Fjárlög 1998

Þriðjudaginn 07. október 1997, kl. 19:44:40 (131)

1997-10-07 19:44:40# 122. lþ. 4.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[19:44]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég óska eftir því að verða settur á mælendaskrá síðar í kvöld við umræðuna. Ég vil þó gera örstutta athugasemd við málflutning hv. síðasta ræðumanns þar sem hann óskapast yfir samneyslunni í íslensku þjóðfélagi og hafði mörg orð um þá sem vinna í velferðarþjónustunni og í samneyslunni almennt, en hann fer einnig með rangt mál. Hann ber á borð tölur og upplýsingar sem eru ekki réttar.

Staðreyndin er sú að hlutur samneyslunnar í okkar þjóðarframleiðslu er mun minni hér en tíðkast í t.d. grannríkjum okkar. Mannaflinn sem starfar við samneysluna er mun minni en gerist í okkar viðmiðunarríkjum, mun minni en alls staðar á Norðurlöndum. Að þessu mun ég víkja í máli mínu þegar ég tek þátt í umræðunni síðar í kvöld.

Annað sem hv. þm. gerði var að skírskota til ferðar sem var farin fyrir nokkru til Norðurlandanna, Noregs og Danmerkur, þar sem þingmönnum gafst tækifæri til að ræða við starfsmenn póst- og símamálastofnana þar. Þingmaðurinn sagði að þar hefði tekist vegna einkavæðingarinnar að fækka starfsmönnum um 30--40% og ef ég skildi hann rétt, þá er hann að vonast til þess að hið sama muni gerast hér. Þetta er vissulega mikið áhyggjuefni á ýmsum stöðum á landsbyggðinni þar sem menn óttast að farið verði að loka pósthúsum t.d. í hagræðingarskyni. Mér finnst þessi málflutningur í rauninni vera svo stórfurðulegur að ég mun reifa þessi rök eða þessa rökleysu hv. þm. í máli mínu síðar í kvöld en ég sá mig knúinn til að koma hér upp og gera örstutta athugasemd.