Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 15:07:09 (332)

1997-10-09 15:07:09# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[15:07]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég veit að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson ætlast ekki til þess að ég útskýri þetta fyrir honum eina ferðina enn í stuttu andsvari. Ég verð að biðja hann um að lesa tillöguna aftur og ég verð að biðja hann að lesa ræður okkar þingmanna jafnaðarmanna þegar þær verða útgefnar einfaldlega vegna þess að sú umræða sem hann hefur verið viðstaddur í dag virðist ekki nægja. En með veiðileyfagjaldi er eins og stendur í tillögutextanum, svo ég geri nú stutta tilraun, átt við gjaldtöku í tengslum við úthlutun veiðiheimilda. Það er átt við að menn greiði fyrir aðgang að sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Þetta er ekki svo flókið. Og einnig hitt, sem mér fannst nú vera hreinn útúrsnúningur, áðan talaði ég um að verðið á veiðiheimildum --- verðið sem menn eru tilbúnir til að borga fyrir veiðiheimildir, sýni okkur m.a. þann arð sem þegar er orðinn í veiðunum. Það sýnir okkur líka þá hagnaðarvon sem menn sjá í því að fjárfesta í veiðiheimildum. Þetta eru ekki útúrsnúningar, hv. þm., þetta eru ekki útúrsnúningar, herra forseti, þetta er bara málið eins og það liggur fyrir og sá rökstuðningur sem er settur fram til þess m.a. að undirbyggja að þegar í dag væri hægt að leggja á veiðileyfagjald, ekki mjög hátt, en það væri hægt að byrja. Það er nauðsynlegt af ýmsum ástæðum að því verði hrundið í framkvæmd hið fyrsta.