Almannatryggingar

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 17:39:59 (473)

1997-10-14 17:39:59# 122. lþ. 8.8 fundur 15. mál: #A almannatryggingar# (launaviðmiðun lífeyrisgreiðslna o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[17:39]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það liggur fyrir og hv. þm. viðurkenndi það í ræðu sinni að hækkun tryggingabótanna hefur verið umfram almennar kauphækkanir og langt umfram verðlagshækkanir. Það hefur gerst með þeim hætti að á rúmu einu ári hækkar kaupmáttur þessara bóta sem vissulega eru ekki háar, þetta eru ekki háar bætur, en kaupmátturinn hækkar um nær 11%. Þetta er niðurstaðan.

Ég þakka hv. þm. fyrir að viðurkenna þetta. En síðan segist hann ætla að nota orð sín eins og honum sýnist. Með öðrum orðum þegar í lögum er viðmiðun sem bæturnar sækja til, viðmiðunin er efnahagsforendurnar, er laun og er verðlag, og ljóst er að ríkisstjórnin hefur staðið þannig að málum að kaupmátturinn hefur aukist meira en menn máttu kannski búast við þá er ósæmilegt af hálfu þingmannsins að tala um mannfyrirlitningu og lítilsvirðingu. Hann getur komið enn einu sinni upp og sagt að hann sé vanur að nota þessi hugtök en í ræðu eins og áðan gera þau hugtök ekkert annað en að skaða málstað þeirra sem hann þykist vera að berjast fyrir þessa stundina og gengislækka hugtökin sem hann notaði í ræðunni. Ég óska eftir því og höfða til drengskaps þingmannsins að hann stilli orðum sínum í hóf því þegar hann kannski þarf að nota orð eins og þessi sem hann notaði áðan þá verða þau marklaus úr munni hans.