Fjarkennsla

Mánudaginn 13. október 1997, kl. 16:20:41 (402)

1997-10-13 16:20:41# 122. lþ. 7.4 fundur 9. mál: #A fjarkennsla# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[16:20]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Margt var athyglisvert í ræðu hv. þm. Hjálmars Árnasonar. Hann ræddi nauðsyn þess að greiða niður þá þjónustu sem nemendur í fjarnámi þyrftu að kaupa af símafyrirtækjum. Ég er ekki viss um að það sé rétt aðferð að fara þá leið. Ég held líka að sá kostnaður sem felist í þessu sé sáralítill og ekki líkt eins mikill og hv. þm. gat um.

Í dag fá þeir nemendur sem eru í fjarnámi sent í tölvupósti sín gögn á tilteknum tíma og tilteknum degi. Þeir geta unnið það á tölvu sinni og síðan senda þeir verkefni sín aftur til baka þannig að ég held að í þessu sé sáralítill kostnaður.

Ég held líka að mikil samkeppni sé á þessum markaði sem muni þegar til framtíðar horfir leiða til þess að verð muni lækka og auðvitað eru fleiri en fyrirtækið sem hv. þm. nefndi, Póstur og sími hf. sem er nú reyndar ekki til lengur, sem stunda sölu á þessari þjónustu. En ég vildi gjarnan fá fram hjá hv. þm. hvernig hann sér fyrir sér að niðurgreiðsla af þessu tagi fari fram og hvort hann hyggist vegna þess að hann hefur aðstöðu til að beita sér í krafti þátttöku sinnar í ríkisstjórnarliðinu reyna að hrinda hugmyndum sínum um niðurgreiðslur í framkvæmd, annaðhvort með tillöguflutningi eða þá í hv. menntmn.