Almannatryggingar

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 17:41:44 (474)

1997-10-14 17:41:44# 122. lþ. 8.8 fundur 15. mál: #A almannatryggingar# (launaviðmiðun lífeyrisgreiðslna o.fl.) frv., Flm. ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[17:41]

Flm. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég frábið mér að verið sé að halda fram að málflutningur minn sé að skaða þá einstaklinga eða þann hóp sem ég er hér að tala um. Þetta er fráleitt. Ég hef þvert á móti dregið mjög skynsamlega fram hvernig breytingarnar hafa orðið. Ég nefndi að lægstu launin hefðu hækkað um 23% við síðustu samninga. Ég vitnaði til þess sem hæstv. fjmrh. á að þekkja mætavel að oft og tíðum voru bætur úr almannatryggingakerfinu látnar taka einmitt viðmiðun af hækkun lægstu launa. Eins og skerðingar hafa verið undanfarin ár og áhrif tekjutengingarinnar hefði verið mjög brýnt að fara einmitt þá leið í þessari uppsveiflu sem við erum að ræða núna. Það er málefnalegur málflutningur, herra forseti, og það eru tölurnar sem styðja þetta mál sem ég er að tala fyrir. Í stað þess ætlar hæstv. fjmrh. að halda þeirri sömu stefnu sem hann hefur verið með að skammta úr hnefa því sem honum passar hverju sinni gagnvart þessum hóp. Það finnst mér enn og aftur vera fyrir neðan virðingu hæstv. ráðherra, fyrst menn eru nú komnir í mannjöfnuð hver sé virðing hvers. Það finnst mér vera fyrir neðan virðingu hæstv. ráðherra og honum væri nær að draga stefnu sína til baka.