Þess vegna ber að vísa tillögunni frá.

Okkur alþingismönnum hefur verið trúað fyrir ábyrgðarmiklum störfum. Við eigum að hjálpast að við þau störf sem eru þjóðinni til hagsbóta. Við megum aldrei falla í þá gryfju, í pólitískri orrahríð, að sóa kröftunum í að grafa undan starfi Alþingis.