Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 19:10:07 (202)

1997-10-08 19:10:07# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[19:10]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra sagði að engin ákvörðun hefði verið tekin en samt hefði ákvörðun verið tekin um að greiða niður lán og greiða vexti fyrr heldur en ella. Það er nákvæmlega það sem gert er. Það er ákvörðun ríkisstjórnarinnar að skila ríkissjóði með yfir milljarðs halla. Það er ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Sumt í þeirri ákvörðun kann að vera skynsamlegt. Ég neita því ekki. Og út af fyrir sig var það skynsamlegt að innkalla þessi skuldabréf og fá hagstæðari lánskjör. Ég skal fúslega viðurkenna það. En niðurstaðan er engu að síður sú að það er ákvörðun ríkisstjórnarinnar mitt í góðærinu að skila ríkissjóði með eins milljarðs kr. halla og það er framtíðarsýn hæstv. fjmrh. að á næstu árum megi menn þakka fyrir að ná endum saman í ríkisbúskapnum. Sami maður og sagði á erfiðleikaárunum að það væri skylda hvers fjmrh. á Íslandi í góðæri að skila ríkissjóði með hagnaði og greiða þannig niður erlendar skuldir. En hann stendur ekki við það, hæstv. ráðherra. Hann stendur ekki við það. Hann er ekki nú í góðærinu að draga saman umsvif ríkissjóðs heldur langt í frá. Hann ætlar m.a. að afla sér fjármuna til að verja í rekstur sem fást af hagnaði af eignasölu þannig að hann er eins og maðurinn sem er að byggja sér hús og tekur þá ákvörðun að fjármagna rekstur heimilisins með því að selja frá sér kjallarann. Það er ekki skynsamleg stefna í ríkisfjármálum að fjármagna rekstrarumsvif ríkisins með því að selja eignirnar, að fjármagna kreditkortið með því að selja frá sér kjallarann. En það er hæstv. ráðherra að gera.