Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Mánudaginn 20. október 1997, kl. 16:52:18 (655)

1997-10-20 16:52:18# 122. lþ. 12.6 fundur 146. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (útboð veiðiheimilda) frv., Flm. SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[16:52]

Flm. (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég trúi því ekki að alþingismaður eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, sem hefur fylgst með umræðum um veiðileyfagjald í tíu ár, viti ekki hvað það er. Hann er þá einn af fáum Íslendingum sem veit ekki að veiðileyfagjald er gjald fyrir afnot fárra af auðlind fjöldans. Spurningin er mjög einföld: Finnst mönnum sanngjarnt eða ósanngjarnt að þeir sem fá að nýta sameiginlega auðlind okkar greiði eitthvert gjald fyrir nýtinguna? Menn geta síðan deilt um það hvernig á að taka þetta gjald. Menn hafa fyrir löngu svarað þeirri spurningu hvort réttlátt sé eða óréttlátt að menn greiði til sameiginlegra þarfa eftir efnum og ástæðum. Menn hafa löngu svarað þeirri spurningu játandi. En öll þau ár sem það hefur verið gert hafa menn aldrei verið sammála um það hvernig það skuli gert. Menn hafa deilt um það t.d. í tekjuskatti hvað skattleysismörk eigi að vera há. Hvað jaðarskattar eiga að vera háir, hver persónuafslátturinn skuli vera o.s.frv., en það eru allir sammála um að það skuli greiða gjald til sameiginlegra þarfa eftir efnum og ástæðum. Spurningin um veiðileyfagjaldið er mjög einföld. Hún er um það hvort ekki sé rétt og sjálfsagt að þegar fáum er úthlutað með stjórnvaldsathöfn afnotarétti af sameign fjöldans þá greiði þessir fáu gjald fyrir það. Það er gert mjög víða. Tökum dæmi t.d. úr kjördæmi hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Þar er starfrækt fyrirtæki sem heitir Kísiliðjan. Hún fær að nema hráefni úr botni Mývatns sem er talið vera í eigu þjóðarinnar og hún þarf að greiða gjald fyrir það. Hún þarf að greiða nýtingargjald fyrir að fá heimild til að nýta auðlind sem í þessu tilviki er í botni Mývatns og er í eigu þjóðarinnar.

Þannig að ég trúi því ekki að mönnum sé ekki ljóst hvað veiðileyfagjald er. Það er öllum ljóst sem um málið tala og hafa talað á Íslandi hvað veiðileyfagjald er.