Fjárlög 1998

Þriðjudaginn 07. október 1997, kl. 17:59:03 (112)

1997-10-07 17:59:03# 122. lþ. 4.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[17:59]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru örfá atriði sem ég vildi fá að nefna í framhaldi af ræðu hv. þm. Í fyrsta lagi spyr hann: Hvernig verður staðið að sölu þeirra fyrirtækja sem nefnd eru í fjárlagafrv.? Það verður auðvitað gert með svipuðum hætti og hefur verið á undanförnum árum. Það er starfandi nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar sem fer eftir ákveðnum reglum og hugmyndin er auðvitað sú að sala þessara fyrirtækja, þ.e. að hlutafé í þessum fyrirtækjum fari fram með svipuðu sniði og verið hefur. Það er auðveldara um vik vegna þess að hér er um að ræða hlutafélög. Það er verið að selja hlutafé ríkisins og þess vegna auðvelt að finna markaðsverð á slíkum bréfum.

Í öðru lagi er spurt um málamiðlun í sambandi við lífeyrissjóðafrv. Það er áætlað að nefndin ljúki störfum um miðjan mánuðinn. Ég hef enn þá vonir um að það náist samkomulag þar, en verði svo ekki þá verður auðvitað haldið áfram þar sem frá var horfið. Þar er um að ræða málamiðlun á milli tveggja sjónarmiða sem uppi voru og ég veit að hv. þm. man þau afar vel og þeim er lýst í meirihlutanefndarálitinu sem var skilað til þingsins í vor.

Það er ekki gert ráð fyrir skólagjaldahækkun í háskólanum þó að ugglaust væri skynsamlegt að gera það og auka á þjónustugjöld víðar. Ég minni hv. þm., sem les talsvert, á að ég tel, að í síðustu skýrslu OECD um Ísland er sérstaklega tekið fram varðandi menntakerfið og skólamálin að það væri æskilegt fyrir íslenska skólakerfið að meiri fjármunir kæmu frá atvinnulífi og einstaklingum heldur en er í dag. Þar á meðal er verið að tala um skólagjöld. Svipuð viðhorf voru uppi í Bretlandi.

Ég vil taka það fram, af því að nú tala menn mikið um að jafnaðarmenn um heim allan eigi að sameinast, að Tony Blair í Bretlandi hefur verið mjög harður á því að halda skólagjöldunum og hefur bent á nauðsyn þess og mikilvægi að hafa slíka mælikvarða í gangi. Það þarf því ekki að fara lengra en til Bretlands til þess að fá þann krata sem er vinsælastur í dag í Evrópu til þess að standa með skólagjöldum á háskólastigi og ég vænti þess að kratar allra landa standi saman.