Eftirlit með fjármálastarfsemi

Föstudaginn 05. júní 1998, kl. 14:26:57 (7615)

1998-06-05 14:26:57# 122. lþ. 146.9 fundur 560. mál: #A eftirlit með fjármálastarfsemi# frv. 87/1998, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 146. fundur, 122. lþ.

[14:26]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að gera neinar tillögur um það hver hæstv. ráðherra mun stuðla að því að verði skipaður sem forstjóri þessarar fjármálastofnunar, eftirlitsstofnunar, þó að manni detti ýmislegt í hug í ljósi reynslunnar og ég sjái ekki betur en einn og einn traustur framsóknarmaður sé á lausu. Ég ætla ekki að nefna nokkur einustu nöfn í því sambandi. Ég er alveg viss um að hæstv. viðskrh. getur það hjálparlaust. Það er margt í því sem hann sagði sem ég er ósammála.

Ég ætla bara að mótmæla einu. Auðvitað bar hann ábyrgð á starfsemi ríkisbankanna þó að bankaráðið hafi verið kosið af Alþingi. Það er algerlega klárt og það liggja fyrir ótalmargir lögfræðilegar greinargerðir um það að hæstv. ráðherra getur engan veginn skotið sér undan því að viðskrh. bar þarna tvímælalausa stjórnskipulega ábyrgð. Það er engin spurning um það, líka þegar Alþingi kaus bankaráðið.

Núna segir hæstv. ráðherra aftur á móti: Nú er ábyrgðarsambandið hins vegar orðið beint, og ég skal algerlega fallast á að það er beint núna. Það var algerlega skýrt áður en það er fullkomlega beint núna. Ráðherra ber í dag á þessu alla ábyrgð. Þar með ber hann ábyrgð á bankaráðunum og því sem bankaráðin gera og gera ekki og líka því t.d. að bregðast ekki við með kæru þegar þeim berast í hendur upplýsingar um vítaverða framgöngu aðila sem heyra undir bankann eða eru tengdir bankanum. Þess vegna ber ráðherrann alveg tvímælalaust ábyrgð á þessum málum og getur ekki skotið sér undan því og það er gott að hann viðurkenni það.