Almannatryggingar

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 17:13:41 (470)

1997-10-14 17:13:41# 122. lþ. 8.8 fundur 15. mál: #A almannatryggingar# (launaviðmiðun lífeyrisgreiðslna o.fl.) frv., Flm. ÁE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[17:13]

Flm. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Á þskj. 15 flyt ég ásamt hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, Jóni Baldvini Hannibalssyni og Kristínu Ástgeirsdóttur frv. til laga um að ákvæði til bráðabirgða 6 í lögunum um almannatryggingar, sbr. 34. gr. laga nr. 144/1995, falli brott og að lög þessi öðlast þegar gildi.

Hér er fjallað um að tengja greiðslur úr almannatryggingakerfinu aftur við launabreytingar. Þetta var afnumið af hálfu núv. ríkisstjórnar með bráðabirgðaákvæði árið 1995 og þá var ákveðið að hækkanir þessara greiðslna kæmu fram á fjárlögum hverju sinni. Þær greiðslur sem um ræðir eru ellilífeyrir, örorkulífeyrir, tekjutrygging, barnalífeyrir, bætur í fæðingarorlofi, slysatryggingar og sjúkratryggingar. Þetta eru allar bætur almannatryggingakerfisins.

Þá var sagt, herra forseti, að kerfisbreytingin ætti ekki að leiða til þess að skerða ætti bætur eða skapa óöryggi hjá eldri borgurum. Annað hefur komið í ljós. Stjórnarandstæðingar börðust gegn stefnu ríkisstjórnarinnar og lögðu fram tillögur sem voru felldar á hinu háa Alþingi en það er eiginlega fyrst eftir að eldri borgarar sjálfir tóku málin í sínar hendur með ötulli baráttu að málið fékk þá umræðu í þjóðfélaginu sem það á skilið. Þegar kjarasamningar voru gerðir í vor kom fram að bætur eða greiðslur úr almannatryggingakerfinu tóku ekki mið af þeim breytingum. Þá voru þær hækkaðar lítillega og það var ekki fyrr en Kjaradómur ákvað æðstu embættismönnum hærri laun að ríkisstjórnin lét undan fyrst og fremst vegna baráttu Félags eldri borgara, Aðgerðahóps aldraðra og annarra félaga í Landssambandi aldraðra.

Eldri borgarar eru 27 þúsund hérlendis, þ.e. yfir 67 ára aldri, og það þarf að hafa skýrt í huga að staða þeirra er misjöfn. Sumir hafa það ágætt á efri árum, aðrir hafa það mjög slæmt og margir eldri borgarar eru sárafátækir og eru algerlega háðir þeim greiðslum sem berast úr almannatryggingakerfinu. Allir eldri borgarar, þessir 27 þúsund einstaklingar, eiga tvennt sameiginlegt. Þeir hafa byggt upp þjóðfélagið framar annarri kynslóð hérlendis með starfi sínu undanfarna áratugi. Þetta fólk hefur skilað góðu búi í hendur mér eða annarra þingmanna sem eru kynslóð á eftir en annað er því sameiginlegt. Þetta fólk hefur verið niðurlægt af ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Það er sett í þá stöðu að þurfa að koma sem bónbjargafólk þegar hækka á bætur úr almannatryggingakerfinu og það er óþolandi staða gagnvart þeirri kynslóð sem hefur lagt svo mikið til uppbyggingar þjóðfélagsins.

Stefna ríkisstjórnarinnar er að afnema alla sjálfvirka tengingu og hækka síðan eftir því sem henni passar, aðallega eftir þrýstingi af hálfu aðila úr þessu umhverfi sem ég nefndi áðan. Ef það væri stefna ríkisstjórnarinnar að vilja gera gott við þetta fólk væri hægt að samþykkja þetta frv. okkar stjórnarandstæðinga og bæta við heimildum til sérstakrar hækkunar greiðslna úr almannatryggingakerfinu ef mönnum sýndist svo. En það er ekki það sem ríkisstjórnin ætlar að gera.

Með þessu er skapað óöryggi hjá fólki sem á það ekki skilið og þess vegna leggjum við til að gamla tengingin við launaviðmiðanir verði sett aftur í lög. Með fyrirkomulagi ríkisstjórnarinnar eru eldri borgarar settir undir geðþótta\-ákvarðanir stjórnvalda hvers tíma. Það á ekki að gera það gagnvart þessum hóp, einfaldlega vegna þess að forsagan hefur sýnt okkur annað. Oft og tíðum hefur verið gengið frá kjarasamningum og þá hafa bætur úr almannatryggingakerfinu oftar en ekki verið látnar taka mið af hækkun lægstu taxta. Þetta þekkja allir þegar kjarasamningum er lokið með þríhliða viðræðum verkalýðshreyfingar, vinnuveitenda og ríkisvalds. Fjölmörg dæmi eru fyrir slíku.

Í fjárlagafrv. sem við ræddum um daginn er boðuð breyting á þessu máli. Nú ætlar ríkisstjórnin að gera stefnu sína varanlega því að á sínum tíma setti hún þessa löggjöf, afnámin, til bráðabirgða og bráðabirgðaákvæðið á að renna út um næstu áramót. Það er þetta bráðabirgðaákvæði sem við gerum tillögu um að fella niður. Í fjárlagafrv. er búið að boða frv. um að þetta skuli vera varanlegt. Í umræðu á hinu háa Alþingi staðfesti fjmrh. vilja ríkisstjórnarinnar. Óöryggið á að ríkja áfram gagnvart þessum hóp.

Efh.- og viðskn. hélt athyglisverðan fund um daginn, heilsdagssemínar um samspil greiðslna úr almannatryggingakerfi, skattkerfis og lífeyrissjóðakerfis og fékk til sín fjölmarga fyrirlesara. Þetta var ráðstefna sem við héldum í einn dag. Mér þykir sérstök ástæða til að geta um nokkur atriði sem komu fram, m.a. erindi sem Páll Gíslason, formaður Félags eldri borgara, flutti á þessum lokaða fundi efh.- og viðskn. Þar kom m.a. fram og það er staðreynd að verið er að endurskoða almannatryggingakerfið með sérstakri nefnd sem hefur ekki komið saman í níu mánuði. Það er allur hraðinn gagnvart þessu fólki, nefndin hefur ekki fundað í níu mánuði.

Það hefur líka komið fram hjá Aðgerðahópi aldraðra að ellilífeyririnn hefur lækkað um helming á 10 árum, farið úr 30 þús. kr. niður í 14 þús. og hann hefur einnig lækkað ef tekið er tillit til tekjutryggingar og heimilisuppbóta þannig að greiðslur úr almannatryggingakerfinu eru lægri núna en þær voru fyrir nokkrum árum. Okkur hefur ekki miðað fram á við gagnvart eldri borgurum, okkur hefur miðað aftur á bak á síðustu árum.

Nú þarf að hafa í huga að eldri borgarar eru ekki að fá neina ölmusu úr þessu kerfi samhjálpar. Þeir hafa greitt í þetta margfaldar þær fjárhæðir og lagt margfalt meira til samfélagsins en það sem þeir fá greitt á síðari hluta ævi sinnar. Tekjutengingin í kerfinu er einnig orðin þannig að það er komin króna á móti krónu og sýnt hefur verið fram á í mjög einföldu dæmi af hálfu félaga úr Aðgerðahópi aldraðra og Félags eldri borgara að ef ellilífeyrisþegi fengi 10 þúsund króna hækkun úr lífeyrissjóði sínum einhverra hluta vegna mundi rýrast bæði tekjutrygging og heimilisuppbót og hann stæði verr eftir en áður. Hann mundi beinlínis tapa á að fá 10 þús. kr. aukalega úr lífeyrissjóðskerfinu.

Á þessu sést vel að við erum komnir í ógöngur gagnvart þessu kerfi. Það er ekki bara það sem tengist greiðslunum úr almannatryggingakerfinu heldur einnig sem tengist heilbrigðisþjónustunni þó að ekki sé rætt um það í tengslum við þetta frv. Þá vitum við að þar hefur ríkisstjórnin einnig verið óspör á að skera niður eðlilega þjónustu fyrir borgara landsins og þá ekki hvað síst þjónustu eldri borgara sem hafa ekki í önnur hús að venda. Nýjasta dæmið og kannski það sorglegasta er að fylgjast með því hvernig veikt fólk er orðið að leiksoppi í kjaradeilu sérfræðinga og Tryggingastofnunar. Það er átakanlegt að horfa upp á hve lítil samkennd og samhjálp einkennir þjóðfélagið og þá einkum af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það eru 23 þúsund manns sem fá um 11 milljarða greitt í ellilífeyri. Það eru 8 þús. manns með 4 milljarða árlega í örorkugreiðslu.

Eldri borgarar hafa gert mjög réttmæta kröfu. Þeir hafa sagt: Við tókum þátt í niðursveiflunni. Við höfum verið með öðrum þegnum samfélagsins þegar kom að því að herða mittisólarnar. Nú ganga hæstvirtir ráðherrar glaðir og reifir um gólf og guma af góðærinu og þá segja eldri borgarar með réttu: Við skulum líka. Við eigum okkar rétt. Við vorum með ykkur á þrengingartímanum og við viljum fá að vera með af fullri reisn þegar betur árar. Þegar maður talar um fulla reisn er maður ekki að tala um þær hækkanir sem ég veit vel að hafa orðið á greiðslum ellibóta almannatryggingakerfisins á síðustu missirum heldur fyrst og fremst það óöryggi og þá mannfyrirlitningu sem hefur komið fram af hálfu ríkisstjórnarinnar við það hvernig hún afnam þessa verndartengingu eldri borgara.

Ekki má heldur gleyma því sem ég nefndi að oft voru bæturnar hækkaðar svipað og lægstu launin. Lægstu launin hækkuðu við síðustu samninga til allrar hamingju um 23% þó svo minna hefði orðið eftir þegar skerðingar hefðu komið þar fram, skattgreiðslur og annað slíkt. Það sat ekki nema 11% eftir. En hækkanir til eldri borgara sem höfðu skerst á undanförnum árum eru svo langt frá því að ná máli gagnvart þessum þáttum.

Enn eitt dæmi sem er athyglisvert er þegar eldri borgari reynir að auka tekjur sínar. Segjum svo að eldri borgari fari og vinni í fjóra mánuði, nái sér í 340 þús., þá heldur hann aðeins eftir um 37%. Jaðarskattur í þessu tilfelli er 63%. Við erum að draga allan mátt og vilja fólks að reyna að afla sér viðbótartekna sem sumir þurfa á að halda. Forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins upplýsti á ráðstefnunni að skerðingarkerfið sem við búum við knýr meira að segja á að örorka einstaklinga getur aukist í kerfinu því að einstaklingurinn sem færi e.t.v. út á vinnumarkaðinn í létt starf tapar fjárhagslega það miklu á því að það er verra fyrir hann að reyna að fá sér létta vinnu í því umhverfi sem mundi e.t.v. styrkja heilsu hans mun betur. Hér er refsað fyrir slíka viðleitni og þá er orðið eitthvað rangt í þessu uppleggi, herra forseti.

Við höfum séð líka að þannig er búið að eldri borgurum að þeir eiga eða ættu og mundu hagnast á því að skilja. Kerfið okkar er komið út í þær ógöngur að hægt er að sýna fram á að skilnaður borgi sig fjárhagslega fyrir eldri borgara og reyndar fyrir aðra líka. Við erum komin í ógöngur þegar við erum farin að knýja á upplausn fjölskyldutengsla út frá fjárhagslegum ástæðum og ég ítreka það, herra forseti, því að það er rétt að hafa í huga að það á ekki að setja alla eldri borgara í sama hóp. Sumir hafa það fjárhagslega ágætt og það er vel, aðrir eru sárafátækir og ég held að það sé jafnvel hvergi í stéttum hérlendis meiri munur hjá einstaklingum og fjölskyldum og einmitt hjá eldri borgurum. Ég veit að hv. þm. þekkja vel dæmin sem blasa við mjög mörgum.

Það er athyglisvert, herra forseti, að skoða þá þróun sem hefur m.a. átt sér stað erlendis og velta því fyrir sér vegna þess að ríkisstjórnin heldur því fram að greiðslur komi annars staðar frá en úr almannatryggingakerfinu og það er laukrétt. Um 11 milljarðar af ellilífeyrinum koma úr almannatryggingakerfinu, þ.e. frá Tryggingastofnuninni, og 6,6 milljarðar úr lífeyrissjóðunum. Sú greiðsla mun væntanlega hækka á næstu árum og það er mjög mikilvægt að velta fyrir sér samspili greiðslna úr lífeyrissjóðunum og úr almannatryggingakerfinu. Því að það sem við erum náttúrlega fyrst og fremst að hugsa um er að búa fólki áhyggjulaust ævikvöld og að það þurfi ekki að óttast um hag sinn og þurfi ekki að lifa það sparlega að ekki nái nokkurri átt.

[17:30]

Hins vegar er þjóðfélagið að breytast. Ellilífeyrisþegar eða þeir sem eru yfir 67 ára aldri eru 27 þúsund talsins og þeir sem eru yfir 50 ára aldri eru um 65 þúsund talsins. Það er býsna stór hópur. Þessi hópur mun stækka mjög á næstu árum. Við Íslendingar erum með mjög óvanalega aldurssamsetningu en við þurfum að horfast í augu við það núna í Evrópu að á hvern eftirlaunaþega eru fjórir einstaklingar sem vinna en árið 2040 er talið að fyrir hverja fjóra einstaklinga sem eru vinnandi, sem sagt undir ellilífeyrisaldri, komi tveir eftirlaunaþegar. Þetta segir okkur að þjóðfélagið er að breytast mjög mikið og við þurfum að taka á því á þann hátt að við ráðum við það bæði fjárhagslega en sýnum þessu fólki fulla virðingu.

Athyglisvert er að velta því fyrir sér að í Evrópu koma u.þ.b. 88% af eftirlaunaútgjöldum úr almannatryggingakerfinu en hér eru það 63%. Það er sem sagt minna sem kemur úr almannatryggingakerfinu til eldri borgara hér en í Evrópu. Nú mun þetta hlutfall líklega breytast í Evrópu, þ.e. lífeyrissjóðirnir munu taka yfir stærri hluta og þá munu almannatryggingarnar væntanlega minnka en aðalatriðið er samt að góðar greiðslur séu tryggðar til fólks á efri æviskeiðum. Sömuleiðis hafa tölur sýnt okkur að staða lífeyrissjóðanna hérlendis er nokkuð sterk og mun betri en menn áttu von á fyrir nokkrum árum. Það er fagnaðarefni vegna þess að hlutverk þeirra eykst á næstu árum.

En það breytir því ekki, herra forseti, að það er mjög brýnt að mati okkar stjórnarandstæðinga að samþykkja frv. vegna þess að það leiðir til réttlátara þjóðfélags. Við teljum réttlætismál að greiðslur úr almannatryggingakerfinu breytist í samræmi við breytingar á launum. Við kusum að hafa frv. þannig úr garði gert að það sé fært í sama horf og áður var. Vitaskuld er hægt að hugsa sér aðra tengingu sem tryggir þetta öryggi sem er brýnt að sé til staðar. Það er sömuleiðis skoðun okkar að eldri borgarar þurfi að koma miklu meira að tillögugerð en verið hefur af hálfu ríkisstjórnarinnar. Eldri borgarar óskuðu eftir því að koma að vinnu í jaðarskattanefnd. Því var hafnað af hálfu hæstv. fjmrh. minnir mig frekar en forsrh., annar hvor þeirra taldi að þeir gætu ekki lagt þar mikið til. Ég hef nefnt önnur mál eldri borgara sem tengjast stefnu ríkisstjórnarinnar. Ekkert samráð hefur verið haft við þennan hóp.

Við sáum um daginn, herra forseti, að eldri borgarar eru orðnir reiðir. Það er tvennt til í því, þeir eru óánægðir með stöðu sína og afkomu en þeir eru einnig óánægðir með þá lítilsvirðingu sem þeim er sýnd, það óöryggi sem þeim er sýnt. Þeir eru nógu góðir til að taka þátt í niðursveiflunni og skerðingunni en þegar betur árar er þeim ekki sýnd sú virðing að leyfa þeim að taka fullan þátt í þeirri uppsveiflu sem nú á sér stað. Þeir eiga að vera bónbjargafólk. Eldri borgarar í þessu landi hafa gert meira fyrir þjóðfélagið en svo að ástæða sé til að þeir þoli slíka framkomu.

Herra forseti. Ég vonast til þess að þegar umræðunni er lokið og búið að vísa málinu til nefnar að við fáum það út úr nefnd aftur þannig að stjórnarliðarnir reyni ekki að beita þeirri gömlu aðferð sinni að svæfa málið. Ég vona, herra forseti, að við fáum að greiða atkvæði um frv. þannig að hugur stjórnarþingmannanna komi skýrt í ljós þegar kemur að þessu sjálfsagða réttindamáli sem við höfum talað fyrir.