Fjárlög 1998

Þriðjudaginn 07. október 1997, kl. 20:10:25 (137)

1997-10-07 20:10:25# 122. lþ. 4.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[20:10]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin og það gleður mig sannarlega að á vegum ráðuneytisins skuli vera starfandi nefnd um símenntun og fullorðinsfræðslu. Ég vona bara að sú nefnd komist ekki að þeirri sömu niðurstöðu og hæstv. menntmrh. virðist hafa komist að, að fullorðinsfræðsla eigi alfarið að vera á kostnað þeirra sem hana stunda. Ég verð að segja að ég er á móti því að svo sé um hnútana búið. Það er margt fólk á Íslandi á fullorðinsaldri sem átti þess ekki kost vegna búsetu eða aðstæðna á ungum aldri að stunda nám og þráir það heitt að gera það núna þó það sé jafnvel orðið fullorðið og ég tel að þjóðfélagið eigi að setja metnað sinn í að þessu fólki sé gert kleift að stunda þessa menntun.

Ég er mjög ánægð með fullorðinsfræðsluframtakið sem verið er að gera á Suðurnesjum um þessar mundir en vona að það eigi ekki eftir að verða þeim sem vilja notfæra sér það fjárhagslega ofviða.

Það er mjög gott að mál þeirra Hornfirðinga skuli vera tekið föstum tökum núna í ráðuneytinu. Það gleður mig sannarlega.

Að síðustu vil ég svo bara segja að 5 milljónir í raungreinar er afskaplega lítið. Þar er skorturinn tilfinnanlegur og lengi hefur verið trassað að setja það fjármagn í námsefnisgerð í raungreinum sem þörf hefur verið á.