Skaðabótalög

Mánudaginn 20. október 1997, kl. 15:35:04 (639)

1997-10-20 15:35:04# 122. lþ. 12.4 fundur 58. mál: #A skaðabótalög# (endurskoðun laganna) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[15:35]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á skaðabótalögum. En með lögum nr. 42/1996 var bætt við skaðabótalögin ákvæði til bráðabirgða þar sem segir að dómsmrh. skipi nefnd til að vinna að heildarendurskoðun laganna og að ráðherra skuli leggja fyrir Alþingi frv. til breytinga á lögum eigi síðar en í október 1997.

Í kjölfar gildistöku laganna skipaði dómsmálaráðherra nefnd til að vinna að umræddu verkefni. Í nefndinni eiga sæti hæstaréttarlögmennirnir Gestur Jónsson og Sigrún Guðmundsdóttir auk Guðmundar Jónssonar, fyrrverandi hæstréttardómara, en hann er formaður nefndarinnar.

Þrátt fyrir að starf nefndarinnar sé vel á veg komið er það mat hennar að enn skorti fullnægjandi upplýsingar um tjónakostnað bifreiðatrygginga vegna líkamstjóna eftir gildistöku skaðabótalaganna 1. júlí 1993. Slíkar upplýsingar séu forsenda þess að unnt sé að meta áhrif einstakra tillagna, sem nefndin kynni að gera, á iðgjöld bifreiðatrygginga. Þá telur nefndin að hún hafi fengið misvísandi upplýsingar um fjölda bótaskyldra slysa sem leiða til bótagreiðslu fyrir líkamstjón. Með hliðsjón af þessu telur nefndin æskilegt að hún fái lengri tíma til að afla frekari upplýsinga og ljúka starfi sínu.

Nefndin hefur ritað mér bréf af því tilefni og farið formlega fram á að slíkur frestur verði veittur. Með hliðsjón af þeim rökum sem nefndin sjálf hefur fært fyrir því hef ég talið rétt að leggja til við hið háa Alþingi að bráðabirgðaákvæðum laganna verði breytt og þessi frestur veittur sem nefndin hefur sameiginlega óskað eftir.

Það má ljóst vera að endurskoðun skaðabótalaga er í senn flókið og umfangsmikið verk sem brýnt er að vandað verði til svo sem framast er kostur. Samkvæmt þeim rökum sem þegar hafa verið rakin og komið hafa fram af hálfu nefndarinnar er lagt til að ákvæði til bráðabirgða með skaðabótalögum verði breytt þannig að frv. til breytinga á lögum í kjölfar heildarendurskoðunar þeirra verði lagt fyrir Alþingi eigi síðar en í október 1998.

Herra forseti. Ég legg til að frv. þessu verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og hv. allshn.