Hlutafjárvæðing ríkisbanka og fjárfestingarlánasjóða

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 11:16:26 (274)

1997-10-09 11:16:26# 122. lþ. 6.92 fundur 36#B hlutafjárvæðing ríkisbanka og fjárfestingarlánasjóða# (umræður utan dagskrár), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[11:16]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Atburðir síðustu vikna koma ekkert á óvart vegna þess að við sögðum þetta fyrir í vor. Áhrif sjálfstæðis- og framsóknarmanna yrðu tryggð við útfærslu á hlutafjárvæðingunni. Og það hefur gerst. Það þarf ekki annað en að fara yfir nöfn þeirra sem núna sitja í bankaráðum beggja bankanna, í Fjárfestingarbankanum og Nýsköpunarsjóðnum. Mennirnir sem hafa verið ráðnir núna sem bankastjórar eru allt forustumenn í Sjálfstfl. og í Framsfl. auk þess að vera áhrifamenn í hagsmunakerfi atvinnulífsins. Þetta eru valdamenn þessara tveggja flokka. (Gripið fram í: Björgvin Vilmundarson líka?) Hæstv. viðskrh. svaraði engu spurningu hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar hvort honum fyndist eðlilegt að framkvæmdastjóri Sjálfstfl. sitji sem formaður VÍS og varaformaður Landsbankans. Þetta mundi hvergi þekkjast þó svo ég geti staðfest hér úr ræðustól að framkvæmdastjóri Sjálfstfl. er ágætismaður, það er ekki málið sem er til umræðu. Hvar mundi þetta þekkjast? Hvergi nema hér. Ráðherra talar um að ráðinn hafi verið einn aðalbankastjóri. Þetta er þvæla. Það verður ekki gert vegna þess að þetta er bara orðaleikur. Tillaga okkar stjórnarandstæðinga var felld í vor um að hafa einn skipstjóra á skútunni nákvæmlega eins og meiri hluti efh.- og viðskn. reyndar vildi. Þeir náðu nú ekki einu sinni saman í meiri hluta í nefndinni fyrir Fjárfestingarbankanum eins og menn muna. Stjórnarliðar stóðu nú ekki betur að baki hæstv. ráðherra en það.

Ég get upplýst það að efh.- og viðskn. er með til sérstakrar skoðunar kaup Landsbankans á VÍS. Ýmsum spurningum er ósvarað um það efni og þau mál þarf að skýra betur. Þetta er mjög einkennileg atburðarás (Forseti hringir.) og niðurstaðan er sú að meiri og vaxandi ríkisumsvif eru á fjármálamarkaðnum hér á landi en nokkurs staðar í Evrópu.