Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 15. október 1997, kl. 14:13:02 (513)

1997-10-15 14:13:02# 122. lþ. 10.4 fundur 3. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (tekjutenging bótaliða) frv., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[14:13]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981. Flm. ásamt mér eru þingmenn þingflokks Alþb. og óháðra.

Þetta frv. lýtur að því sviði skattalaga sem í daglegu tali nefnast jaðarskattar eða jaðaráhrif í skattkerfinu. Frv. gerir ráð fyrir að álagningu tekjuskatts á árinu 1998 verði hagað með sérstökum hætti til þess að draga úr jaðaráhrifum tekjutengingar bótaliða í skattkerfinu. Frumvarpsgreinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Við lögin bætist svohljóðandi ákvæði til bráðabirgða:

a. Við álagningu tekjuskatts árið 1998 skal, til að draga úr jaðaráhrifum tekjutengingar bótaliða í skattkerfinu, haga útreikningi tekjutengdra bótaliða þannig: Samanlagt hlutfall álagðra skatta og skerðingar bótaliða skal vera að hámarki 50%. Skal skerðing vaxtabóta eða húsaleigubóta reiknuð fyrst en síðan skerðing barnabóta að áðurnefndum mörkum.``

Um þennan fyrri lið tillögunnar er það að segja að þrátt fyrir þær breytingar sem gerðar voru á skattkerfinu á sl. ári þá haldast í raun og veru hlutfallsleg jaðaráhrif umfram hina almennu skattprósentu, sem nú er tæpt 41%, í grófum dráttum þau sömu og áður var. Þó ber að vísu að taka fram að nokkuð vægari tekjutenging barnabóta eða skerðingar vegna annars og þriðja barns hefur þarna áhrif en á móti var tekið það skref að tekjutengja barnabætur að fullu, þ.e. fella niður hinn ótekjutengda grunnlífeyri barnafjölskyldnanna, þannig að það vegast nokkuð á hvað áhrifin eða jaðaráhrifin snertir. Þessi niðurstaða var vægast sagt umdeilanleg og kom á óvart í miðri umræðunni um óhófleg jaðaráhrif í skattkerfinu en hún þýðir á mannamáli, herra forseti, að í reynd er engin skattalegur munur gerður á barnafjölskyldum og barnlausum fjölskyldum ofan við tiltekin tekjumörk. Allt skattalegt hagræði sem barnafjölskyldum var og hefur lengi verið ætlað að breyttu breytanda umfram aðrar fjölskyldur er þar með horfið ofan við viss skerðingarmörk. Þetta er að mínu mati, herra forseti, mjög umdeilanleg niðurstaða. Þótt lengi megi deila um að hve miklu leyti sé rétt að stýra stuðningi í skattkerfinu við sérstaka hópa, þá held ég að eitthvert skattalegt hagræði til barnafjölskyldna umfram aðrar sé sanngjörn regla. Á það má minna að víða í skattkerfum erlendis er litið svo á að slíkt hagræði tilheyri börnunum en ekki hinum fullorðnu, sé réttur þeirra, jafnvel stjórnarskrárvarinn. Ég minni í því sambandi á úrskurð stjórnlagadómstóls Þýskalands.

Ég tek það skýrt fram, herra forseti, að ég er ekki andstæðingur tekjutengingar sem slíkrar í skattkerfinu og ég er hér ekki með málflutning fyrir því að engin tekjutenging af því tagi sem lengi hefur verið tíðkuð í einhverjum mæli hjá okkur geti ekki átt rétt á sér, öðru nær. Staðreyndin er auðvitað sú að hófsamleg tekjutenging getur verið aðferð til þess að beina takmörkuðum fjármunum þangað sem þeirra er mest þörf. En hér er eins og svo oft áður nauðsynlegt að lenda ekki í ógöngum. Óhófleg tekjutenging og tekjutenging margra þátta í skattkerfinu eða utan þess sem verður virk samtímis eða samsíða og hvað hleðst ofan á annað getur leitt menn út í hinar mestu ógöngur eins og reynslan úr íslenska skattkerfinu frá undanförnum árum sýnir.

Við höfum því valið, þingmenn Alþb., með hliðsjón af þeim breytingum sem gerðar voru í skattamálum og tengdust að einhverju leyti gerð síðustu kjarasamninga og þeim breytingum sem boðaðar eru, að breyta nokkuð efni frv. þannig að samanlagt hlutfall álagðra skatta og skerðingar bótaliða verði nú að hámarki 50% en í eldri útgáfu frv. sem hér er endurflutt var það 55%. Með þessu er í rauninni fyrst og fremst verið að láta þakið á jaðarskattana eða jaðaráhrifin í skattkerfinu fylgja hlutfallslega þeim breytingum sem verið er að gera á almennu skattprósentunni og vægari tekjutengingu barnabótanna. Aðferðin sem hér er lögð til er tiltölulega einföld og á að vera vel framkvæmanleg án þess að valda erfiðleikum í því staðgreiðslukerfi skatta sem við búum við. Hún er hins vegar hugsuð til bráðabirgða til eins árs í fyrstu og til að setja mörk á jaðaráhrifin meðan unnið verði að \mbox{ítarlegri} endurskoðun skattkerfisins. B-liður tillögunnar felur í sér að að því máli verði unnið með tilteknum hætti. Hann er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,b. Alþingi skal kjósa nefnd skipaða fulltrúum allra þingflokka, auk formanns sem fjármálaráðherra skipar, til að gera í samráði við samtök launafólks ítarlega úttekt á áhrifum tekjutengingar í skattkerfinu og samspili slíkrar tekjutengingar við aðra þætti, svo sem almannatryggingakerfið, lífeyrisréttindi, tekjutengdar afborganir námslána o.fl.

Nefndin skal skila tillögum um breytingar á skattalögum sem fela það í sér að komist verði hjá óhóflegum jaðar\-áhrifum vegna tekjutengingar bótaliða, í skattkerfinu og utan þess.

Fjármálaráðherra skal leggja tillögur nefndarinnar fyrir Alþingi haustið 1998.``

Síðan er í 2. gr. gert ráð fyrir því að lög þessi öðlist þegar gildi.

Þegar frv. þetta var fyrst flutt á síðasta þingi var á það bent af hæstv. fjmrh. og fleirum að fram færi einmitt á vegum fjmrh. starf sem lyti að sambærilegum hlutum og var þar verið að vísa til jaðarskattanefndarinnar svonefndu sem sett var á fót og var skipuð fulltrúum ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins. Nú ber hins vegar svo við, herra forseti, að starfi þessarar jaðarskattanefndar er lokið og hæstv. fjmrh. hefur lagt fyrir Alþingi greinargerð eða skýrslu um störf nefndarinnar ásamt með skilabréfi og inngangi sem hæstv. fjmrh. ritar sjálfur. Til að gera langt mál stutt þá liggur sú niðurstaða fyrir að jaðarskattanefndin komst ekki að neinni sameiginlegri niðurstöðu og jaðarskattanefndin lagði ekki til neinar sérstakar aðgerðir eða ráðstafanir í skattamálum eða til að taka á jaðarskattavandanum. Um það varð ósköp einfaldlega engin samstaða eða engin niðurstaða. Jaðarskattanefndin fór út af fyrir sig yfir málið og það er gagnleg yfirferð að lesa greinargerð hennar. Þær hugmyndir sem nefndin reifar og koma fram í niðurstöðum eða skilabréfi til fjmrh. eru góðra gjalda verðar, menn geta verið þeim sammála eða ósammála eftir atvikum en meginniðurstaðan er sú að menn eru í raun og veru engu nær. Hæstv. fjmrh. vísar fyrst og fremst til þeirra breytinga sem þegar hafa verið ákveðnar eða eru fram undan. Að öðru leyti er málinu slegið á frest. Engin uppstokkun eða ný stefnumótun hvað varðar fyrirkomulag þessara hluta innan skattkerfisins hjá okkur er þar af leiðandi í vændum nema ef vera skyldi að nefnd sú sem hæstv. fjmrh. boðar í inngangi að skýrslu sinni til Alþingis eigi í bland við annað að skila slíku verkefni, en í inngangsorðum hæstv. fjmrh. segir, með leyfi forseta:

,,Þótt starfi jaðarskattanefndar sé lokið munu stjórnvöld áfram skoða skattkerfið með tilliti til hugsanlegra breytinga í framtíðinni.`` --- Ekki er þar kveðið nánar á um hver sú framtíð sé, hvenær hún komi. --- ,,Því hef ég ákveðið að fela nýrri nefnd að skoða þróunina í skattamálum hér á landi og erlendis og safna saman upplýsingum sem lagt geta grunn að stefnumörkun og þar með æskilegum breytingum á skattkerfinu.`` Hér er að vísu ágætlega geðþekkilega um hlutina fjallað en það er skrifað inn í framtíðina og við hv. alþm. erum í raun og veru litlu nær um það hvenær eða á hvaða formi breytingar og uppstokkun í skattamálum geta átt sér stað. Og svo vel ber í veiði að hæstv. fjmrh. er hér til að hlusta á upphaf umræðunnar og ég vona að hann geti gefið okkur einhver skýrari svör um hvar þetta starf er á vegi statt og hvað af hans hálfu sé hugsað í því sambandi, einnig hvað tímasetningar varðar.

Herra forseti. Ég held þess vegna að það sé full ástæða til að Alþingi sjálft setji þetta starf í farveg af því tagi sem b-liður frv. gerir ráð fyrir. Ég tel líka að starf af þessu tagi eigi að vinnast í sem allra víðtækustu samstarfi aðila, þar með talið þverpólitísku samstarfi. Mér finnst að sjálfsögðu ámælisvert og beinlínis vanhugsað að hafa ekki fulltrúa stjórnarandstöðuflokkanna með í starfi af þessu tagi Því stjórnarandstaðan í dag er gjarnan stjórnin á morgun og öfugt og nú líður á kjörtímabil þannig að það kynni að vera hyggilegt að reyna að laða frekar fram sem breiðasta pólitíska samstöðu um breytingar í skattkerfinu heldur en að knýja þetta áfram ofan í einhverjum skotgröfum. Hér er um að ræða vandasama hluti og flókna, um það geta menn væntanlega orðið sammála. Það er meira en að segja það, viðurkenni ég fúslega og fyrstur manna, að komast út úr því flókna samspili skerðinga, tekjutengingar og víxlverkandi áhrifa sem skattkerfið með sínum tekjutengdu skerðingum eða bótaliðum, sem almannatryggingakerfið, sem lífeyrissjóðirnir, sem sveitarfélögin með sinni framfærslu og öðrum slíkum þáttum og sem tekjutengdar afborganir námslána og þar fram eftir götunum til samans hafa.

Efh.- og viðskn. hefur að undanförnu gert nokkuð af því að reyna að átta sig á þessu samspili og fara yfir það. Hvort sem menn hafa nú lært af því meira eða minna þá er eitt alla vega ljóst öllum þeim sem þátt tóku í því verkefni og þeim seminörum, að málið er býsna flókið. En ekki tjáir að nota það sem afsökun eða skálkaskjól fyrir því að gera ekki neitt. Það eru hlutir sem þarfnast lagfæringa í íslenska skattkerfinu, dreifing skattbyrðinnar er ekki eins og hún þyrfti að vera og tekjutengingargildran, jaðarskattaáhrifin, er þarna enn á ferðinni, a.m.k. hlutfallslega þegar horft er til hinnar almennu skattprósentu annars vegar og þess hversu miklu minna menn á ákveðnu tekjubili geta borið úr býtum þó að þeir reyni að bæta stöðu sína með viðbótartekjuöflun.

Herra forseti. Það er í mínum huga afar brýnt að þessi mál verði áfram á dagskrá og til umfjöllunar. Þó að hin almenna lækkun skattprósentunnar, sem mér dettur í hug að hæstv. fjmrh. muni fyrst og fremst vísa til í umræðum um þessi mál, geti verið góðra gjalda verð, a.m.k. fyrir þann hlutann sem er með meðaltekjur og lægri og lenti í einhverjum tekjuskattsgreiðslum áður, þá hefur hún sem aðferð þann ókost m.a. að hún er dýr og hún gagnast ekki síst hátekjufólkinu og einkum og sér í lagi auðvitað því. Ég var þess vegna og er mikill efasemdarmaður um að það væri skynsamleg ráðstöfun að öllu leyti sem þar var farin. Ég hefði gjarnan viljað sjá breytingar meira í ætt við þær sem reifaðar voru af ýmsum í þessum efnum, þar á meðal ýmsum sérfræðingum verkalýðshreyfingarinnar --- að skoða frekar álagningu tekjuskatts í fleiri þrepum og að halda raunverulegum hátekjuskatti inni en á móti hefði mátt hugsa sér að einhver frádráttur eða skattalegt hagræði fyrir barnafjölskyldur hefði komið.

Herra forseti. Ég tel með öðrum orðum að við séum engan veginn skilin við þetta mál. Og þó að þau áform nái fram að ganga sem nú hafa verið boðuð varðandi álagningu skatta hér á landi fram undir aldamótin og hæstv. ríkisstjórn hefur sett sér, þá breytir það ekki hinu að eftir sem áður er fyrir hendi hinn hlutfallslegi munur milli þeirra sem annars vegar sleppa með almennu skattprósentuna eina og sér og hinna sem verða fyrir miklu meiri jaðaráhrifum í skattkerfinu vegna tekjutengdrar skerðingar barnabóta, vaxtabóta, húsaleigubóta, endurgreiðslu námslána og fleiri þátta. Og hann er enn óhóflegur að mínu mati og við þörfnumst þar af leiðandi breytinga á þessu.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta, herra forseti, ég get vísað að öðru leyti til þeirrar framsögu sem ég flutti fyrir málinu í fyrra og var allítarleg. Þar var m.a. farið yfir dæmi um það hvernig einstakar fjölskyldur gætu farið út úr kerfinu eins og það er. Það dæmi er í raun og veru í gildi í öllum aðalatriðum, að teknu tilliti til þeirra breytinga sem orðið hafa á álagningu skatta og tekjuskerðingarskalanum hvað barnabætur snertir. Að öðru leyti má t.d. taka það dæmi sem er rakið í fskj. með frv. og sýnt á súluriti og segir allt sem segja þarf um þau óhóflegu jaðaráhrif sem fyrirfundust og fyrirfinnast að langmestu leyti enn innan skattkerfisins. Það verður ekki kallað neitt annað en óhófleg jaðaráhrif, gildra eða ófæra, sem menn lentu í af því að þeir gættu sín ekki þegar tekjutengingar voru innleiddar og síðan auknar, einkum og sér í lagi á síðasta kjörtímabili --- hvers konar jafnaðarstefna sem það nú átti að vera --- og leiddi okkur á skömmum tíma í óhóflegar hæðir í þessum efnum.

Herra forseti. Ég legg svo til að að lokinni umræðu verði málinu vísað til hv. efh.- og viðskn. enda vel komið þar.