Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 15:21:28 (445)

1997-10-14 15:21:28# 122. lþ. 8.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[15:21]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég mun ekki fara mörgum orðum um frv. almennt eða stöðu ríkissjóðs á þessu ári og horfur. Það hafa talsmenn minni hlutans gert ágætlega nú þegar í umræðunni. Það er ljóst að hæstv. fjmrh. ber sig nokkuð vel og hælist um af árangri sem hann kallar svo í fjármálum ríkisins. Vissulega eru tekjur að aukast og ríkissjóður nýtur góðs af aukinni veltu í þjóðfélaginu. Útgjöldin aukast að vísu líka þannig að bilið helst svona nokkuð svipað og það hefur verið. En það alvarlegasta við þennan tekjuauka hæstv. fjmrh. sem ég veit að hæstv. fjmrh. kann mjög vel frá því fyrr í þingsögunni er auðvitað það að hæstv. fjmrh. er fyrst og fremst að græða á viðskiptahallanum. Hæstv. fjmrh. er fyrst og fremst að græða á veltuaukningu í þjóðfélaginu sem ekki eru innstæður fyrir nema að hluta til. Ég hygg að hæstv. fjmrh. gæti grafið upp gamlar ræður frá árunum upp úr 1980 og flutt þær nánast óbreyttar sem gagnrýni á sjálfan sig nú, ræður sem hæstv. fjmrh., þá óbreyttur þingmaður og stjórnarandstæðingur, hélt til að sanna eða öllu heldur afsanna að þáv. hæstv. fjmrh., Ragnar Arnalds, væri merkilegur fjmrh. eða væri að reka ríkissjóð með einhverjum sérstökum glæsibrag. Vissulega voru þá aðstæður að sumu leyti hliðstæðar. Þá var tekjuauki sem að hluta til stafaði af eyðslu umfram efni, þ.e. viðskiptahalla. Þetta er nú skuggahliðin á annars hinni glæstu framhlið, leiktjöldunum sem hæstv. ríkisstjórn með góðærið sitt hefur verið að draga upp. Það er sem sagt ekki fullklárað hús sem hefur verið byggt heldur framhlið og leikmynd sem ekki má fara með myndavélarnar aftur fyrir, þá kemur bert timbrið í ljós og útlitið ekki lengur eins glæsilegt.

Það sem ég ætlaði að ræða hér sérstaklega í sambandi við þetta fjáraukalagafrv., herra forseti, er útkoma nokkurra heilbrigðisstofnana í því. Auðvitað væri gaman að fara yfir ýmislegt eins og fasteignir forsrn. og það hvernig allt í einu vantar 60 millj. kr. í budduna hjá hæstv. forsrh. vegna einhverra framkvæmda sem hann stendur í á árinu. Er ekki hægt að láta staðar numið þegar peningarnir eru búnir eða þarf að sullast áfram í eyðslu langt umfram það sem fjárlagaheimildir leyfa? Eða sendiráðið fræga í Helsinki o.s.frv. En ég læt öðrum það eftir og sný mér fyrst og fremst að því sem ég hef sérstaklega skoðað og hef athugasemdir við að gera, þ.e. útkomu sjúkrastofnana í þessu frv., spítalanna, og þó einkum þess þeirra sem alls ekki er í frv. og engar fjárveitingar fær, þ.e. Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri.

Það er svo, herra forseti, að hér á bls. 40 í greinargerð er fjallað um stóru spítalana, þ.e. Ríkisspítalana annars vegar og Sjúkrahús Reykjavíkur hins vegar, og þar er komið inn á þann samning sem ku hafa verið gerður milli ríkisins, Reykjavíkurborgar og þessara sjúkrastofnana um einhverja verkauppstokkun, verkaskiptingar og hagræðingu. Og allt er nú gott um það að segja fyrir utan að þann samning bar að með nokkuð sérstökum hætti og m.a. þeim að forsvarsmenn og stjórnendur margra af þessum stofnunum höfðu aldrei heyrt á hann minnst þegar þeir heyrðu af honum í fjölmiðlum. Daginn eftir að sagt var frá undirritun samningsins með lúðrablæstri og söng kom t.d. forstöðumaður Vífilsstaðaspítala í fjölmiðla og hafði þá aldrei af málinu heyrt og átti þó ekki síst að breyta stöðu hans stofnunar í samningnum. Þetta eru auðvitað ekki trúverðug vinnubrögð frekar en vinnubrögðin að heilbrigðismálunum almennt hafa verið undanfarið þegar menn einhvers staðar eru kokkandi með peninga úti í bæ og tala ekkert við starfsfólk eða stjórnendur. Árangurinn hefur ævinlega orðið sá sami, að sá sparnaður sem að er stefnt næst ekki enda er enginn grunnur lagður að honum með samkomulagi við starfsfólk og stjórnendur og raunverulegri endurskipulagningu verkefnanna þannig að hagræðing náist. Þetta er ævinlega ákveðið fyrir fram, annaðhvort í niðurskurðarhrinum eða einhverri svona montsamningagerð og svo á eftir að útfæra verkefnið. Hver er niðurstaðan af hinum sérstaka sparnaði sjúkrastofnana á landsbyggðinni? Nú eru menn á bullandi flótta með það mál af því að það var engin undirbygging. Fyrst var ákveðin einhver tala, svo var farið að reyna að koma þessu út og niðurstaðan er sú að menn fá þetta allt meira og minna í andlitið aftur.

Nú bregður svo við, og því ber að fagna, að í fjáraukalagafrv. eru lagðar til aukafjárveitingar sem nokkurn veginn duga til að brúa fyrirsjáanlegan halla á stóru sjúkrastofnununum í Reykjavík, þ.e. Ríkisspítölum og Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Þannig er að samkvæmt rekstraráætlun Sjúkrahúss Reykjavíkur er reiknað með að útgjöld þar á þessu ári verði 187 millj. kr. umfram áætlun. Það er það langt liðið á árið að við skulum ætla að þetta sé þokkalega góð áætlun og lögð er til 166 millj. kr. aukafjárveiting sem nokkurn veginn dekkar þessa þörf. Og ég fagna því því að auðvitað þýðir ekkert annað en að horfast í augu við veruleikann og þarna er umfang starfseminnar meira heldur en fjárveitingar nægja til. Á Ríkisspítölunum er þetta þannig að þar eru horfur á halla upp á um 270 millj. en gerð er tillaga um 154 millj. kr. aukafjárveitingu. Auk þess eiga Ríkisspítalar að fá af viðbótarliðum, þ.e. af rekstrarhagræðingarlið heilbrrn. og af liðnum Sjúkrahús með fjölþætta starfsemi og þegar þetta leggst saman fá Ríkisspítalarnir nokkurn veginn samkvæmt þessu aukafjárveitingar sem nema fyrirsjáanlegum halla á þessu ári. Og það er gott. Ég segi: Svo sannarlega er ekki vanþörf á að bæta úr ástandinu sem þar er. Það er ljóst að umfang starfseminnar á báðum þessum stofnunum, ekki síst Ríkisspítölum, hefur aukist mikið og það þýðir ekki annað en horfast þar í augu við veruleikann.

En hvernig stendur þá á því, herra forseti, að þriðja stærsta stofnunin í landinu sem er um flest sambærileg við þessi tvö stóru sjúkrahús, Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, sem á í umtalsverðum erfiðleikum af alveg sama toga og þessar sjúkrastofnanir, fær ekki neitt, ekki eina einustu krónu, hvorki aukafjárveitingu né að því er séð verður fjárveitingar af einhverjum sérstökum ráðstöfunarliðum úr ráðuneytinu? Staðan þar er sú að í fyrsta skipti um langt árabil tókst Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri ekki þrátt fyrir mikla og annálaða ráðdeildarsemi í rekstri að ná endum saman á síðasta ári. Hallinn varð að vísu ekki stórvægilegur en þó líklega einar 14 millj. kr. ef ég man rétt.

Á þessu ári hins vegar er ljóst að það stefnir í umtalsverðan halla, 70 millj. eða meira þannig að uppsafnaður rekstrarhalli Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri verður sjálfsagt af stærðargráðunni 80--100 millj. kr. á þessum tveimur árum. Og hvers vegna er þessi halli? Er hann vegna þess að menn hafi sýnt ábyrgðarleysi við stjórnun stofnunarinnar? Er hann vegna einhverrar óráðsíu? Svarið er nei.

[15:30]

Það liggja fyrir borðleggjandi gögn um að þessi rekstrarhalli er vegna þess að umfang starfseminnar hefur aukist umtalsvert og svo mikið nú á tveimur síðustu árum að það er ekki hægt að reka stofnunina með þeim fjárveitingum sem hún fær. Aðgerðum hefur fjölgað. Nýjar stöður sérfræðinga á nýjum sviðum sem fjárlagaheimildir hafa verið veittar fyrir á undanförnum árum þýða að nú eru framkvæmdar fleiri aðgerðir þar en áður var hægt. Og það hefur dregið verulega úr því að aðgerðir séu sendar suður. Og það er gott. Norðlendingafjórðungur og allt upptökusvæði Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri þar sem 40--50 þúsund manns búa getur nú innan svæðisins leyst úr fleiri verkefnum en áður og það var nákvæmlega það sem að var stefnt. Aðgerðum fjölgar og aðgerðir á nýjum sviðum eru teknar upp í kjölfar þess að sérfræðingar á fleiri sviðum eru nú komnir til starfa.

Það er jafnvel svo að biðlistarnir á sjúkrastofnunum hér í Reykjavík hafa að hluta til flust norður og fengið úrlausn þar af því að menn hafa haft möguleika á því að bæta á sig verkefnum á vissum sviðum sérlækninga.

Ég endurtek að að flestra dómi, og ég hygg að hér séu menn sem geta staðfest það t.d. úr fjárln., hefur Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri fengið sérstaklega háa einkunn fyrir ráðdeild og aðhald í rekstri á undanförnum árum. Menn hafa þar um langt árabil lagt hart að sér til að reka stofnunina innan fjárlagaheimilda. Og eru þetta þá verðlaunin? Menn spyrja sig eðlilega að því nú fyrir norðan. Er okkur refsað fyrir að hafa reynt að fara að fjárlögum undanfarin ár þegar við sjáum aðrar stofnanir sem keyra fram úr ár eftir ár, fá það bætt á silfurfati á meðan við fáum ekki neitt? Eða er svínað þannig á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri vegna þess að það er á landsbyggðinni, að ekkert er hér, hvorki í fjárlagafrv. né af rekstrarhagræðingarlið ráðherra eða undan liðnum Sjúkrahús með fjölþætta starfsemi?

Það ætti ekki að þurfa að kynna hv. alþm. og ekki hæstv. fjmrh. --- það er að vísu skaði að hæstv. heilbrrh. skuli ekki vera hér en ég hygg að hæstv. ráðherra hafi lögmæt forföll --- hvaða stöðu Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri á að hafa. Það er nefnilega, samkvæmt endurtekið samþykktum áætlunum, varasjúkrahús landsins, þ.e. það er varasjúkrahús fyrir þetta svæði hér þar sem stóru sjúkrahúsin í Reykjavík eru bæði á sama áhættusvæðinu ef svo mætti að orði komast. Almannavarnir ríkisins og aðrir slíkir aðilar gera ráð fyrir þessu hlutverki Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Það er eina stóra deildaskipta sjúkrahúsið með sérfræðiþjónustu utan suðvesturhornsins og það er fjórðungssjúkrahús og sjúkrahús fyrir allt sitt upptökusvæði þar sem eins og áður sagði 40--50 þúsund manns búa. Það er háskólasjúkrahús því þar fer fram kennsla að hluta til í heilbrigðisfræðum innan Háskólans á Akureyri og þar eru menn á kandídatsári í læknisfræði og fleira. Herra forseti. Í öllum aðalatriðum er Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri því sambærilegt við stóru deildaskiptu sjúkrastofnanirnar hér í Reykjavík, plús það að vera þessi meginþjónustumiðstöð í heilbrigðismálum á landsbyggðinni.

Ég lýsi þar af leiðandi eftir rökum fyrir því að meðhöndla það eins og hér er gert. Og ég tek það alveg sérstaklega fram að ég er ekki að leggjast gegn því, nema síður sé, að sjúkrastofnanirnar í Reykjavík fái sína úrlausn. En mér líkar ekki sú mismunun sem þarna er á ferðinni því ég get ekki séð annað en að þetta sé hrein mismunun og algjörlega fráleitt að meðhöndla sambærilega aðila á þennan hátt hvað aukafjárveitingar eða fjárveitingar snertir. Auk þess er það þannig að í fjárlagafrv., herra forseti, ef ég man rétt, er gert ráð fyrir minni hækkunum á næsta ári til Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri en t.d. Ríkisspítalanna, minni hækkun í prósentum, eða 7,7% á móti líklega um 9% til Ríkisspítalanna og svipaðri hækkun, þ.e. sjö-komma-eitthvað-% til Sjúkrahúss Reykjavíkur. Þessi rekstrarhalli er þó að nálgast 5% af heildarrekstrarkostnaði sjúkrahússins sem ég nefndi áðan.

Ég óska eftir skýringum á þessu, herra forseti, og ég skora á hv. fjárln. að fara rækilega ofan í saumana á þessu máli. Ef hv. nefnd ætlar að vera vandanum vaxin og störfum sínum þá á hún að leiðrétta hluti af þessu tagi. Mér er alveg nákvæmlega sama hver sökudólgurinn er, hvort það er fjmrh. eða heilbrrh. eða hvar þetta hefur stíflast í kerfinu. Það er engin hemja að mismuna stofnunum innan sama málaflokks eins og hér er lagt upp með í þessu fjáraukalagafrv.

Ég vona einnig, herra forseti, að áður en afgreiðslu þessa frv. lýkur, og eftir atvikum fjárlagafrv. sömuleiðis, þá verði búið að fara betur yfir þennan svokallaða rekstrarhagræðingarlið, þ.e. þessi furðulegu áform frá því í fyrra um þvingaðan fyrirframsparnað sjúkrastofnana á landsbyggðinni sérstaklega. Og hefði nú einhver talið að frekar væri ástæða til að fara í gagnstæða átt og reyna að styrkja undirstöður þessarar mikilvægu starfsemi á landsbyggðinni þar sem hún á víða í vök að verjast. Það er eins og menn séu ekki með fullri meðvitund eða óráði þegar að því kemur að horfa á aðstæðurnar eins og þær í raun og veru eru. Hvernig gengur t.d. að manna læknishéruðin á Austurlandi um þessar mundir? Er ástæða til þess að þjarma sérstaklega að heilbrigðisstarfsemi í landshlutum af því tagi þar sem meira og minna heilir landshlutar eiga nú undir högg að sækja með sína starfsemi? Er það í samræmi við aðstæður almennt í efnahagsmálum og þjóðmálum að láta niðurskurðinn sérstaklega lenda á landsbyggðinni þegar menn raða niður á færibandi stórframkvæmdunum á suðvesturhorni landsins þannig að margir hafa af því áhyggjur að hér sé að verða þensla og allt þar fram eftir götunum? Er það þá skynsamleg efnahagsstjórnun, ef farið er yfir í þá hlið málsins, að beita sérstökum niðurskurðaraðgerðum og þvingunaraðgerðum á landsbyggðinni á sama tíma? Það er það sem er að gerast og hv. stjórnarþingmenn verða að horfast í augu við það sem þeir samþykktu hér á síðasta ári. (LB: Er þetta ekki nýja byggðastefnan?) Þetta er hin nýja byggðastefna trúlega. Annars vegar hamast hæstv. iðnrh. og gjaldkeri Framsfl., ef ég man rétt eða ritari, við að fá útlendinga með stórar fabrikkur hingað á Reykjanesskagann sem sumir eru farnir að kalla Kólaskaga út af öllum fabrikkunum og væntanlegri mengun, Kólaskaga Íslands. Hins vegar eru svo framsóknarmennirnir og þar á meðal formaður fjárln. og þingmaður Austurl. að láta nota sig í skítverk af því tagi sem þeir hafa tekið þátt í að undanförnu varðandi heilbrigðismál og ýmsa mikilvæga opinbera þjónustu á landsbyggðinni. Það leggst heldur lítið fyrir kappana. Það verð ég að segja.

Almennt, herra forseti, eru þessar endalausu þumalskrúfuaðferðir sem hæstv. fjmrh. hefur innleitt, ógeðfelldar. Þessi aðferð að láta menn aldrei fá nema svona 90 eða 95% af því sem þeir þurfa til að reka sína starfsemi og veita lögbundna þjónustu. Það er ekki eins og menn hafi í öllum tilvikum sjálfdæmi um það hvert verkefnið er. Þetta er í meira og minna mæli lögbundin þjónusta, í fræðslumálum, í heilbrigðismálum. Menn vísa ekki sjúklingum á dyr sem betur fer heldur reyna að leysa úr vanda þeirra. Og mönnum ber skylda til að taka nemendur inn í skólana, er það ekki? En hvað gerir ríkisstjórnin í anda þumalskrúfuaðferðanna? Hún tekur frá einhvern hluta af fjárveitingunum og setur það í pott og svo eiga menn að koma skríðandi á hnjánum í auðmýkt og rella eitthvað út úr pottinum. Og hver hefur þá samningsstöðu? Hvað er hæstv. menntmrh. að reyna að gera núna í skólunum? Jú, hann ætlar að halda 4% af rekstrarfjárveitingu til skólanna eftir þannig að forsvarsmenn og stjórnendur þeirra þurfa að koma skríðandi fyrir menntmrn. og biðja um sinn hlut út úr þessu.

Þær aðferðir sem menn hafa verið að innleiða hér eru ógeðfelldar og óréttlátar gagnvart stjórnendum stofnana og forsvarsmönnum opinbers rekstrar og alveg sérstaklega í velferðarmálum sem í hlut eiga. Og ég mótmæli þessu, herra forseti. Það er löngu kominn tími til að menn horfist í augu við að þetta verkefni er af öðrum toga. Það á að reyna að taka faglegar ákvarðanir, rökstuddar og ígrundaðar, en ekki vinna svona að málunum.

Ég vonast til þess, herra forseti, að einhver svör eða skýringar komi á þessum mismun sem hef gert að umtalsefni og í öllu falli er alveg víst að ég ætla að gera mitt til þess að málið fái ekki afgreiðslu í þessu formi og mun fylgjast grannt með því hvaða meðferð það fær hjá hv. fjárln.