Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 16:58:10 (465)

1997-10-14 16:58:10# 122. lþ. 8.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[16:58]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég vil í lok umræðunnar þakka fyrir hana og ég tel hana hafa verið mikilvæga og ég held að í framtíðinni hljóti það að gerast að umræðan um fjáraukalögin og fjárlög muni fara saman og menn munu líta á þetta í heild sinni.

Ég ætla ekki hér og nú að ræða mikið af því sem hefur komið fram í ræðum einstakra þingmanna. Ég hef nokkrum sinnum komið upp til andsvara til þess að leggja áherslu á einhver sérstök sjónarmið en tek undir að nefndin hlýtur að skoða þau mál sem eru til skoðunar í störfum sínum.

Ég vil þó vegna ræðu hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur nota þetta tækifæri til þess að segja nokkur orð um eðli fjáraukalaganna. Ég tek fram að mér er kunnugt um að hv. þm. er ekki við, þurfti að hverfa af fundinum til annarra starfa. Ég mun ekki ráðast að hv. þm. nema síður sé heldur kannski fremur taka undir þau sjónarmið sem komu fram hjá hv. þm.

Ég held að þegar við lítum á fjáraukalögin sé hægt að benda á, og ég er ekki með neitt ráðuneyti í huga þegar ég segi þetta, að í mörgum tilvikum virðast ráðuneytin eiga bágt með að skynja þá alvöru sem býr í rammafjárlögunum. Með rammafjárlögum er verið að færa vald frá fjmrn. til einstakra ráðuneyta annarra. Það er verið að færa það vald að ráðherra í hverjum málaflokki getur innan fjárlagarammans komið með tillögur um það til ríkisstjórnarinnar, eða til þingsins ef um er að ræða lagabreytingar, að ráðstöfun fjárheimildanna verði með þeim hætti sem hann kýs að leggja áherslu á. Þetta er ákaflega mikilvægt því að þetta gerir kerfið sveigjanlegra og gerir viðkomandi ráðherra ábyrgari. Það er hárrétt sem kom fram hjá hv. þm. og ég tek mjög skilmerkilega fram að ég er ekki að tala um neitt einstakt ráðuneyti sem hún gerði, hún tók það sem dæmi, að ef menn ætla að nota þessar leikreglur sem rammafjárlögin byggja á þá geta menn ekki búið sér til ný fjárlög í fjáraukalögunum. Ég vil leggja á það áherslu, það er ekkert leyndarmál og svo sem ekkert nýtt, það vita allir sem hafa hlustað á mín viðhorf, að ég tel að ráðuneytin eigi að vanda sig meira í fjárlagagerðinni og koma í veg fyrir að það þurfi að grípa til aukafjárveitinga á fjárlagaárinu oft vegna þess að undirbúningurinn hefur ekki verið nógu góður. Þetta hefur batnað en er ekki orðið nægilega gott. Ég tel enga ástæðu til þess að koma upp í ræðustólinn og lýsa því yfir að þetta sé allt orðið harla gott og það geti ekki verið betra. Það er fráleitt.

[17:00]

Það er einnig ljóst að við þurfum á grundvelli fjárreiðulaganna að athuga sérstaklega hvernig samskipti fjmrn. annars vegar og fjárln. hins vegar eiga að vera í framtíðinni og hver kemur fram fyrir hönd ríkisstjórnarinnar þegar nauðsynlegt er að gera breytingar á fjárheimildum og þá væntanlega með aukafjárveitingar í huga því vissulega geta komið upp mál sem eru þess eðlis að ekki verður hjá því komist að afla heimilda og greiða. Þetta er ekki sagt af minni hálfu til að ráðast á eitt ráðuneyti öðru fremur, heldur sem almenn áminning til okkar allra sem störfum í ráðuneytunum um stundarsakir með stöðuumboð frá Alþingi á grundvelli þingræðisreglunnar. Við getum vandað okkur meira og eigum að gera það. Ég kemst þó ekki hjá því að segja að við höfum reynt á undanförnum árum að vinna að ýmsum vandamálum sem upp hafa komið, á þessum svokölluðu gömlu kunningjum sem skjóta alltaf upp kollinum frá einu ári til annars. Það er vissulega svo, af því að hv. þm. nefndi Hollustuvernd ríkisins, að upp kemur spurning sem stjórnvöld verða að svara: Ætlum við að láta stofnun eins og Hollustuverndina vaxa alltaf í því skjóli að sífellt berast að okkur tilskipanir frá Evrópubandalaginu. Ég er ekkert viss um að það sé alveg sjálfsagt. Ég tel t.d. að ríkisstjórnin og Alþingi verði að svara því hvort eðlilegt sé að skattgreiðendur standi undir þessum kostnaði eða hvort neytendur eigi að gera það. Það eru ekki alltaf sömu mennirnir. Það er ekki alltaf sama fólkið. Ef t.d. er verið að efla Hollustuvernd ríkisins vegna þess að sú stofnun þarf að hafa eftirlit með innflutningi á einhverjum tilteknum vöruflokki, er ekki eðlilegra að kostnaðurinn framkallist í vöruverðinu fremur en í hærri skattgreiðslum sem allir bera þó það sé ekki svo að allir kaupi viðkomandi vöru? Þetta eru spurningar sem stjórnvöld þurfa að svara.

Ég vil nefna að nú starfar nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar undir forustu forsrn. sem er einmitt að fara yfir þennan eftirlitsiðnað eins og hann hefur stundum verið kallaður. Það er mjög mikilvægt að íslensk stjórnvöld eins og stjórnir í öðrum ríkjum átti sig á því að oft er verið að safna upp óþarfa kostnaði hjá slíkum stofnunum vegna þess að það er mikil tilhneiging til þess að gera alltaf allt eins og gert er annars staðar jafnvel þar sem það er dýrast að reka slíka hluti.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að teygja lopann mikið um þetta mál sem hér er til umræðu. Ég vil taka undir margt af því sem hefur verið sagt. Sérstaklega er ég ánægður með að heyra þau viðhorf hv. þingmanna að þeir telja eins og ég að það eigi að forðast sem mest að setja fjárheimildir á fjáraukalög og að menn þurfi þeim mun betur að vanda sig við sjálfa fjárlagagerðina. Undir þetta vil ég taka. En ég vil jafnframt segja að aldrei verða fjárlögin svo góð að ekki þurfi að laga þau eitthvað þegar líður fram á fjárlagaárið enda gera sér allir grein fyrir því að fjárlög íslenska ríkisins, eins og fjárlög annarra ríkja, byggja á áætlunum um það til hvers við ætlum að nota fjármuni ríkisins á næsta ári en ekki á nákvæmum vísindum, þó við viljum að sjálfsögðu hafa niðurstöður og halda niðurstöður hv. Alþingis í heiðri í þessari löggjöf eins og annarri.