Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 14:37:25 (322)

1997-10-09 14:37:25# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[14:37]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Nú þarf ég að fara að halda allar gömlu ræðurnar mínar aftur. Ég hélt því fram, og vonandi hafa menn tekið eftir því, herra forseti, að ég gerði greinarmun, ég sagði að það gæti mjög vel verið að við hefðum náð árangri við fiskveiðistjórn á uppsjávarfiskum en ég fullyrti líka að við hefðum ekki náð árangri við veiðistjórn á bolfiski. Ég gerði greinarmun á þessu. Ég hef haldið því fram áður og farið oft í gegnum það að það er fyrst og fremst sóunin í bolfiskveiðunum sem gerir þetta kerfi vonlaust. Ég hef líka haldið því fram að það kerfi sem við eigum að nota í staðinn sé einmitt að útdeila sóknareiningum alveg eins og Færeyingarnir gera. Þeir útdeila fiskidögum. Og ég veit að með því að gera þetta á þann veg, alls ekki að taka veiðiheimildina af skipunum, heldur láta þau hafa sóknarrétt í staðinn fyrir aflaheimildirnar, þá hverfur brottkastið eins og dögg fyrir sólu. Við það er sóunin farin. Við það þarf ekki að umreikna fiskinn í frystitogurunum. Nei, þá landa þeir bara því sem þeir geta landað og hafa fiskað. Það þarf enga töfraformúlu til þess. Til þess nýta þeir hvern dag sem þeir hafa eins vel og þeir geta. Þetta er það sem ég hef mælt fyrir. Vonandi fæ ég tækifæri til að mæla fyrir því áfram á Alþingi. Vonandi tekst að ná um það samstöðu, breiðri samstöðu, að flytja einmitt tillögur í þessa veru, til þess að byrja með fyrir smábátana a.m.k. sem við eru í miklum vandræðum með þannig að þeir komi nú allir undir einn hatt og fái að njóta sín, þannig að fiskimaðurinn, þannig að einyrkinn í sjávarútvegi fái að njóta sín, fái að njóta atorku sinnar, fái að njóta dugnaðar síns og að hin ýmsu sjávarþorp og hinir ýmsu landshlutar fái að njóta landgæða sinna en í því er fyrst og fremst fólgin vonin um að við getum hámarkað arðinn af sjávarútvegi.