Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Fimmtudaginn 02. október 1997, kl. 21:06:53 (17)

1997-10-02 21:06:53# 122. lþ. 2.1 fundur 20#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, MF
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur

[21:06]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur.

,,Ég sit á herðum manns, þjarma að honum og læt hann bera mig og samt fullvissa ég sjálfan mig og aðra um að ég finni mjög til með honum og vilji með öllum tiltækum ráðum létta honum byrðina, nema með því að fara af baki hans.``

Þessi orð Leos Tolstoj komu upp í huga minn þegar ég hlustaði á ræðu hæstv. forsrh. og heyrði hverjum hann þakkar árangurinn í efnahagsmálum, þar sem verkafólk fær ekki að njóta sannmælis frekar en aðrir.

Það er rétt að á síðustu tíu árum hafa orðið verulega jákvæðar breytingar á efnahagslífi þjóðarinnar, aðallega vegna hagstæðra ytri skilyrða sem hafa fært okkur aukinn hagvöxt með öflugra atvinnulífi og vaxandi tekjum ríkissjóðs. Það er því rangt að þakka ríkisstjórninni einni fyrir árangur í efnahagsmálum eins og gert var hér áðan.

Grunnurinn að betri efnahag þjóðarinnar var lagður í tíð ríkisstjórnar sem sat á árunum 1988--1991 með samkomulagi við verkalýðshreyfinguna og samtök atvinnurekenda. Hafi einhver ástæðu til að berja sér á brjóst og þakka sér árangurinn er það verkafólkið í landinu. Það var launafólkið í landinu sem tók á sig byrðarnar til að rétta við efnahagslíf þjóðarinnar.

En í stað þess að þakka launafólki fórnirnar hefur verkalýðshreyfingin orðið fyrir síendurteknum árásum stjórnvalda á undanförnum árum og nú fyrirhugar ríkisstjórnin árás á lífeyriskerfið sem verkalýðshreyfingin hefur byggt upp í góðu samstarfi við samtök atvinnurekenda, lífeyriskerfi sem til að mynda sérfræðingar Alþjóðabankans hafa sagt að sé eitt það besta í heiminum og lýst því sem sérstakri fyrirmynd. Þetta kerfi samtryggingar og samhjálpar vilja ríkisstjórnin og peningaöflin eyðileggja. Barátta verkalýðshreyfingarinnar í dag fer í að verja undirstöðu velferðarkerfisins sem hún hefur tekið virkan þátt í að skapa á undanförnum áratugum. Barátta hreyfingarinnar snýst um að verja áunnin réttindi og kjör launafólks. En hún er líka barátta fyrir mannréttindum. Baráttumál verkalýðshreyfingarinnar eru um margt þau sömu og Alþb. og annarra félagshyggjuafla eins og komið hefur í ljós í störfum okkar hér á Alþingi þar sem stjórnarandstaðan hefur lagt hreyfingunni lið eftir mætti og staðið gegn tilraunum ríkisstjórnarinnar til að brjóta niður samtakamátt launafólks.

Ríkisstjórnin eignar sér árangur verkalýðshreyfingarinnar í kjaramálum, launahækkanir og vaxandi kaupmátt. Ríkisstjórnin eignar sér þann árangur sem aldraðir og öryrkjar hafa náð með samtakamætti sínum þó að enn sé langt í land að þessir hópar búi við viðunandi kjör. Góðærið hefur ekki skilað sér til þessara láglaunahópa. Það hefur heldur ekki skilað sér til ungs fjölskyldufólks sem vinnur mikið, er með húsnæðisskuldir og námslánaskuldir en býr við mjög háa jaðarskatta þrátt fyrir þær breytingar sem gerðar hafa verið og voru kynntar hér áðan. Góðærið, vaxandi hagvöxtur, efnahagsbatinn, hefur heldur ekki skilað sér til um 5.000 einstaklinga sem eru án atvinnu og búa við skertan rétt eftir aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Batinn hefur ekki skilað sér til þeirra fjölmörgu bænda sem búa við hreina fátækt og batinn hefur ekki gert vart við sig hjá þeim þúsundum manna sem þurfa að leita á náðir félagsmálastofnana vegna fátæktar. Þessu fólki var lofað að það mundi njóta þess þegar betur færi að ára, en það loforð hefur verið svikið. Batnandi efnahagur hefur skilað sér til annarra en þessara hópa. Auðurinn, arðurinn af góðærinu, safnast á fárra manna hendur. Misskiptingin í þjóðfélaginu hefur stóraukist.

Góðir hlustendur. Helmingaskiptaklúbbur ríkisstjórnarinnar hefur boðað aukið sjálfstæði og ákvörðunarrétt ríkisstofnana í orði, minni ríkisafskipti og minni miðstýringu. En hvað gerir hann á borði? Öllu er stýrt frá háborði helmingaskiptaklúbbsins. Vinum klúbbsins eru færð verkefni frá ríkinu í nafni samkeppni, en allt sem heitir samhjálp og samábyrgð er eitur í beinum klúbbfélaga. Harðar kröfur eru settar fram um sparnað og hagræðingu í heilbrigðiskerfinu án þess að skilgreina hlutverk og þjónustustig einstakra stofnana. Óvissan í heilbrigðiskerfinu bitnar þó verst á þeim sem síst skyldi, sjúklingunum sjálfum.

Heilsugæslan, sérstaklega á landsbyggðinni, er í algerlega óviðunandi stöðu. Sjúkrahúsin búa enn við óþolandi óvissu hvað varðar starfsemi þeirra í framtíðinni og vaðið er fram með tillögur sem virðast unnar án samráðs við starfsfólk, samanber nýlega samþykkt frá starfsmannaráði Ríkisspítala. Kjaramál ýmissa fagstétta eru í uppnámi og enn og aftur er þjónusta við sjúklinga skert. Nú síðast heyrðum við af skertri þjónustu við geðsjúka. Ráðleysi yfirvalda er látið heita sparnaður og ráðdeild. Við höfum úr takmörkuðum fjármunum að spila, segir hæstv. heilbrrh. og málið er í hreint endalausri skoðun í ráðuneytinu. Góðærið hefur samt skilað sér í ríkiskassann. Umsvif í ríkisrekstri hafa að sama skapi aukist án þess að nokkur forgangsröðun verkefna hafi átt sér stað. Það hefur bitnað á heilbrigðiskerfinu.

Hlutverk ríkisins er ekki skilgreint. Hvaða verkefni eiga að hafa forgang? Hvaða verkefni á að greiða fyrir úr sameiginlegum sjóðum landsmanna í breyttu þjóðfélagi?

Í ræðu sinni lagði hæstv. forsrh. áherslu á mikilvægi menntunar og afrek ríkisstjórnarinnar í þeim efnum. Ég tek heils hugar undir það að eitt mikilvægasta verkefni okkar er að bæta og jafna aðstöðu fólks til menntunar og að það er nauðsynlegt að auka sjálfstæði menntastofnana. En orð eru eitt og athafnir annað þegar þessi ríkisstjórn á í hlut.

Í nýsamþykktum lögum um framhaldsskóla var fagmennskunni ýtt út fyrir pólitíkina með breyttri skipan skólanefnda. Faglegri stefnumörkun var skipt út fyrir pólitíska í frv. um háskóla sem verður lagt fyrir öðru sinni í haust. Þar ætlar hæstv. menntmrh. sér að skipa rektora og fulltrúa í háskólaráð. Ef þetta frv. verður óbreytt að lögum er harkalega vegið að sjálfstæði háskólanna.

Hæstv. forsrh. lagði líka áherslu á að upplýsingatæknin sé nýtt til hins ýtrasta á öllum skólastigum. Það má taka undir þessi sjónarmið. En veit hann að í Háskóla Íslands, æðstu menntastofnun þjóðarinnar, er ein tölva á hverja 42 nemendur?

Við höfum getað státað af tiltölulega jafnri aðstöðu til náms. En með aukinni áherslu stjórnarflokkanna á gjaldtöku í skólum landsins er vegið mjög harkalega að jafnréttinu. Hvergi í yfirlitsræðunni var minnst á nauðsyn þess að auka símenntun, endurmenntun eða fjarkennslu, sem við í Alþb. teljum vera mjög mikilvæga þætti í menntakerfinu. Möguleikar verkafólks og atvinnulausra til að ná sér í menntun hafa þvert á móti verið stórlega skertir í tíð núverandi ríkisstjórnar.

Forsrh. talaði um skattalækkanir. Hverjir nutu þeirra helst? Hefur raunveruleg heildarskattbyrði minnkað? Svarið er nei. Óbeinir skattar hafa til að mynda hækkað svo nemur milljörðum, fyrst og fremst í formi þjónustugjalda, gjalda sem bitna harðast á þeim sem minnst hafa til ráðstöfunar, þeim sem minnst fengu við skattalækkun ríkisstjórnarinnar.

Góðir áheyrendur. Hæstv. forsrh. sagði hér áðan að það væri dýrt að búa á Íslandi. Það er rétt. En það fer svolítið eftir því hver í hlut á. Það er dýrt fyrir marga að sækja háskólanám, en helmingaskiptaklúbbnum finnst það ekki nógu dýrt því að heyrst hefur af áformum um að hækka skólagjöld í allt að 100 þús. kr. Það er dýrt að vera ungur með börn á Íslandi og reyna að koma sér upp þaki yfir höfuðið og búa við allt of háa jaðarskatta.

Þrátt fyrir þetta allt saman virðist framtíðarsýn forsrh. vera björt. En hann talar þá fyrir hönd þeirra sem hafa notið góðærisins. Ég tel það harla ólíklegt að einstæð móðir sem fær skerðingu á barnabótum við 48 þús. kr. mánaðarlaun skilji köll forsrh. úr turninum sem hrópar eins og Tóbías úr sínum turni í Kardemommubænum forðum að nýr dagur sé hafinn og allt sé í sómanum í Kardimommubæ. Alþb. hefur aðra framtíðarsýn. Okkar framtíðarsýn byggir á frelsi og mannréttindum. En það hefur sjaldan verið eins mikilvægt og nú að allt félagshyggjufólk safni liði og sameinist gegn stefnu núverandi stjórnarflokka, komi í veg fyrir þá umbyltingu þjóðfélagsins sem stjórnarflokkarnir stefna að. --- Góðar stundir.