Fyrirhuguð ferð utanríkisráðherra til Indónesíu og annarra Asíulanda

Mánudaginn 13. október 1997, kl. 15:04:40 (367)

1997-10-13 15:04:40# 122. lþ. 7.1 fundur 41#B fyrirhuguð ferð utanríkisráðherra til Indónesíu og annarra Asíulanda# (óundirbúin fsp.), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[15:04]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Að lokinni heimsókn til Argentínu og Chile var það rætt milli utanrrn. og fulltrúa Útflutningsráðs hvort við skyldum stefna að því að einhver sambærileg ferð yrði farin á næsta ári. Það var ákveðið að kannað yrði hvort aðstæður væru til þess og hvort áhugi væri til þess hjá atvinnulífinu. Það hefur komið til tals að utanrrh. fari til Indónesíu. Það er ekkert öðruvísi en fulltrúar margra annarra ríkja gera, þar á meðal fulltrúar allra Norðurlandanna. Það hefur að mínu mati ekki þurft að standa í vegi fyrir því að fulltrúar þessara ríkja fari til Indónesíu, jafnvel þótt ekki ríki mikil ánægja með ástand þar á ýmsum sviðum.

Það er líka nauðsynlegt, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, að ræða þessi alvarlegu mál við fulltrúa þessara ríkja og kynna sér ástand þar af ýmsum ástæðum. Þannig að ég hlýt að svara þeirri spurningu játandi, það kemur til greina að utanrrh. fari til Indónesíu.