Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 18:34:16 (193)

1997-10-08 18:34:16# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[18:34]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Hagvöxturinn skilar í þjóðarbúið líklega 15--17 milljörðum kr. og mér finnst satt að segja ekki mikil tíðindi þó að eitthvað ýrist af því inn í heilbrigðiskerfið eins og staðan er jafnvel þó að það séu dálitlar upphæðir. Mér finnst það ekki mikil tíðindi. Ég held að veruleikinn sé sá að verið er að framreikna stærðirnar í heilbrrn. Mér sýnist það standa þannig. Menn eru að reyna að taka á ýmsum hlutum þar vafalaust sums staðar myndarlega en í það heila tekið er það þannig að ákvarðanir um fjárframlög og m.a. sparnað eins og hæstv. ráðherra hefur viðurkennt eru handahófskenndar. Ég segi það alveg eins og er, herra forseti, þær eru handahófskenndar. Ég er algerlega viss um að ef einhver nennir því að bera saman niðurstöður ríkisreiknings 1997 og fjárlög ársins 1997 að því er lyfin varðar mun ríkisreikningurinn hafa vinninginn vegna þess að þau áform sem sett voru fram í greinargerð fjárlagafrv. í fyrra standast ekki. Varðandi tannlækningarnar var ég ekki að gagnrýna neitt annað en ég tel varasamt að halda áfram að skera niður til tannlækninganna. Ég held að menn ættu frekar að skoða þá hluti betur jafnvel þó að það gæti kostað aukna fjármuni vegna þess að ég held að versnandi tannheilsa barna og unglinga muni koma niður á heilbrigðiskerfinu í auknum útgjöldum á komandi árum og þó sérstaklega kannski áratugum.