Stefnan í heilbrigðismálum

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 12:09:36 (556)

1997-10-16 12:09:36# 122. lþ. 11.93 fundur 55#B stefnan í heilbrigðismálum# (umræður utan dagskrár), VS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[12:09]

Valgerður Sverrisdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir málefnalega ræðu og hef í sjálfu sér ekki svo margt út á hana að setja nema það sem hún sagði að það virtist vera að sjúklingarnir væru orðnir aukaatriði. Mér finnst við ekki geta haldið því fram. Við megum ekki halda því fram vegna þess að það er ekki þannig. Það er hvorki svo meðal heilbrigðisstétta sem vinna við að þjóna sjúklingum og það er heldur ekki þannig á meðal stjórnmálamanna að þeir líti á sjúklinga sem aukaatriði. Mér þótti sárt að sjá það haft eftir virtum lækni að hann teldi að sjúklingar væru orðnir aukaatriði en niðurskurður væri aðalatriði. Þannig er það ekki. Við vitum að þetta er viðkvæmur málaflokkur og alltaf er hægt að finna eitthvað að. Það er alltaf hægt að nota meira fjármagn. En við sem vinnum á hv. Alþingi hljótum að hafa þá víðsýni að horfa bæði á það sem vel er gert og eins að benda á hluti sem betur mættu fara og það hefur verið gert í umræðunni. En í heildina séð finnst mér hún hafa verið málefnaleg.