Eftirlit með fjármálastarfsemi

Föstudaginn 05. júní 1998, kl. 14:34:04 (7619)

1998-06-05 14:34:04# 122. lþ. 146.9 fundur 560. mál: #A eftirlit með fjármálastarfsemi# frv. 87/1998, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 146. fundur, 122. lþ.

[14:34]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Maður veltir því fyrir sér hvort allir hlutir hér séu algerlega óumbreytanlegir. Þessi salur hefur staðið hér lengi, myndin af Jóni Sigurðssyni hefur lengi verið hér, forsetastóllinn lengi þarna, svalirnar lengi hér í kring, ráðherrastólarnir þarna um skeið. Eins er það að verða með hv. þm. Vilhjálm Egilsson. Hann er að verða eins og partur, með leyfi að segja, herra forseti, af mublunum hérna. Maður veit veit alltaf fyrir fram hvað hann kemur til með að segja. Hann segir alltaf nákvæmlega það sem maður veit að hann mun segja til þess að rökstyðja afstöðu sína til hvaða máls sem hann kemur upp með. Honum dettur eiginlega aldrei neitt nýtt í hug.

Ég vil spyrja hv. þm. að því hvort þessu fylgi ekki mikil vanlíðan, að vera í raun og veru í þeirri stöðu að geta aldrei komið til móts við nokkurn þingmann með sanngirni, án þess að gefa honum a.m.k. selbita í leiðinni.

Ég ætla að svara hv. þm. Í fyrsta lagi varðandi sameiningu bankaeftirlitsins og Vátryggingaeftirlitsins. Ég hef alltaf talið að það orkaði tvímælis. Ég get út af fyrir sig alveg fallist á að það verði gert, enda verði faglega vel um það búið. Ég segi, að því er varðar bankaeftirlitið, að ég tel það að mörgu leyti kost að bankaeftirlitið var undir Seðlabankanum en ekki beinlínis undir ráðherranum, eins og verður hér. Ég tel það mikinn galla á þessu máli og hefði viljað finna aðra leið, þó ég viðurkenni að það er flókið og hefði kannski þurft að byrja á því að flytja eignarhaldsforræðið yfir í annað ráðuneyti. Ég hefði alveg getað tekið undir slíkt með hv. þm.

Með öðrum orðum tel ég að það mætti fara þessa leið ef það væri faglega vel um hana búið. Ég sé ekkert í málinu sem tryggir þau öryggisatriði sem ég nefndi fyrr í máli mínu.

Varðandi það hvort ég hefði viljað að þessar tvisvar sinnum 200 milljónir hefðu lent á viðskiptavinum frekar en Landsbankanum, svona spurning er nú eiginlega varla svaraverð. Veruleikinn er sá að Landsbankinn hlaut að gera þetta. En þurfti bankinn að veita þessar ábyrgðir? Var það rétt af bankastjóranum að veita þessar ábyrgðir án þess að bera það undir bankaráðið? Nei, sagði Ríkisendurskoðun.