Félagsleg aðstoð

Mánudaginn 06. október 1997, kl. 17:18:29 (83)

1997-10-06 17:18:29# 122. lþ. 3.8 fundur 23. mál: #A félagsleg aðstoð# (umönnunargreiðslur) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[17:18]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Þá er loksins kominn botn í málið. Hér kemur yfirlýsing frá hæstv. ráðherra um að málið fari inn til heilbr.- og trn. og verði fullunnið þar vegna þess að það vanti eitthvað upp á það. Það getur vel verið að eitthvað skorti á varðandi gerð þessa frv. en ég tel að hún leggi það veganesti með þessu máli inn í nefndina að það eigi að fullvinna það og þar með eigi að leggja málið fram til samþykktar í vor eða fyrr. Ég fagna því vegna þess að ég held að þegar upp er staðið muni hæstv. ráðherra komast að því, ef hún beitir ekki kvarðanum sem felst í því að telja krónur og aura, að þetta eykur lífshamingju fólks og það er til nokkurs að vinna í stjórnmálum að geta lagt það lóð á vogarskál að það bæti velferð fólks. Sannanlega gerir þetta mál það. Ég segi fyrir mig að ekki skal standa á formanni hv. heilbr.- og trn. að vinna þetta mál.

Hæstv. ráðherra hefur áður leitað til nefndarinnar og nefndin hefur fúslega dregið hann og ráðuneytið að landi þegar kemur að umönnunarbótum. Hæstv. ráðherra nefndi áðan að hún hefði nú þegar beitt sér fyrir því að umönnunarbætur breyttust og það er rétt að það var gert varðandi langsjúk börn og þar var það heilbr.- og trn. sem kom til bjargar einum degi fyrir þinglok og keyrði málið í gegn og það var bara sjálfsagt mál og gott. En það var sjálfsagt líka að tína það hér til að það mál kostaði ráðuneytið ekki eina einustu krónu. Það var forsenda málsins eins og það var lagt upp hér að það ætti ekki að kosta neitt og þannig var málið afgreitt. Ég stóð í deilum sem stjórnarandstæðingur en formaður heilbr.- og trn. í heila nótt við hv. þm. Kristin H. Gunnarsson sem var ekki algerlega sammála málinu.

En gott og vel, herra forseti. Það hefur tekið dálítinn tíma að draga afstöðu upp úr hæstv. ráðherra og oft þarf nánast að beita töngum til þess. En nú hefur, tel ég, hæstv. ráðherra lýst því yfir þó í myrku máli sé að henni finnist málið gott. Það hlýtur að vera því að þetta er nánast framhald af stefnu Framsfl. og ekki skal standa á mér að reyna að hrinda þeim parti af stefnu Framsfl. í framkvæmd.