Eftirlit með starfsemi stjórnvalda

Mánudaginn 13. október 1997, kl. 17:26:40 (413)

1997-10-13 17:26:40# 122. lþ. 7.5 fundur 11. mál: #A bætt siðferði í opinberum rekstri# þál., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[17:26]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Þessi þáltill. sem hér var mælt fyrir er mál sem ég er meðflm. að. Ég tel að 1. flm., hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, hafi gert vel grein fyrir því hvað felst í þessari tillögu. En mig langar til að minnast á það hér að það er að verða æ algengara og þykir æ sjálfsagðara að settar verði reglur um opinbera stjórnsýslu. Ég vil minna á að nýlega voru til umræðu í Bandaríkjunum reglur um hvað forsetanum leyfðist í sínu embætti, m.a. var til umræðu hvort hann mætti nota síma Hvíta hússins til fjáröflunar í sinni kosningabaráttu. Einnig minni ég á að forsætisráðherra Bretlands, Tony Blair, hefur nýlega kynnt siðferðisreglur sem hafa verið settar fyrir ráðherra. Þetta þykir sjálfsagt í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Eins og kom fram í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur er þessari tillögu alls ekki beint gegn neinum ákveðnum, stjórnvöldum eða öðrum, heldur aðeins til að benda á að þetta þykir sjálfsagt.

Vegna þess að ég er nýbúin að fara yfir þessar reglur Breta fyrir ráðherra þá langar mig aðeins að fara yfir hvað þeir telja sjálfsagt að setja í reglur. Þeir telja sjálfsagt mál að setja opinberar reglur til þess að byggja upp gagnkvæmt traust milli þjóðarinnar og ríkisstjórnarinnar. Það verður að sjálfsögðu að ríkja trúnaður þar á milli og menn verða að vinna heiðarlega fyrir þá sem veittu þeim það traust að kjósa þá til þeirrar ábyrgðar sem þeir eru kosnir til. Það þykir auðvitað sjálfsagt mál. Reglur eins og þær sem settar voru í Bretlandi telur forsætisráðherrann að geti verið bæði ráðherrunum til stuðnings í störfum sínum og einnig við ákvarðanir og framkvæmdir.

Það er líka talið mikilvægt að almenningur viti hvaða ábyrgð ráðherrar bera og hver skylda þeirra er. Og ábyrgð þeirra og skylda verður einnig að vera ljós gagnvart bæði þingi og þjóð.

Eins og kemur fram í greinargerð með þessari þáltill. hafa margar stéttir sett sér ákveðnar siðareglur. Má þar nefna lækna, blaðamenn, lögfræðinga og ýmsa fleiri. Ráðherrar ættu heldur ekkert að vera yfir það hafnir. Í reglunum sem settar voru í Bretlandi er lýst ábyrgð ráðherra á stefnumörkun og öllum gerðum í ráðuneytunum. Bent er á mikilvægi þess að ráðherra veiti réttar og sannar upplýsingar í þinginu eða til þingsins. Og ef eitthvað reynist ekki rétt sem þeir hafa sett þar fram þá verða þeir að leiðrétta það eins fljótt og hægt er. Þeir ráðherrar sem verða berir að því að fara með rangt mál í þinginu verða að segja af sér strax.

[17:30]

Líka er tekið til þess að ráðherrar skulu vera upplýsandi við þing og almenning og að ekki megi neita að veita upplýsingar nema þær séu ekki í þágu hagsmuna þjóðarinnar eða ríkisins og þá skuli farið eftir ákveðnum reglum. Ráðherrar í Bretlandi skulu einnig tryggja að ekki rekist á opinberar skyldur þeirra og einkahagsmunir, þ.e. persónulegir hagsmunir þeirra. Þeir skulu forðast að þiggja gjafir eða boð sem geta sett þá í erfiða stöðu þannig að þeir teldu sig jafnvel háða gefanda eða bjóðanda og samkvæmt þeim reglum sem þar hafa verið settar verða ráðherrar sem jafnframt eru þingmenn að halda aðskildu hlutverki sínu sem ráðherra og hlutverki sem þingmaður í ákveðnu kjördæmi. Kannski mætti segja að sú regla þyrfti stundum að vera ofar í hugum ráðamanna hér. Einnig eru ákveðnar reglur um það að ráðherrar megi ekki nota aðstöðu sína í þágu stjórnvalda, þ.e. stjórnmálaflokks eða stjórnmálasamtaka sinna og svona mætti áfram telja.

Ég tel eðlilegt að sú nefnd sem færi í þá mikilvægu vinnu sem lögð er til í þessari þáltill. ætti að skoða þær reglur sem settar hafa verið í nágrannalöndum okkar, eins og t.d. þessar reglur í Bretlandi og aðrar reglur í löndum sem við berum okkur saman við, og bera þær síðan saman. Ég vona svo sannarlega að þessi þáltill. verði samþykkt hér í þinginu, hún muni fara í gegnum nefnd og koma aftur til umræðu.