Málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 10:46:24 (262)

1997-10-09 10:46:24# 122. lþ. 6.91 fundur 35#B málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna# (umræður utan dagskrár), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[10:46]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka málshefjanda, Svavari Gestssyni, fyrir að taka þetta mál upp. Ég held að það hafi verið alveg nauðsynlegt að þessi úrskurður stjórnar lánasjóðsins eða niðurstaða væri rædd hér á Alþingi. Í vor þegar lögunum um stjórn lánasjóðsins var breytt var það nokkuð gagnrýnt hversu lögin eru opin, hversu mikið valdaframsal fer fram í lögunum og að það eru ekki bara lög sem gilda um lánasjóðinn það er líka reglugerð, það eru úthlutunarreglur og auk þess vinnureglur stjórnar. Og á það var bent að regluverk lánasjóðsins stæðist varla þá grundvallarreglu réttarríkisins að reglur skuli vera stöðugar, skýrar og aðgengilegar. Það er nú komið í ljós einungis nokkrum vikum eftir að sú breyting á lögunum um lánasjóðinn sem gerð var í vor tók gildi. Námsmenn höfðu bent á þetta, stjórnarandstaðan benti á þetta og lagði á það áherslu að lögin þyrftu að vera skýrari og að menn þyrftu að vita nákvæmlega að hverju þeir gengju. Eigi að síður gerist það nú nokkrum vikum eftir að lögin taka gildi að meiri hluti stjórnar lánasjóðsins ákveður að nemendum í greinum þar sem fjöldatakmarkanir eru viðhafðar fái aðeins eitt tækifæri á námslánum. Þetta þýðir, herra forseti, að það er ekki farið eftir því hvort viðkomandi hefur sýnt fullnægjandi námsárangur, annað er látið ráða. Stjórnarliðar vísa í það að umboðsmaður Alþingis hafi úrskurðað í tilteknu máli og þess vegna hafi stjórnin þurft að taka þessa ákvörðun. En það er ekki svo vegna þess að í úrskurði umboðsmanns Alþingis er ekki sett út á ívilnandi framkvæmd gagnvart clausus-nemum. (Forseti hringir.) Það er ekki þannig. Þess vegna er málið enn alvarlegra. Þess vegna virðist manni að hér sé um pólitíska ákvörðun að ræða og það er enn alvarlegra, herra forseti.