Tenging bóta almannatrygginga við laun

Þriðjudaginn 07. október 1997, kl. 13:40:12 (91)

1997-10-07 13:40:12# 122. lþ. 4.92 fundur 31#B tenging bóta almannatrygginga við laun# (aths. um störf þingsins), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[13:40]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Það er að sönnu rétt að það mun gefast tækifæri til þess að ræða þetta mál sérstaklega bæði hér síðar í dag og einnig er frv. það kemur til umræðu sem minnst hefur verið á. En ástæðan fyrir spurningu hv. þm. Ágústs Einarssonar er auðvitað það sem stendur á bls. 432 um að sú breyting sem kveðið var á um í lögunum nr. 144/1995 verði gerð varanleg. Það stendur hér og því er ekki að undra að spurt sé á þessum degi, þegar samtök aldraðra gera svo rækilega vart við sig sem raun bar vitni hér utan dyra. Hver er stefna ríkisstjórnarinnar varðandi það að kjör aldraðra fylgi almennum launakjörum í landinu? Það hlýtur að vera réttmæt krafa, ekki síst eftir allar þær skerðingar og tekjutengingar sem aldrað fólk hefur orðið fyrir bæði í tíð núverandi ríkisstjórnar og fyrrverandi, að knúið sé á um hver stefnan sé og hvort meiningin sé að binda áfram í lögum að kjör aldraðra hækki eftir ákveðinni prósentutölu meðan aðrir fá umframhækkanir og svo sé kannski verið að reyna að lappa upp á þetta einhvern veginn og einhvern veginn. Hér þarf auðvitað miklu meiri stefnumörkun að eiga sér stað og því ástæða til þess að spyrja hvað þessi klausa þýðir.