Almannatryggingar

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 17:43:18 (475)

1997-10-14 17:43:18# 122. lþ. 8.8 fundur 15. mál: #A almannatryggingar# (launaviðmiðun lífeyrisgreiðslna o.fl.) frv., GHelg
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[17:43]

Guðrún Helgadóttir:

Hæstv. forseti. Ég kem hingað að sjálfsögðu til að lýsa stuðningi við frumvarpið. Ég vil hins vegar leiðrétta það hjá hv. 1. flm., hv. þm. Ágústi Einarssyni, að ekki þurfti hóp af öldruðu fólki sem safnaðist saman fyrir utan þinghúsið til þess að vekja athygli á málinu. Það var á árunum 1971--1974, þegar Magnús Kjartansson var heilbrrh., sem kjör aldraðra voru sett í þann farveg sem þau fengu að vera í um áratuga skeið og þar á meðal að hækkanir á almennum launum á hinum almenna vinnumarkaði yrðu sjálfkrafa til þess að bætur almannatrygginganna hækkuðu. Það er svo hins vegar verk ríkisstjórnarinnar sem nú situr að afnema launatenginguna.

Því miður verður að segjast eins og er að þó að Alþfl. eigi að ýmsu leyti góða fortíð þegar kemur að almannatryggingum hefur nútíminn og hin síðustu ár ekki verið jafngóð. Sannleikurinn er sá að þeir hv. þm. Þjóðvaka sem nú sitja í þingflokki með Alþfl. ættu kannski að minnast þess að niðurskurður á kjörum aldraðra borgara hér í landi hófst fyrir alvöru þegar Alþfl. stýrði þessum málum í síðustu ríkisstjórn. Menn skulu því muna hvað þeir hafa gert og horfast í augu við það. En það breytir ekki því að þetta frv. er allra góðra gjalda vert.

Ég vil aðeins vitna í það sem ég reyndi að segja við umræðu um fjárlög. Það er svo auðvelt að segja eins og hæstv. ráðherra sagði áðan: Kaupmáttur tryggingabóta er svona og svona mikill, eitthvert meðaltal, einhver tala sem er fundin einhvern veginn. Eftir stendur að aldrað fólk í landinu hefur mjög margt skammarlega lág laun því að þetta eru engar bætur, þetta eru laun fyrir langan og vel unninn vinnudag.

Ég er með Stjórnartíðindi í höndunum sem voru lögð á borðið til okkar fyrir nokkrum dögum, nánar tiltekið í fyrradag. Þar kemur reglugerð frá hæstv. heilbrrh. og harma ég mjög að hún skuli ekki vera hér í sal. Það er breyting á tekjumarki varðandi grunnlífeyri og einungis á grunnlífeyri. Ég leyfi mér að halda því fram að svona reglugerð sé sett til að blekkja fólk.

Hvað er nýtt í reglugerðinni? Það þarf töluverða kunnáttu til að sjá það í þessum flókna málaflokki. Jú, það er vissulega smávegis hækkun, auðvitað langt frá þeirri prósentu sem aðrir launþegar í landinu eru að fá. En það sem ég býst við að eigi að vekja athygli sem nýlunda er það sem skerðir ekki grunnlífeyri lengur --- og þá er ég að tala um grunnlífeyri sem allir fengu til skamms tíma hvort sem þeir voru ríkir eða fátækir og var talinn sjálfsagður réttur hvers einasta Íslendings sem náði 67 ára aldri er skerðir aðstoð félagsmálastofnana. Hún skerðir ekki grunnlífeyrinn ef tekjur einstaklingsins eru samtals með þeirri aðstoð, 87.546 kr. á mánuði.

Í fyrsta lagi fær sú manneskja sem er með 87 þús. kr. á mánuði enga aðstoð félagsmálastofnana. Þetta er bara hreint bull. Hún er með of hátt tekjumark. Það er ekki hærra tekjumarkið á því heimili þannig að þetta þýðir auðvitað ekki neitt. Það er bull að bjóða upp á reglugerð sem þessa því að þegar kemur að tekjutryggingunni og uppbótum af öllu tagi þá skerðir aðstoð félagsmálastofnana þær bætur og það eru þær sem skipta öllu máli. Það er alveg yfirgengilegt að bjóða hv. þm. annað eins og þetta. Þetta er auðvitað gert í skjóli þess að þingmenn, og ég lái þeim það ekki, þekki þetta ekki mjög vel eða þá það sem verra er, að starfsmenn hæstv. ráðuneytis þekki það ekki heldur og það er miklu verra mál.

Sannleikurinn er sá að 87 þús. kr. þykja ekki há mánaðarlaun og það segir dálítið um þá afstöðu sem menn hafa til fólks sem hefur náð ellilífeyrisaldri að menn setja sjálfkrafa annan mælikvarða á það fólk. Það fólk býr í íbúðum. Það þarf að borga af þeim. Það getur vel verið að það sé kannski orðið skuldminna en ýmsir aðrir. Það er þó mjög misjafnt. Sumir eiga hreinlega enga íbúð og borga háa húsaleigu. Þetta er auðvitað enginn peningur til að lifa neinu lífi. (GÁ: Sumir eiga peninga.) Vissulega, sem betur fer eiga sumir peninga eftir langt og starfsamt líf en þau kjör eru afar misjöfn. Það getur vel verið að stórbændur á Suðurlandi geti hafa náð töluverðum efnum. Það er áreiðanlega svo, af því að það var hv. 2. þm. Suðurl. sem gerði athugasemd um að sumir hefðu það gott. Málið er að það eiga allir að hafa það gott. Það eiga ekki sumir að hafa það gott. Það er þessi lítilsvirðing sem er alveg rétt hjá hv. þm. Ágústi Einarssyni. Hún er kannski ekki sögð upphátt en hún er undirliggjandi allan tímann þegar kemur að málefnum aldraðra. Það fólk á að þurfa miklu minna en við hin.

Í landi eins og okkar þar sem veðrátta er erfið er fólk mikið heima hjá sér. Það getur ekki verið eins mikið úti við eins og fólk í nágrannalöndunum okkar, það hefur ekki mikla möguleika að leyfa sér mikinn munað. Ég held satt að segja að eftirlaunafólki geti leiðst á Íslandi. Það getur ekki gert sér mikinn dagamun. Það kostar töluverða peninga fyrir eldri hjón að bregða sér í leikhús, í bíó eða á veitingahús. Ekkert segir að það eigi ekki að gera það alveg eins og við hin. Hvers vegna ekki?

Það er kannski vegna þess að ég er alin upp með gömlu fólki að það hefur farið í taugarnar á mér allt mitt líf að margir, án þess að hafa hugmynd um það, setja allt í einu þörfina fyrir ríkt og auðugt mannlíf niður þegar kemur að fólki sem komið er á eftirlaun. Þá á fólk bara að setjast niður og bíða eftir að deyja. Þannig eigum við ekki að gera samfélagið okkar.

Í samræmi við þetta var gripið til þessa fólks, og ég leyfi mér að segja það, þegar byggingariðnaðurinn var í einhverri ládeyðu og var rokið til og byggðar einhverjar glerhallir upp á 12 og 14 hæðir til að sturta ellilífeyrisþegum inn í. Þá átti það að lækna einmanaleikann. Af hverju mátti fólk ekki búa heima hjá sér? Hefði ekki verið nær að líta á þetta fólk sem hluta af fjölskyldu? Hefði ekki verið hugsanlegt eins og ég hef margsinnis talað um að gera fólki auðveldara að byggja hús þar sem íbúð væri fyrir hina eldri í sama húsi og fjölskyldur þeirra bjuggu í? Fólk hættir ekkert að hafa áhuga á börnunum sínum og síðar barnabörnunum sínum þó það verði 67 ára og þaðan af eldra. Satt að segja hefur flestallt sem gert hefur verið í málefnum aldraðra á undanförnum árum verið eintóm vitleysa.

Fullorðna fólkinu leiðist alveg jafnmikið í háhýsunum. Það situr hver inni í sinni íbúð og horfir á sjónvarpið. Það leysir ekki á nokkurn hátt skort á samveru eða afþreyingu eins og allt fólk þarf á að halda. Það er bara þannig, ágætu þingmenn og virðulegi forseti. Við lifum í kapítalísku þjóðfélagi þar sem börn og fullorðið fólk eru óarðbærir einstaklingar. Þetta er fólk sem vinnur ekki fyrir kaupi. Þess vegna er það afgreitt sem einhvers konar annars flokks fólk. Ég tek undir með hv. þm. Ágústi Einarssyni og það þýðir ekkert að móðgast, þetta er svona.

Því miður hefur það svo verið að gerast á síðustu árum og ekki síst í tíð þessarar ríkisstjórnar, en því miður líka í tíð þeirrar sem þar var á undan, að menn hafa verið að skerða kjör þessa fólks. Lyfjakostnaður hefur hækkað, fólk þarf að greiða fyrir heimsóknir til lækna, það var jafnvel ráðist á það hversu oft og með hve margra ára millibili eftirlaunafólk gæti skipt um gervitennur. Alls staðar var verið að skera niður. Þetta fólk á þetta ekki skilið. Það erum við sem búum í því þjóðfélagi sem þetta fólk bjó til og það er full ástæða til þess að æsa sig svolítið eins og við erum að gera hér í sameiningu, hv. þm. Ágúst Einarsson og ég. Við eigum nefnilega að verða reið. Það er einhvern veginn þannig að það er eins og fólk sem er komið á einhvern aldur stilli sig betur og verði ekki svo gjarnan reitt en það er ástæða fyrir þetta fólk að vera reitt. Á sama tíma og við erum að afgreiða fjáraukalög upp á rúmlega 6 milljarða í alls konar vitleysu, allt frá heræfingum suður á Miðnesheiði í útþenslu á allt of dýrum sendiráðum með allri virðingu fyrir þeirri starfsemi og verkfræðiskýrslur um þegar gerðar skýrslur um tónlistarhús og guð má vita hvað, erum við að vandræðast yfir því að sjá svo til að það fólk sem byggði þetta samfélag hafi mannsæmandi viðurværi. Þvílíkt og annað eins! Langar ekki hv. þm. til að lifa eins og þúsundir lífeyrisþega hafa það, svona frá 60--80 þús. kr. á mánuði. (ÁRJ: Það yrði meira fjörið.) Það yrði nú meira fjörið og jafnvel minna, það er hárrétt, hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir. Það yrði nú meira fjörið, þætti okkur ekki gaman?

Nei, hæstv. forseti. Þessi umræða verður að fara fram og hún verður að fara fram á langtum breiðari grundvelli en hér eru tök á og ég býst við að ég sé að ljúka ræðutíma mínum. Þessu verður að linna. Sannleikurinn er sá að það er hreint svínarí að lífeyristekjur úr eigin sjóðum eftirlaunamannanna skuli skerða grunnlífeyri. Þetta er hreint fáránlegt. Það er auðvitað jafnsjálfsagt að ef menn hafa umtalsverðar lífeyrissjóðstekjur er ástæðulaust að greiða tekjutryggingu. Það stóð aldrei til að hún væri nema trygging. Þess vegna heitir hún tekjutrygging. En að ráðast að sjálfum lífeyrinum nær ekki nokkurri átt og hefur aldrei gert. Þetta erum við búin að segja alloft og við eigum eftir að segja það oftar.

Ég þakka hv. þm. Ágústi Einarssyni fyrir að flytja þetta frv. en ég vil mælast til þess að hæstv. fjmrh. sé ekki að dengja yfir okkur einhverjum tölum um hversu kaupmáttur þessa fólks hefur aukist. Það getur vel verið að hann hafi aukist en hann er alla vega lítill. Sannleikurinn er sá að það líf sem margt af þessu fólki lifir er ekki líf sem nokkurri manneskju er sæmandi. Ekki nóg með það, þurfi þetta fólk síðan á hjúkrun að halda er þetta eina fólkið á Íslandi sem verður að borga þá hjúkrun. Það verður bara allt hirt og menn fá náðarsamlegast nokkur þúsund til þess að kaupa sér sokka eða hvað sem kann að vera þannig að meðferðin á þessu fólki er fyrir neðan allar hellur. Ég vil mælast til þess að hv. þingmenn taki sig saman í andlitinu og geri bragarbót á.