Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 14:26:26 (148)

1997-10-08 14:26:26# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[14:26]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. fór nú vítt og breitt um heilbrigðismálin. Ég mun svara honum betur á eftir í ræðu en má til með að koma með andsvar.

Hann talaði um einkavæðinguna í upphafi og sagðist vera alfarið á móti einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu. En það vill nú þannig til að það hefur ávallt verið ákveðin einkavæðing í heilbrigðisþjónustu. Við erum að einkavæða ákveðna þjónustu við aldraða. Við erum með einkavæðingu í tengslum við læknastofur. Og sú mesta einkavæðing sem hefur orðið í heilbrigðisþjónustu var í tíð hv. þm. Sighvats Björgvinssonar þegar ferliverkin voru sett á. Ég verð að spyrja hv. þm.: Var hann á móti því? Var hann líka á móti því að sérstök röntgenmyndastofa yrði opnuð úti í bæ? Það gerðist líka í tíð hv. þm. þegar hann sat í ráðherrastól. Var hv. þm. Össur Skarphéðinsson á móti því?

Hann talaði um að réttur einstaklinga til að njóta læknisþjónustu væri ekki jafn. Það er númer eitt og það erum við að verja. Ég ætla bara aðeins að rifja það upp að árið 1992 hækkuðu gjöld einstaklinga til læknisþjónustu um 40%. Og hverjir voru þá við völd? (KHG: Hvað hefur þú lækkað það mikið?) Við höfum ekki hækkað þessi gjöld meira en svo að hækkunin er innan við 5%. (ÁRJ: Og nú er góðæri.) Já. Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir segir: ,,Og nú er góðæri.`` Enda er ekki gert ráð fyrir hækkunum í þessu frv. og því held ég að menn verði að halda til haga þegar rætt er um heilbrigðismálin og verði að muna svolítið sína fortíð. Hv. þm. kom inn á að erfiðleikar væru í rekstri, t.d. í Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Ég geri mér fulla grein fyrir því að reksturinn þar er ekki auðveldur. En fyrir mjög skömmu voru settar 500 millj. til sjúkrahúsanna á Reykjavíkursvæðinu til að létta reksturinn. Og hv. þm. spurði að því hvað væri meint með því að ábyrgðin væri þeirra sem rækju sjúkrahúsið. Þegar við lögðum þessar 482 millj. til sjúkrahúsanna í Reykjavík lagði Reykjavíkurborg á móti 2 millj.