Fjarkennsla

Mánudaginn 13. október 1997, kl. 15:57:22 (396)

1997-10-13 15:57:22# 122. lþ. 7.4 fundur 9. mál: #A fjarkennsla# þál., Flm. SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[15:57]

Flm. (Svanfríður Jónasdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Það er þörf fyrir stefnumótun. Það kom fram í máli hæstv. ráðherrans að hann telur að í ákveðnum þáttum þurfi skýrari stefnu og hann talar sjálfur um úttekt. Ég er því nú ekki viss um að við séum að tala jafnmikið í austur og vestur eins og mér fannst koma fram í hans máli.

Ég held að við séum sammála um að það hafi verið mjög farsælt hvernig einstöku skólar og hæfileikamenn og áhugamenn innan þeirra hafa hingað til leitt þetta starf. Það liggur hins vegar ljóst fyrir að það er orðin allnokkur reynsla sem þarf að taka saman. Hana þarf að taka saman til að móta tiltekna stefnu. Ég held að það sé nauðsynlegt og met það svo vegna samtala minna við bæði skólamenn og sveitarstjórnarmenn úti um landið sem finnst þeir örlítið vera að fálma í myrkri. Menn hafa snúið sér til Verkmenntaskólans á Akureyri þegar þeir hafa haft uppi óskir um þjónustu í þessa veru. Það er spurning hvort ekki sé ástæða til að skoða hvort grunnskólar eða fullorðinsfræðslumiðstöðvar og aðrir sem hafa áhuga eigi þá að snúa sér þangað og hvort það á þá að gera meira úr því starfi sem þar er en að kalla það tilraunaverkefni eins og enn er eða hvernig menn vilja standa að framhaldinu. Menn eru að leita eftir því hvert þeir eigi að snúa sér. Ég held að það verði mjög athyglisvert að sjá hvað kemur út úr þessari úttekt sem ráðherrann nefnir. Ég vil benda á að ég er í rauninni líka að biðja um úttekt samkvæmt tillögunni sem hér liggur fyrir. Vissulega er það rétt hjá ráðherranum að það er gott að við getum rætt þessi mál á hv. Alþingi og það er löngu tímabært.