Stefnan í heilbrigðismálum

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 10:32:54 (532)

1997-10-16 10:32:54# 122. lþ. 11.93 fundur 55#B stefnan í heilbrigðismálum# (umræður utan dagskrár), Flm. MF (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[10:32]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Það má hefja þessa umræðu með þeirri samþykkt sem gerð var á aðalfundi Læknafélags Íslands í september sl. Samþykktin er ágæt lýsing á ástandinu í heilbrigðiskerfinu en í henni segir, með leyfi forseta:

,,Aðalfundur Læknafélags Íslands lýsir þungum áhyggjum af upplausn í heilbrigðiskerfinu. Niðurskurður undir yfirskyni hagræðingar og sparnaðar hefur leitt til verri þjónustu við sjúklinga á mörgum sviðum. Ef fram heldur sem horfir blasir við skerðing á tryggingarétti og aukin mismunum sjúklinga.

Áður en stjórnvöld gera fleiri tilraunir til sparnaðar í heilbrigðiskerfinu er skorað á þau að kanna ítarlega hver áhrif þær aðgerðir, sem þegar hefur verið gripið til, hafa haft á þjónustu við sjúklinga. Stefnuleysi heilbrigðisyfirvalda og seinagangur við ákvarðanatöku skapar öryggisleysi hjá sjúklingum og starfsmönnum heilbrigðisþjónustunnar, sem ekki verður við unað.``

Þetta er lýsing Læknafélagsins á því ástandi og stefnuleysi sem ríkir í heilbrigðiskerfinu. Hún er ekki fögur en því miður allt of sönn. Og þær eru fleiri samþykktir og ályktanir þessa aðalfundar. T.d. átaldi fundurinn harðlega framgöngu og framferði ríkisins í kjaraviðræðum við lausráðna sjúkrahúslækna og aðrar stéttir innan heilbrigðiskerfisins hafa sent frá sér ályktanir í svipuðum dúr.

Fyrir ári síðan stóðu heilsugæslulæknar í kjarabaráttu sem enn sér ekki fyrir endann á. Lofað var umbótum í kjaramálum og í uppbyggingu á rekstri heilsugæslunnar. En efndirnar eru heldur litlar. Heilsugæslan sem gegnir lögum samkvæmt afar mikilvægu hlutverki í heilbrigðiskerfinu hefur búið við fjársvelti í mörg ár. Á þó nokkrum stöðum hefur gengið illa, erfiðlega eða alls ekki að manna stöður lækna og á mörgum stöðum hefur nú þegar dregið verulega úr þeirri þjónustu sem heilsugæslan hefur veitt. Það er ekki lengur hægt að tala um að allir íbúar landsins búi við jafnan aðgang að þjónustu heilsugæslunnar og óhóflegt vinnuálag er á starfsfólki margra heilsugæslustöðva. Þó er alltaf verið að bæta verkefnum á heilsugæsluna og herða kröfurnar sem gerðar eru til starfsfólksins.

Uppsafnaður rekstrarvandi heilsugæslunnar er heldur ekki leystur. Sem dæmi get ég nefnt að nú stendur fyrir dyrum flutningur heilsugæslunnar sem staðsett er að Reykjalundi. Sú heilsugæslustöð hefur búið við hreint fjársvelti á undanförnum árum, ekki fengið fjárveitingar í neinu samræmi við þann mikla fjölda sem heilsugæslan þar hefur þjónað. Í dag er þar um að ræða uppsafnaðan rekstrarhalla upp á um 10 millj. kr. og ekkert liggur fyrir um það hvernig þessum vanda verður mætt.

Ógerlegt er fyrir þessa heilsugæslustöð að leiðrétta rekstrarstöðuna með þeim fjárveitingum sem henni eru ætlaðar í frv. til fjárlaga án þess að draga verulega úr þjónustu við sjúklinga. Endurhæfingarsjúkrahúsið að Reykjalundi er með um 34 millj. í uppsöfnuðum rekstrarhalla og þessi halli er ekkert nýtt vandamál. Sjúkrastofnunin hefur verið rekin innan ramma fjárlaga sl. tvö ár. Hallinn er því gamalt vandamál sem ekki er leyst frekar en mörg önnur vandamál í heilbrigðiskerfinu. Þetta er vandi sem stöðugt vefur upp á sig. Og nú er útlit fyrir það að sú hækkun sem þessi sjúkrastofnun fékk fyrir næsta ár dugi ekki einu sinni fyrir þeim launahækkunum sem samið var um.

Þá er vitað um verulegan hallarekstur innan sjúkrastofnana eins og sjúkrahússins á Akureyri. Þar stefnir í tugmilljóna kr. halla og aðrar heilbrigðisstofnanir eru í svipaðri aðstöðu og engin svör fást frá ráðuneytinu. Eitt vinsælasta svarið þó sl. tvö og hálft ár er: ,,Málið er í athugun í ráðuneytinu.`` Þetta er ólíðandi ástand.

Enn og aftur eru kjaramál heilbrigðisstétta í uppnámi, hjá læknum eins og alþjóð veit, og kjarasamningar þroskaþjálfa hafa nú verið í athugun í tæpt ár. Ekkert hefur verið gert nema að lögð voru fram smánarleg tilboð mörgum mánuðum eftir að kjarasamningar voru lausir.

Þroskaþjálfar hafa nú samþykkt að boða til verkfalls. Ef af því verður, hvernig hugsar hæstv. ráðherra sér að taka á málum þeirra fjölmörgu einstaklinga sem ekki geta án þessarar þjónustu verið, t.d. fatlaðra barna sem þurfa nauðsynlega á þjónustu þeirra að halda? Hver er réttur þeirra til þjónustu heilbrigðiskerfisins? Eiga þeir bara að bíða úrlausna og borga háar upphæðir sem fáir hafa ráð á eins og þeir sjúklingar hafa orðið varir við sem verða að nýta sér þjónustu sérfræðilækna sem sagt hafa upp samningum sínum við Tryggingastofnun? Það er lítilsvirðing sem endurspeglast í aðgerðarleysi stjórnvalda þegar samningar heilla stétta eru lausir og lítið sem ekkert gert til að ná samningum. Það er lítilsvirðing gagnvart þroskaþjálfum og öðrum stéttum í sömu aðstöðu. En fyrst og fremst er það virðingar- og skeytingarleysi gagnvart þeim sjúklingum sem þurfa á þjónustunni að halda. Þeir búa við óþolandi óvissu og óöryggi.

Aðrir sjúklingahópar búa við óöryggi vegna annarra aðgerða stjórnvalda. Það á t.d. við geðsjúka. Nýlega var gert samkomulag milli fjmrh., heilbrrh. og borgarstjóra um verulegar breytingar á rekstrarfyrirkomulagi sjúkrahúsa í Reykjavík, samkomulag sem Pétur Hauksson læknir, formaður Geðhjálpar, kallar í grein sem hann skrifar í Morgunblaðið 1. október sl. samkomulag um afturför og fullyrðir að samningurinn hafi í för með sér mun lakari þjónustu fyrir geðsjúka en verið hefur. Í sama streng tekur stjórn Geðverndarfélags Íslands í ályktun sinni frá 30. september þar sem skorað er á heilbrrh. að endurskoða þetta samkomulag. En þrátt fyrir að allir sem best þekkja til í geðheilbrigðisþjónustunni gagnrýni það samkomulag sem heilbrrh. gerði fullyrðir hæstv. ráðherra í viðtölum við fjölmiðla að samkomulagið bæti þjónustu við geðsjúka.

Við höfum áður á Alþingi rætt um vanda barna og unglinga sem eiga við geðræn vandamál að stríða. Athuganir sýna að Ísland er langt á eftir þeim þjóðum sem við berum okkur saman við hvað varðar þjónustu við þessi börn og ungmenni. Allt of fá börn sem þurfa á þessari þjónustu að halda hafa möguleika á að fá hana. Það er óásættanlegt og í engu samræmi við heilbrigðislöggjöfina og ég tel að það samrýmist ekki heldur þeim markmiðum sem heilbrigðislöggjöfin setur, að stór hópur sjúklinga telji sig ekki hafa lengur efni á að leita til læknis eða leysa út lyf.

Á ráðstefnu sem haldin var á vegum BSRB kynnti Ólafur Ólafsson landlæknir niðurstöðu könnunar sem landlæknisembættið lét gera. Þar kom fram að um 20% fullorðinna í barnafjölskyldum sem hafa minna en 130 þús. kr. ráðstöfunartekjur á mánuði hafi frestað eða hætt við læknismeðferð vegna kostnaðar sem henni fylgir og tæplega 20% frestað eða hætt við að taka út lyf. Ástæðan fyrir þessu er að hlutur sjúklinga í lyfja- og lækniskostnaði er allt of hár fyrir þá sem hafa litlar ráðstöfunartekjur. Heildarupphæð komugjalda á heilsugæslu nemur nú um 330 millj. kr. og stöðugt er leitað nýrra leiða til að auka kostnaðarhlutdeild sjúklinga í læknisþjónustu og lyfjakostnaði. Sjúklingurinn og aðstandendur hans eru að verða algjört aukaatriði í augum heilbrigðisyfirvalda.

Í sumum tilvikum verður sjúklingurinn að greiða að fullu fyrir þá þjónustu sem tryggingakerfið ætti að taka þátt í, t.d. þjónustu sálfræðinga og félagsráðgjafa. Þetta hefur komið illa niður á börnum með langvarandi erfiða sjúkdóma, andlega eða líkamlega, og aðstandendum þessara barna.

Stórir hópar sjúklinga búa við óöryggi og óvissu meðan líf þeirra og heilsa ásamt framtíð heilbrigðiskerfisins er í stöðugri skoðun hjá ráðuneytinu. Umönnun sjúklinga er í vaxandi mæli ýtt yfir á aðstandendur og sveitarfélög. Starfsfólk innan heilbrigðiskerfisins býr einnig við óöryggi og óþolandi vinnuaðstæður.

Ráðherra hlýtur að verða að svara hvert stefnir. Það er ekki hægt að búa við þær aðstæður að enginn viti hvað morgundagurinn ber í skauti sér þegar um er að ræða stefnuna í heilbrigðismálum þjóðarinnar.