Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Mánudaginn 20. október 1997, kl. 16:57:59 (658)

1997-10-20 16:57:59# 122. lþ. 12.6 fundur 146. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (útboð veiðiheimilda) frv., EOK
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[16:57]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Fyrir 11 dögum eða svo var til umræðu í þingsalnum þáltill. frá þingflokki jafnaðarmanna um auðlindagjald eða skatt, ég man nú ekki hvort heldur það hét. (Gripið fram í: Veiðileyfagjald.) Eða veiðileyfagjald. Ég ræddi það þá við flutningsmenn, líkt og ég hef gert á undanförnum árum, að fara yfir hugmyndir þeirra um gjaldtöku á sjávarútveginn, hugmyndir sem mér hefur alltaf þótt á þann veginn að líktust mest galdrakarlinum sem drægi upp úr hattinum kanínur. Ég hef aldrei getað séð hvernig það gjald mætti vera öðruvísi en svo að það væru fyrst og fremst sjómenn og fiskverkafólk sem bæru það. Við mundum aldrei gera annað en veikja samkeppnisstöðu Íslands með því að leggja það á.

Í umræðunni fyrir 11 dögum benti ég samt þingflokki jafnaðarmanna á að ef menn hefðu í raun áhuga á gjaldtöku á sjávarútveginn þá skyldu þeir og ættu að skoða sérstaklega norsk-íslenska síldarstofninn.

Þegar úthafsveiðinefndin var að störfum var þetta mjög mikið rætt og sannarlega litu menn á það sem heilmikið vandamál og voru ekki á eitt sáttir um hvernig með skyldi fara þegar því var til að dreifa að nýir fiskstofnar, sem ekki væri nein reynsla á, kæmu inn í efnahagslögsöguna. Menn veltu fyrir sér ýmsum leiðum fram og til baka og urðu ekki á eitt sáttir, eins og menn hafa minnst á í umræðunni. Síðan var lögð fram málamiðlun sem byggðist á því að formaðurinn taldi að það sem var gert að lögum væri það sem flestir gætu samþykkt. Ég stóð að sjálfsögðu að lagasetningunni um veiðar utan lögsögunnar, eins og aðrir stjórnarþingmenn, en ég hafði sérstaklega orð á þessu um daginn vegna þess að mér finnst og hef velt því mikið fyrir mér að það geti alveg komið til greina að nota þessa aðferð og ég skal fara yfir það og rökstyðja það.

Í greinargerð með því frv. sem hér liggur fyrir segir, herra forseti:

,,Síldveiðiskipin, sem veiðarnar stunduðu fyrir þrjátíu árum, eru flest horfin úr íslenska flotanum og útgerðir margra þeirra hættar störfum. Íslendingar standa því frammi fyrir aðstæðum sem eru alls ólíkar því sem átt hefur við um veiðar úr öðrum fiskstofnum á Íslandsmiðum og utan þeirra þar sem byggt var á margra ára veiðireynslu skipa sem í útgerð voru þegar stjórnkerfisleiðir voru valdar.``

Ég tel, herra forseti, að þessi tilvitnun og þessi röksemdafærsla sé alveg hárrétt. En um leið og við verðum sammála um það þá hljótum við að geta gagnályktað og sagt: Þau skip sem höfðu reynslu í íslensku lögsögunni þegar við settum reglurnar höfðu hefðarrétt á veiðunum og þau hafa það að mínu áliti, herra forseti. Þau hafa hefðarrétt sem ekki verður af þeim tekinn vegna þess að þetta er óaðskiljanlegt, skip, veiðiskip og veiðileyfi. Veiðiskip án veiðileyfis, hvað er það? Það er bara brotajárn, það er ekkert annað. Þetta er grundvallaratriði sem við verðum að standa frammi fyrir og horfast í augu við.

Sú niðurstaða, sem við urðum ásáttir um og ég held að sé nokkurn veginn samstaða um í sjútvn. þingsins, að ekki yrði úthlutað varanlegum veiðirétti á norsk-íslensku síldinni nema með því að taka þrjú bestu ár af sex --- ég held að það sé samstaða um það --- er aðferð sem sannarlega hefur verið bent á að er kostnaðarsöm. Hún hefur í för með sér heilmikla sóun umfram það sem þyrfti að vera. Forustumaður LÍÚ hefur bent á það, og margir fleiri, að það sé seinfarin og erfið leið að vera með það sem menn kalla ólimpískar veiðar í fimm ár í viðbót eða alls sex ár. Þess vegna er það, herra forseti, að mér finnst koma til greina að við skoðum það að bjóða upp og hafa uppboð á þessum veiðum, að gefa íslenskri útgerð --- og ég er þá alltaf að tala um íslenska útgerð --- kost á því að kaupa varanlegan veiðirétt eða afnotarétt af þessari síld.

Mér hefur verið bent á, og ég held að það sé rétt að það geti staðið samkvæmt kenningunum um fiskihagfræðina, hvað útgerðarmenn mundu vera tilbúnir til að borga fyrir þennan rétt. Sennilega væru þeir tilbúnir að borga fyrir hann það sem sparaðist á næstu fimm árum. (Gripið fram í: Að þeirra áliti.) Auðvitað að þeirra áliti. Ef það er rétt ályktað, sem ég held að geti alveg staðist, þá er þetta tilfelli sem er dálítið einstakt. Það er hægt að selja leyfin án þess að það bitni í raun á sjómönnum, útgerðarmönnum og fiskverkafólki. Þannig hefur mér dottið í hug að þetta gæti gengið upp. Ég hef að vísu alltaf tekið það fram að ég væri alls ekki yfir mig sannfærður og ég gæti ekki sannað málið, ég gæti það ekki. En mér fyndist það koma til greina og við ættum að skoða það vegna þess að við gætum búið til nýja peninga með því. Við erum með hefðarrétt á veiðunum í landhelginni, við þyrftum að skapa þann rétt og ég held að þó að útvegsmenn taki þessu mjög illa kannski núna, þegar menn velta þessu fyrir sér, þá sé þetta ekki slæmur valkostur. Þess vegna er það, herra forseti, að það er skrýtið að lesa það í einu hinna virtu dagblaða, í einhverjum fréttaspuna, þar sem rætt er við hv. þm. Sighvat Björgvinsson, um að það hafi vakið athygli að ég væri ekki meðflutningsmaður á því frv. sem nú liggur fyrir.

Ég hef ekki vitað áður að þingmenn færu með það í blöðin og segðu frá því þótt menn göntuðust með það á kaffistofum hvort þeir ættu að styðja hver annan í einhverjum málflutningi, en það vita allir sem hafa fylgst með umræðu hér um fiskveiðimál og fiskveiðistjórnun, að það yrði mjög fyndið ef ég færi að flytja frv. með hv. þm. Sighvati Björgvinssyni um veiðileyfi og veiðileyfisskatt.

Ég hef áður farið í gegnum það hversu fráleitar þær hugmyndir eru og hvílík blekking er fólgin í því. Það vekur alltaf undrun mína þegar ég heyri talað um íslenskan sjávarútveg þegar menn koma hér og hrópa upp að þeir vildu heldur láta útlendinga veiða hér og fá þá eitthvert gjald en láta Íslendinga gera það. Það er furðulegt, herra forseti, að innan þessarar þjóðar, sem var á miðaldastigi um síðustu aldamót og hefur risið að mestu til velmegunar fyrst og fremst fyrir fisk, telja menn að engar greiðslur hafi komið frá íslenskum sjávarútvegi. Íslenskur sjávarútvegur hefur neytt allrar afkomu sinnar í að byggja upp þetta þjóðfélag vegna þess að hann er aðalútflutningsgrein landsmanna. Hann hefur borið uppi þjóðfélagið og svo undra menn sig á því og hrópa: Nei, látum heldur útlendinga veiða. Ja, til hvers vorum við að ýta þeim í burtu áður fyrr og berjast fyrir landhelgi okkar? Það er allt orðið gleymt.

Það eru til rök fyrir því að við höfum stundum gengið of langt í að taka fé af sjávarútveginum til þess að byggja upp þjóðfélagið og við værum ríkari í dag ef við hefðum skilið meiri auð þar eftir. Við stæðum betur að vígi og værum með meiri kaupmátt og þjóðfélagið væri sterkara hefðum við ekki gengið svo langt í því, eins og við oft höfum gert, að láta hann greiða. Auðlindagjald er því blekking og hefur alltaf verið það. Við getum ekki sagt þjóðinni þetta --- að við séum að reyna að hífa hann upp á hárinu. Það er bara eins og með Munchausen, það er verið að hífa sig upp á hárinu.

Ég ætlaði þess vegna, herra forseti, að taka það skýrt fram að þessi tillaga á ekkert skylt við það sem ég var hér að benda á, alls ekkert. Hún hefur ekkert í för með sér nema kostnað. Hún er bara íþyngjandi fyrir greinina. Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan að það er hugsanlegt og við eigum að fara mjög vendilega yfir það hvort ekki sé hægt að fá rétt til þess að veiða, menn geti keypt hann núna og boðið hann upp í stað þess að bíða í fimm ár eftir því að geta öðlast hann með reynslu sinni. Ég held að þetta sé allrar athygli vert. Ég vildi þess vegna ítreka það þannig að ekkert fari á milli mála hvað ég hef verið að segja og um hvað ég hef verið að tala vegna þess að ég held að þetta sé þess virði að velta fyrir sér. Ég held að það sé þess virði og við eigum að gera það í fullri alvöru.

Ég veit að það hefur aldrei verið nein alvara í því þegar menn hafa reiknað með því að ég væri stuðningsmaður þessa en hafði nú samt orð á því vegna þess að mér finnst þetta heldur grátt gaman vegna þess að hér er um alvörumál að ræða. Hér er um gífurlegt alvörumál að ræða vegna þess að menn, stjórnmálaflokkar, stjórnmálamenn sem koma með tillögur um það að taka veiðiréttinn af íslenska flotanum eru að leika sér með mikinn eld. Það er mjög hættuleg umræða sem menn ættu ekki að halda fram og menn ættu ekki að reyna að afla sér vinsælda með því að blekkja fólk á þann veg og segja: Ég ætla að lækka hjá þér skattana. Ég ætla að láta bara útgerðina borga. Þetta eru yfirboð, þetta er loddaraskapur og þannig eigum við ekki að tala því að fólk á að vita betur.