Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 21:24:01 (239)

1997-10-08 21:24:01# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[21:24]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé alveg óhætt að segja frá því hér að þegar fjárreiðulögin voru sett í fyrra, þá höfðu verið um þau mjög mikil átök, m.a. innan stjórnarflokkanna, gríðarleg átök við ráðherrana sem gerðu sumir hverjir allt sem þeir gátu til að stoppa málið í fyrra. En þeir stoppuðu það í hittiðfyrra, fjárreiðulagafrv. þó að það væri fullunnið í þinginu. Hér var því auðvitað um að ræða grundvallarátök um prinsippmál sem snerta stöðu Alþingis og skiptir gríðarlegu máli að formaður fjárln. ekki einasta sjái til þess að þessir hlutir séu framkvæmdir í anda laganna heldur að þeir séu framkvæmdir samkvæmt lögunum og hann kenni ráðherrunum, flokksbræðrum sínum og öðrum, að fara eftir þessum lögum eins og þau eru skrifuð og sett af Alþingi með samhljóða atkvæðum. Og það er gríðarlega mikilvægt að þingið taki í vetur á þessu slugsi við framkvæmd fjárreiðulaganna sem birtist bæði í fjárlagatillögum Alþingis og hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson nefndi í dag og sérstaklega að því er varðar stofnun sendiráðsskrifstofu í Finnlandi sem engin nauðsyn bar til að setja á stofn og fleiri þætti sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson t.d. rakti í andsvari í gær. Það þarf að stoppa svona vinnubrögð núna. Annars eru lögin einskis virði.