Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 15:50:41 (450)

1997-10-14 15:50:41# 122. lþ. 8.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[15:50]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki mitt að svara fyrir þær tillögur sem eru ekki frv. Hlutverk okkar í fjárln. er að fara yfir frv. og kanna hvað þar vantar upp á og kanna þær forsendur sem eru fyrir þeim tillögum sem eru þar inni.

En varðandi Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri var það svo alveg fram á þetta ár að við höfðum þær upplýsingar að reksturinn þar væri í jafnvægi og þar væri ekki við vanda að etja. Hins vegar hefur svo komið í ljós að þar er við vanda að glíma á þessu ári. Ég efast ekki um að sá vandi sé til skoðunar í heilbrrn. og í fjmrn. og við fáum hann upp á borðið hjá okkur í fjárln. og munum fara yfir þessi mál. Ég get sagt að við munum að sjálfsögðu gera það. Ég get engu svarað á þessu stigi hvernig því lyktar en við vitum af vandanum sem þarna er og við munum að sjálfsögðu fara yfir hann.

Varðandi sjúkrahúsin úti á landsbyggðinni að öðru leyti finnst mér skipta mestu máli að skilgreina sem best þá þjónustu sem á að veita úti á landsbyggðinni og tryggja hana. Heilsugæslumál á Austurlandi koma ekki beint inn á sjúkrahúsamálin. Það er svolítið annar handleggur af því hv. 4. þm. Norðurl. e. blandaði því inn í sjúkrahúsaumræðuna.