Áburðarverksmiðjan hf.

Miðvikudaginn 22. október 1997, kl. 14:24:46 (759)

1997-10-22 14:24:46# 122. lþ. 14.3 fundur 79. mál: #A Áburðarverksmiðjan hf.# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[14:24]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Eins og kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda voru þessi mál rædd á hv. Alþingi í fyrravetur þegar hann hreyfði málum hér og spurðist fyrir um stöðu þess og þá var vitað að það var í gangi söluferli á verksmiðjunni. Ég hafði lagt til að við skoðuðum möguleika á því að selja verksmiðjuna, ríkið ætti ekki að vera í rekstri af þessu tagi sem kominn væri á þann samkeppnisgrundvöll sem vitað var eftir það að fyrirtækið var gert að hlutafélagi og innflutningur heimilaður eins og fyrirspyrjandi rakti réttilega. Síðan þekkja menn hvað varð um þessi sölumál. Verðmætamat á fyrirtækinu, stundum kallað hrakvirði, var talið vera 1.000--1.200 millj. kr. en tilboðin sem bárust í fyrirtækið við söluferlið í sumar voru hins vegar eins og líka er þekkt eða vitað frá Gufunesi ehf. upp á 725 millj. og frá nokkrum öðrum aðilum, nokkrum kaupfélögum, frá Bændasamtökunum, Vatnsveitu Reykjavíkur, Hitaveitu Reykjavíkur, Rafmagnsveitu, Eignarhaldsfélagi Alþýðubankans upp á 617 millj. Og þó að hv. fyrirspyrjandi kjósi að láta það hljóma svo að málin séu fyrst og fremst í höndum einkavæðingarnefndar þá er það ekki rétt því að niðurstaðan varð sú hjá ríkisstjórn og að tillögu landbrh. að hafna báðum þessum tilboðum af því að þau væru ekki nægjanleg gagnvart því verðmæti sem við töldum vera í verksmiðjunni. Einkavæðingarnefnd er ráðgjafi ríkisstjórnar og annast framkvæmd eftir því sem ríkisstjórn og einstakir ráðherrar ákveða en er ekki gerandi í málinu en að sjálfsögðu ráðgjafi sem vinnur málið og eðlilegt er að ráðfæra sig við.

Framhald málsins er síðan það --- og vaknar nú ekki við fyrirspurn á hv. þingi sem er þó auðvitað góðra gjalda verð að dreifa málum hér og ræða stöðu þessa fyrirtækis eins og annarra stofnana í rekstri ríkisins, heldur eftir það að hafa átt í sumar viðræður við ýmsa aðila sem málið varðar, t.d. Bændasamtökin, þar sem ég varð var við það á sl. vetri í söluferlinu að mikill áhugi er hjá íslenskum bændum á rekstri verksmiðjunnar, þeir telja að hún hafi skapað góða þjónustu og svarað vel óskum þeirra og kröfum.

Ég hef líka átt viðræður við aðra viðskiptaaðila verksmiðjunnar og síðan fundað með forstjóra og stjórnarmönnum eða rætt við þá en þá er ljóst að málið er alls ekki einfalt. Það er vitað að það er rekstrarlegt tap á verksmiðjunni. Hins vegar er hún í þeirri stöðu að hún er ekki nægilega góð söluvara eins og komið hefur fram á þessum tilboðum sem hafa borist í hana og eftir þessi fundahöld og viðræður við ýmsa aðila ritaði ég stjórn Áburðarverksmiðjunnar bréf 11. sept. Það var áður en þing kom saman og áður en þessi fyrirspurn var lögð fram á þingi. Þar er m.a. er farið yfir þetta söluferli og stöðu verksmiðjunnar og í bréfinu segir m.a., með leyfi forseta:

,,Í hnotskurn má segja að staða verksmiðjunnar sé með þeim hætti að reksturinn sé hvorki nógu arðbær eins og sakir standa til þess að unnt sé að selja hana á viðundandi verði né heldur á hinn bóginn nógu slæmur til þess að réttlætanlegt sé að leggja fyrirtækið niður. Þegar horft er til framtíðar fyrirtækisins er á það að líta að hjá fyrirtækinu starfa nú um 100 manns án þess að ríkið þurfi að leggja því til rekstrarfé, enda hefur reksturinn þannig verið sjálfbær í þeim skilningi.``

Ljóst er að við erum að tapa á rekstrinum en eiginfjárstaða fyrirtækisins er það sterk að við erum ekki að tapa eigin fé fyrirtækisins. Spurning er hins vegar hvort hægt er að ávaxta þetta fé ríkisins öðruvísi en þarna er gert.

Niðurstaða mín í framhaldi af þessu er síðan sú ef ég má, með leyfi forseta, vitna aftur í umrætt bréf frá 11. sept.: ,,Að öllu þessu virtu hefur verið ákveðið að fresta nú um sinn frekari sölutilraunum en freista þess hins vegar að snúa rekstrinum til betri vegar.``

Það hef ég falið stjórn fyrirtækisins að gera. Ég hef líka átt viðræður við fulltrúa einkavæðingarnefndar um þessa stöðu, sagt þeim frá niðurstöðu minni og afstöðu til áframhaldandi reksturs, vilja að þetta verði reynt og við verðum þá að meta það að slíkum tilraunum gerðum eða þegar það hefur verið látið á það reyna af fullum krafti hvort þetta er mögulegt, hvort og þá með hvaða hætti hægt er að selja reksturinn eða hvernig við stöndum að því áfram.

Málið er í þessum farvegi eins og er, hæstv. forseti, og það gerist að vísu síðan í gær, og í tilefni af því eru fréttir í Morgunblaðinu sem hv. fyrirspyrjandi vitnar til, að forstjóri fyrirtækisins hefur sagt upp störfum af því að hann er ekki sammála viðhorfi eigandans eða ríkisvaldsins til áframhaldandi reksturs og um það mál verður fundað í stjórn fyrirtækisins nk. föstudag þar sem ég vænti þess að endanleg niðurstaða um áframhald málsins liggi fyrir.