Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 19:32:22 (206)

1997-10-08 19:32:22# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[19:32]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Núv. hæstv. fjmrh. hóf sinn feril á því að leggja lögguskatt á sveitarfélögin (Félmrh.: Það var fyrir mína tíð.) Og því var mótmælt mjög harðlega af stjórnarandstöðunni í þinginu á þeim tíma. Síðan hefur ekki gróið um heilt á milli ríkisins og sveitarfélaganna nema að því er varðar það að menn hafa reynt að laga til fyrir sér og stundum náð árangri og stundum ekki.

Til viðbótar við lögguskattinn og þá óhæfu sem fólst í honum var tekin ákvörðun um þessa gríðarlega hækkun meðlaga sem lenti líka á sveitarfélögunum og er einnig óuppgert dæmi eins og hæstv. félmrh. viðurkenndi áðan, en til viðbótar koma svo þessar 500 millj. Og þar fannst mér að hæstv. félmrh. væri að leggja inn á lögguskattsaðferðina gagnvart sveitarfélögunum. Það væri verið að stilla þeim upp við vegg. Og þó að hæstv. félmrh. finnist að sveitarfélögin eigi ekki að græða á skattalækkunum sem ég get út af fyrir sig alveg tekið undir, þá er það ekki hans að ákveða það. Það er sveitarfélaganna að ákveða það samkvæmt lögum landsins og reyndar stjórnarskrá þannig að ríkið á ekki að stilla sveitarfélögunum upp við vegg í þessum efnum og þess vegna finnst mér mikilvægt að ég tel að hæstv. ráðherra hafi viðurkennt að það á að semja um hlutina. Samningar þýða að menn setjast niður við borð og komast að niðurstöðu en kýla ekki hvern annan með einhverjum minnislistum ofan úr fjmrn. eða hvaðan sem þeir kunna annars að vera.