Tenging bóta almannatrygginga við laun

Þriðjudaginn 07. október 1997, kl. 13:34:53 (88)

1997-10-07 13:34:53# 122. lþ. 4.92 fundur 31#B tenging bóta almannatrygginga við laun# (aths. um störf þingsins), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[13:34]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ástæða þess að ég kveð mér hljóðs um störf þingsins er sú að við erum að fara ræða fjárlagafrv. Á bls. 432 í fjárlagafrv. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

Kynnt er lagabreyting sem er væntanleg um að ,,ákvæði um hækkun bóta sem sett voru til bráðbirgða með lögum nr. 144/1995, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, verði gerð varanleg``. Hér er ríkisstjórnin að boða að bætur úr almannatryggingakerfinu muni í framtíðinni ekki vera tengdar launum. Þetta setti ríkisstjórnin á með bráðabirgðaákvæði sem hefði runnið út um næstu áramót. Nú boðar hún að þetta skuli gert varanlegt. Eldri borgarar eiga að fá að koma á hnjánum til ríkisstjórnarinnar í hvert skipti að afloknum kjarasamningum eða við önnur tækifæri þegar ástæða er til að hækka bætur úr almannatryggingakerfinu.

Ég sé ástæðu til þess, herra forseti, að spyrja um þetta boðaða frv., hvort það verði lagt fram strax í tengslum við fjárlagaumræðuna, vekja jafnframt athygli á því að við þingmenn, Ágúst Einarsson, Steingrímur J. Sigfússon, Jón Baldvin Hannibalsson og Kristín Ástgeirsdóttir, fulltrúar stjórnarandstöðunnar í efh.- og viðskn., höfum lagt fram frv. sem er á þskj. 15 þar sem kveðið er á um að bætur úr almannatryggingakerfinu skuli taka mið af breytingum sem verða á launum, sem sagt að setja þetta eldra form í gildi aftur. Ég vil af tilefni þess spyrja forseta hvort hann muni greiða fyrir því að þetta frv. komi hér fljótt til afgreiðslu þannig að eldri borgarar, sem sáu ástæðu til að fjölmenna á Austurvöll og mótmæla ríkisstjórninni og stefnu hennar gagnvart öldruðu fólki, þar á meðal því ákvæði sem ég er að gera að umtalsefni, geti séð afstöðu ríkisstjórnarflokkanna í atkvæðagreiðslu eins og fljótt og hægt er. Því það er afdráttarlaust að stefna ríkisstjórnarflokkanna kom fram í þessu ákvæði í frv. sem hingað til hefur ekki verið vakin athygli á.