Öryggismiðstöð barna

Mánudaginn 13. október 1997, kl. 18:40:08 (423)

1997-10-13 18:40:08# 122. lþ. 7.12 fundur 37. mál: #A öryggismiðstöð barna# þál., SvG
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[18:40]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa ágætu tillögu sem hér er flutt og hef ekkert nema gott um hana að segja. Það er hins vegar spurning hversu víðtæk svona tillaga á að vera og ég ætla að bæta hér við einu efnisatriði sem mér finnst mikilvægt að sé tekið með í för þegar þetta mál er kannað, en það er ábyrgð einstaklinganna, ábyrgð foreldranna, ábyrgð skólanna, ábyrgð sveitarfélaganna, ábyrgð hinna fullorðnu þegar um það er að ræða að börn lenda í slysum eða einhverjum óhöppum. Ég hygg að t.d. væri skynsamlegt að leggja í það vinnu að skilgreina tryggingaábyrgð í þessu efni. Ég er t.d. að hugsa um óhöpp eða slys sem börn verða fyrir í skólum eða við skóla og þá er ég að tala um leikskóla líka. Ég hygg að þessi mál mættu vera skýrari en þau eru núna og ég er ekki alveg viss um að þau séu samræmd. Sérstaklega eftir að sveitarfélögin yfirtóku reksturinn á þessu öllu saman, þá grunar mig að þetta sé misjafnt og að foreldrar og aðstandendur barnanna eigi kannski erfitt með að átta sig á því hver ber ábyrgðina. Er það kennarinn? Að hve miklu leyti? Að hve miklu leyti skólastjórinn? Að hve miklu leyti sveitarfélagið? Yfir höfuð hver? Um leið og ég segi að mér líkar vel við þessa tillögu og finnst hún skynsamleg og jákvæð, þá vil ég benda á þetta atriði.

Hitt er svo spurning, hvort ekki ætti að láta rannsaka það sérstaklega hvernig stendur á þessu ógnvekjandi ástandi fyrir börn á Íslandi miðað við önnur lönd. Þetta er eitthvað alveg ótrúlegt og þetta er okkur að kenna. Þetta er ekki þannig að þetta séu einhverjar ástæður sem koma utan úr geimnum og við ráðum ekkert við. Þetta er okkur að kenna. Maður sér það auðvitað mjög oft þegar um er að ræða t.d. smábörn í umferð og á götum og við götur t.d. í litlum byggðarlögum hér í þessu landi þar sem fólk á mjög erfitt með að átta sig á því hvað er stórumferð og hvað er leikvöllur í plássum þar sem ég þekki til víðs vegar um landið. Ég held að þetta séu einhverjir hlutir, heldur frumstæðir, sem við kynnumst oft í umferðarmenningu Íslendinga sem þarna bitna á börnunum.

Erindi mitt var að lýsa stuðningi við þessa tillögu um leið og ég nefni þetta atriði með ábyrgðina, að hún sé skýrari þannig að foreldrar og aðstandendur barna viti hvert þeir eiga að snúa sér ef eitthvað kemur fyrir barnið, hvort sem það er smátt eða stórt, í skólum eða við skóla.