Endurskoðun viðskiptabanns á Írak

Miðvikudaginn 22. október 1997, kl. 15:24:42 (770)

1997-10-22 15:24:42# 122. lþ. 15.8 fundur 6. mál: #A endurskoðun viðskiptabanns á Írak# þál., SvG
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[15:24]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Fyrir nokkrum dögum var þess minnst að 30 ár voru liðin frá þeim atburði þegar sá mikli byltingarforingi, Che Guevara var myrtur í Suður-Ameríku. Það gerðist á þann hátt að ungt fólk beitti sér fyrir útifundi á Ingólfstorgi og ungt fólk beitti sér fyrir gríðarlega fjölmennum fundi í húsnæði sem ég hygg að heiti Borgarbíó á Akureyri.

Það kom mjög greinilega fram að ungt fólk í landinu er mjög upptekið af þessum málum. Það er mjög upptekið af því að verið er að beita viðskiptabanni, verslunarbanni sem bitnar á lífi þeirra sem síst skyldi og ungt fólk er mjög upptekið af því að þetta viðskiptabann er mannréttindabrot, eins og því hefur verið beitt bæði á Íran og Kúbu. Það er brot á mannréttindasáttmálum sem heimurinn hefur gert. Það er ekki aðeins brot á venjulegum gamaldags mannréttindasáttmálum, heldur líka brot á hinum fínu nýju viðskiptasáttmálum að gera þetta svona. Það er brot á hinum mikla verslunarfrelsissáttmála sem gerður var fyrir fáeinum árum og Íslendingar eru aðilar að. Það er brot á honum. Það liggur því algerlega fyrir að Bandaríkjamenn eru með viðskiptabanninu á Kúbu í raun og veru að brjóta þann sáttmála.

Það hlýtur að vera nokkurt umhugsunarefni fyrir okkur á Alþingi Íslendinga þegar þessi tillaga er rædd --- ég veit ekki í hvaða skipti --- að það gerist með þeim hætti að bersýnilegt er að lítill sem enginn áhugi er á málinu og flm. lætur það koma fram í framsöguræðu sinni að hann óttist að málið verði jarðað í utanrmn. einu sinni enn. Hvar erum við stödd með lýðræðið? Og hvar eru tengsl okkar í þessari stofnun við unga fólkið í landinu? Það er upptekið af þessum mannréttindabrotum, þeim skepnuskap og því framferði sem um er að ræða í þessu viðskiptabanni bæði á Írak og Kúbu og birtist börnum, gamalmennum, konum og öðru fólki sem höllum fæti stendur. Það er alveg ótrúlegt og fátt er betur talandi dæmi um það hvað Alþingi er einangrað en mál af þessu tagi. Vegna þess að gamla kaldastríðskrumlan leggst yfir þessi mál því þau eru e.t.v. þannig að það gæti kannski móðgað eitt lítið milligramm í yfirstjórn Bandaríkjanna. Þess vegna hafa menn ekki hátt um það og sýna málinu fullkomið áhugaleysi.

Nú er það hins vegar sem betur fer svo að íslenska ríkisstjórnin og núv. utanrrh. --- og hann á þakkir skildar fyrir það --- hefur breytt afstöðu Íslands til viðskiptabannsins á Kúbu. Allt í einu er það þannig að þau ríki sem styðja viðskiptabannið á Kúbu eða mótmæla því að það verði lagt niður eru núna sem betur fer bara tvö eða þrjú. Það eru Bandaríkin og Ísrael og venjulega eitt af ríkjum fyrrv. Sovétríkjanna á síðustu allsherjarþingum, þ.e. Úsbekistan eða einhver önnur ríki í grennd við Úsbekistan í Mið-Asíu. Ísland er sem betur fer ekki lengur á þeim lista og ég tel ástæðu til þess, þó að hæstv. utanrrh. og formaður Framsfl. sé fjarverandi í dag, að þakka honum fyrir að þeirri smán skuli létt af Íslandi að vera í þessum þjóðþrifaflokki að því er varðar þessi mál.

Það breytir hins vegar ekki því að Ísland hefur til skamms tíma að því er varðar mannréttindamál yfirleitt ekki þorað að taka almennilega á hlutunum og Alþingi virðist ætla að skera sig úr þeirri þjóðarfylkingu sem um er að ræða hjá ungu fólki í þessum málum og reyndar fjölmörgum fleiri aðilum. Ég bendi t.d. á leiðaraskrif í DV um mannréttindamál þar sem kveður ærið mikið við annan tón en sumt af því sem maður gæti haldið að réði ferðinni í þessari sofandi stofnun þegar kemur að því að gagnrýna mannréttindabrot í heiminum.