Gjöld af bifreiðum

Föstudaginn 05. júní 1998, kl. 14:50:47 (7624)

1998-06-05 14:50:47# 122. lþ. 146.15 fundur 715. mál: #A gjöld af bifreiðum# frv. 83/1998, SJS
[prenta uppsett í dálka] 146. fundur, 122. lþ.

[14:50]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég skal ekki leggjast gegn því að 2. umr. um þetta mál ljúki og efh.- og viðskn. geti hist og skoðað þær brtt. sem meiri hlutinn boðar nú að hann hyggist leggja fram. Ég verð þó að leyfa mér að láta í ljós það álit mitt að þetta sé heldur dapurlegt dæmi um það hvernig hlutirnir eigi ekki að ganga fyrir sig á Alþingi á síðustu dögum. Það sem hér er undir varðar heilmikla hagsmuni í þjóðfélaginu. Það hefur allt of skammur tími gefist til þess að skoða ofan í kjölinn áhrifin af þeim breytingum sem frv. meiri hluta efh.- og viðskn. hefur í för með sér fyrir greiðendur þungaskatts, þá einkum og sér í lagi flutningaaðilana á lengri leiðum.

Þær hugmyndir um breytingar sem sýndar hafa verið í efh.- og viðskn. á síðustu sólarhringum eru því miður því marki brenndar að leysa vandamálin ekki nema að mjög litlu leyti og gera jafnvel illt verra. Dreifing greiðslubyrðar verður mjög misjöfn milli einstakra aðila og útkoman úr því dæmi jafnframt. Það er því ekki af hinu góða í sjálfu sér, herra forseti, að Alþingi komi til með að standa frammi fyrir brtt., misgóðri e.t.v., þegar komið er að 3. umr. á síðasta sólarhring þingstarfanna hér.

Ég leyfi mér að lýsa, herra forseti, vonbrigðum og óánægju með það hvernig þessi mál hafa þróast. Ég mun að öðru leyti ekki leggjast gegn því að 2. umr. ljúki, en hlýt auðvitað að áskilja mér rétt til þess að láta álit mitt í ljósi við 3. umr., eins þótt það kunni að kosta það að þingfrestun tefjist um tíu eða fimmtán mínútur af þeim sökum. Eins og kunnugt er þá er það ekki mjög þægileg aðstaða sem menn eru settir í þegar búið er að ákveða þingfrestun á einhverjum tilteknum tíma sólarhringsins, að undir lokin sé málfrelsið í raun og veru nánast tekið af mönnum. Þá er slæmt að vita að mál af þessu tagi séu að koma til lokaafgreiðslu.