Málefni skipasmíðaiðnaðarins

Miðvikudaginn 22. október 1997, kl. 14:18:51 (757)

1997-10-22 14:18:51# 122. lþ. 14.4 fundur 169. mál: #A málefni skipasmíðaiðnaðarins# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[14:18]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Fyrst varðandi spurningu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar varðandi þróunarverkefnin og af hverju ekki sé notað tækifærið sem hv. þm. telur að gefist að nota hafrannsóknaskipið sem þróunarverkefni. Af hálfu atvinnugreinarinnar, þ.e. af hálfu samtaka iðnaðarins og skipasmíðaiðnaðarins í landinu var sérstaklega kannað hvort það stæðist reglur ESA að gera þetta að sérstöku þróunarverkefni, það var kannað mjög rækilega, bæði eins og ég segi af hálfu opinberra aðila og eins af iðngreininni sjálfri, og samhljóma niðurstaða samtaka iðnaðarins, iðngreinarinnar og stjórnvalda var sú að það stæðist ekki reglurnar að gera þetta verkefni að þróunarverkefni og ég vona að það svari spurningu hv. þm.

Áður en þetta verkefni fór af stað, þ.e. áður en fyrirtækin í skipasmíðaiðnaðinum komu sér saman um að vilja standa saman að þessu verkefni, var búið að skipa skipasmíðanefnd. Ég tel að fyrirtækin hafi einmitt sýnt samstarfsvilja þarna og geti þegar fram líða stundir tekist á við stór verkefni. Ég veit hins vegar til þess að fulltrúar greinarinnar hafa átt fundi með nefndinni. Ég vil undirstrika að það er ekki fyrir tilstilli stjórnvalda þannig að stjórnvöld hafa ekki verið beint að skipta sér af því enda væri það hættulegt á grundvelli þeirra reglna sem gilda um hvernig staðið skuli að útboðum á hinu Evrópska efnahagssvæði.

Aðalatriðið er þetta: Styrkir til fiskiskipa eru bannaðir. Almennir styrkir til skipasmíðaiðnaðarins eru á útleið, sem betur fer. Þegar það hefur gerst er staðreyndin þessi: Íslenskur skipasmíðaiðnaður er mjög samkeppnisfær. Búi hann áfram við sambærileg skilyrði og hann gerir í dag kvíði ég því ekki að íslenskur skipasmíðaiðnaður geti ekki tekist á í samkeppninni við þau lönd sem búa við það að fá ekki styrki.