Almannatryggingar

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 18:30:56 (482)

1997-10-14 18:30:56# 122. lþ. 8.8 fundur 15. mál: #A almannatryggingar# (launaviðmiðun lífeyrisgreiðslna o.fl.) frv., GHelg (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[18:30]

Guðrún Helgadóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hirði ekki um hvernig þeim ágætu þingmönnum sem hér hafa talað líður eða hversu góðan vilja þeir hafa. Eitt er víst að hv. 2. þm. Suðurl. og ég skiljum ekki hvort annað. Hann talaði um þá sem þyrftu á hjálp að halda. Ég er ekki að biðja um neina hjálp handa eftirlaunamönnum á Íslandi. Þeir eiga ekki að þurfa neina hjálp, þeir eiga að fá mannsæmandi laun. Þeir hafa unnið fyrir því allt sitt líf. Hvers konar raunveruleika lifa menn í á hinu háa Alþingi að gera heilmikið úr því að fjöldi eftirlaunamanna hafi það mjög gott, eigi mikla peninga? Auðvitað er einhver hópur sem á einhverja peninga og ég ætla rétt að vona það. En hefur hv. þm. gleymt því að u.þ.b. helmingur af þeim 27 þúsund Íslendingum sem eru yfir 67 ára aldri eru konur? Ég vil spyrja hv. þm.: Heldur hann að margar þeirra kvenna eigi mikla peninga? Ég hygg að flestar þeirra eigi hreint enga peninga. Margar þeirra búa við mjög lítinn lífeyrissjóðsrétt og hagur þessara kvenna er ekki góður, svo mikið er víst. Auðvitað gildir þetta um fjölda karlmanna líka. Nægir nú að nefna sjómannastéttina sem býr við ömurlegan lífeyrissjóðsrétt eins og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson veit. Ég held að við eigum að horfast í augu við að aldraðir á Íslandi búa við þröngan kost og það er skömm að því. Og að þingmaðurinn skuli segja ,,þeir sem fátækastir eru``. Ég vil ekki hafa fullorðið fólk á Íslandi sem er fátækt. Það er bara ekki siðlegt. Þetta fólk á ekki að vera fátækt. Það á að hafa vel til hnífs og skeiðar á meðan við njótum góðs af því sem þetta fólk gerði fyrir samfélagið. Ég vildi leggja áherslu á að enginn er að biðja um ölmusu.