Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 11:52:10 (285)

1997-10-09 11:52:10# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., Flm. ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[11:52]

Flm. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég fellst ekki á þessi rök vegna þess að þau eru röng. Ef lagt er á veiðileyfagjald og menn segja: ,,Það tryggir kvótakerfið``, þá er það rangt vegna þess að veiðileyfagjald tryggir einmitt að ekki er um eign að ræða, því að þú greiðir ekki leigu af því sem þú átt. Ég er líka að segja að veiðileyfagjaldið er hægt að leggja á án tillits til hvort þetta kvótakerfi er í gangi eða ekki. Það er hægt að leggja á veiðileyfagjald og afnema kvótakerfið, aflamarkskerfið sem við búum við, og þess vegna taka upp sóknarmarkskerfi eða blandað sóknarmarkskerfi eða aflamarkskerfi. Að leggja á veiðileyfagjald hefur ekkert með það að gera tryggja núverandi kvótakerfi í sessi. Það er ekkert samhengi þar á milli vegna þess að veiðileyfagjaldið er gjald fyrir afnotarétt af fiskimiðunum. Síðan kemur stýrikerfið sem útfærir þennan afnotarétt. Við búum við ákveðið kerfi sem er gagnrýnt af mjög mörgum og menn geta afnumið það hvenær sem þeir vilja og þurfa ekkert að breyta hugmyndafræðinni eða álagningu veiðileyfagalds. Þess vegna eru það röng rök sem heyrðust á þessum fundi og hafa heyrst áður að veiðileyfagjaldið út af fyrir sig tryggi núverandi fiskveiðistjórnun. Það gerir það ekki. Það tryggir fyrst og fremst þjóðareignina og að mínu mati opnar möguleika á því að menn gætu þá einbeitt sér að því að fara í umræðu um fiskveiðistjórnunarkerfið. Það er ýmislegt þar sem þyrfti að breyta og ég nefndi hér nokkur þingmál okkar jafnaðarmanna í því sambandi.