Hollustuhættir

Fimmtudaginn 23. október 1997, kl. 11:59:47 (785)

1997-10-23 11:59:47# 122. lþ. 16.3 fundur 194. mál: #A hollustuhættir# (heildarlög) frv., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[11:59]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þær ágætu og málefnalegu umræður sem hafa orðið um þetta frv. og þær ábendingar og athugasemdir sem fram hafa komið við málið sem verða að sjálfsögðu teknar til frekari umfjöllunar í hv. umhvn.

Ég held að mörgum spurningum hafi ekki verið beint til mín beinlínis, enda á nefndin eftir að fara yfir málið. Ég vil aðeins árétta það og ég vona að hv. nefndarmenn geti staðfest að almennt hef ég átt gott samstarf við nefndina við úrvinnslu þeirra frv. sem ég hef lagt fram. Er þar skemmst að minnast þess stóra frv. sem var til meðferðar í nefndinni á síðasta þingi um byggingar- og skipulagslög sem nefndin lagði gríðarlega vinnu í. Reyndar má kannski segja að það hafi að verulegu leyti verið samið á ný eða í það minnsta vissar breytingar verið gerðar á því, eins og það lá fyrir, og var reyndar vitað því eins og frv. var lagt fram höfðu þegar komið fram margar athugasemdir á þingi áður og vitað að frv. mundi taka verulegum breytingum en niðurstaðan varð sú að leggja það þannig fyrir. Ég ræði ekki meira um það hér og nú en vil segja að nefndin vann gott starf við það mál og ég veit að hún mun gera það áfram við þetta frv.

Ég vil aðeins nefna það sem fram kom í máli hv. 8. þm. Reyvk., Svavars Gestssonar, að það væri spurning hvað lægi á í þessu efni í sambandi við frv. og kannski væru það aðallega úrskurðarmálin og starfsleyfismálin, en öðru hefði verið hnýtt þar við og ákveðið að setja þessa heildarendurskoðun fram með því máli sem væri brýnt. Ég geri ekki lítið úr því og undirstrika það sérstaklega að mjög brýnt er að taka á starfsleyfismálum og úrskurðarferlinu öllu. Það segir sagan okkur. Ég hef þegar lýst því yfir úr ræðustól áður og gerði það í umræðum um slík málefni í vor. Þar sem heildarendurskoðun á löggjöfinni var þá þegar í gangi, af því að nefndin er skipuð 16. febr. 1996, þá var alveg ljóst að ástæða væri til að taka það mál fyrir alveg sérstaklega í því nefndarstarfi. En heildarendurskoðunin var í gangi áður og var brýnt verkefni og nauðsynlegt þó að lögin hafi vafalaust enst vel og staðið alveg fyrir sínu eins og bæði sá hv. þm. nefndi og svo einnig hv. 12. þm. Reykv., Guðrún Helgadóttir, sem nefndi það líka sérstaklega, en það geta hafa verið fleiri hv. tólftu þingmenn annarra kjördæma sem komu inn á það mál að lögin hafi staðist vel og hafi verið vel vandað til þeirra á sínum tíma. Þó var ýmislegt sem nauðsynlegt var að taka á eðli málsins samkvæmt og þess vegna er heildarendurskoðun nauðsynleg. Ég legg auðvitað áherslu á að reynt verði að láta frv. fylgjast að og okkur takist að afgreiða það fyrir áramót, eins og hér er lagt upp með, þó ég geri mér fulla grein fyrir því ekki síst af þeim upplýsingum sem komu fram í umræðum frá hv. 12. þm. Reykn., að margir af nefndarmönnum í umhvn., sem ég hafði reyndar ekki hugsað um áður, starfa í þeirri nefndinni sem mest er bundin fram að áramótum, þ.e. fjárln., og fer nú illa saman að þurfa að fjalla um svo stórt og mikilvægt mál eins og þetta er með allri þeirri vinnu sem ég veit að þar fer fram og þekki af eigin reynslu. En þrátt fyrir það er það mín eindregna ósk að reynt verði til hins ýtrasta að afgreiða málið og úrskurðarmálin og starfsleyfismálin eru nánast forgangsmál, eins og kom fram í máli hv. 8. þm. Reykv. þegar hann ræddi um þau mál sérstaklega. Ég vil aðeins undirstrika að mér var kunnugt um að beðið hafði verið um sérstaka umræðu um þessi starfsleyfismál. Þó að þau tengist mjög þessu frv. og efnisatriðum þess, þá hef ég ekkert við það að athuga að slík umræða sé tekin ef ástæða er talin til, en ljóst er að þau koma aftur upp í umræðu um þetta frv. þegar það kemur til 2. umr., þá hafa menn farið í þetta ferli og gert sér grein fyrir því hvernig það er hugsað og ég vona að um það geti náðst sátt.

Ýmislegt hefur verið nefnt hér, t.d svæðaskiptingin, sem fjallað er um í 11. gr., og kom fram bæði hjá hv. 8. þm. Reykv. og hv. 4. þm. Austurl. Ég vil aðeins undirstrika að þar er verið að reyna að gera eftirlitið skilvirkara og heildstæðara. Reyndar er ekki verið að fækka svæðunum mjög. Þeim er þó fækkað úr 13 í 10, en kannski er meginbreytingin sú að ein heilbrigðisnefnd er fyrir hvert svæði. Ég hygg að Austurland sé í dag í raun eitt svæði eins og hér er lagt til og ekki sé um breytingu þar að ræða. Það eru auðvitað sveitarstjórnirnar sem standa að viðkomandi heilbrigðisnefnd sem þurfa að ákveða hversu öflugt starf þær vilja hafa. Eiga starfsmennirnir að vera tveir eða fleiri? Það er gert ráð fyrir a.m.k. tveimur. Þeir geta auðvitað verið fleiri, en þá er það mál sveitarfélaganna eða svæðisins sem slíks. Ég held að ég megi því fullyrða að hér sé ekki gerð tillaga um breytingu á því svæði eins og það er í dag en ég geri ekki lítið úr því að um er að ræða stórt svæði og það er mikilvægt að heilbrigðisfulltrúarnir og eftirlitsaðilarnir hafi samráð og einangrist ekki í sínu starfi og séu vel undir það búnir að takast á við þau mikilvægu verkefni sem þarna koma upp að sjálfsögðu.

Út af því sem kom fram í máli hv. 8. þm. Reykv. um þessi málefni, þá er sérstaklega kveðið á um að umhvrh. geti með reglugerð að höfðu samráði við hlutaðeigandi sveitarfélög og að fenginni umsögn Hollustuverndar ríkisins kveðið á um sameiningu eftirlitsaðilanna þannig að hægt er að fækka þeim án þess að breyta lögunum ef um það er samkomulag eða samstaða, eins og hér er kveðið á um. Einnig er heilbrigðisnefndunum heimilt að gera samkomulag um annað fyrirkomulag á milli eftirlitssvæðanna. Þarna er einnig skýrt kveðið á um í greininni að ef t.d. einhverjar breytingar verða á kjördæmamörkum eða ef einstakir hreppar eða sveitarfélög væru betur komin undir öðru eftirlitssvæði en lögin kveða á um, þá væri í raun ekkert því til fyrirstöðu að það gæti gerst samkvæmt ákvæðum laganna.

Ég undirstrika það líka sem kom fram í máli hv. þm. að nauðsynlegt er að um þessi lög náist víðtæk sátt eins og hann minnti á að gerst hefði á sínum tíma. Ég vona að það geti gerst í þessu tilviki líka því að þetta er afar mikilvægur lagabálkur sem fjallar um viðkvæman málaflokk og stofnun sem á að framfylgja þeim lögum í samráði við heilbrigðisnefndirnar og sveitarfélögin. Það er því mjög mikilvægt að um þetta náist sem best samkomulag.

Ég er sammála honum og öðrum hv. þm. sem hér hafa talað, og ég hef reyndar látið það álit mitt í ljós í ræðustól áður, að reyna beri að tryggja rétt almennings eins og hægt er í því efni að koma athugasemdum sínum á framfæri. Ég tel að reynt sé að varða þá leið og gera tillögur um hvernig slíkt athugasemdaferli getur litið út og eigi að vera uppbyggt og það sé miklu skýrara en er í gildandi lögum. Þó að við höfum reynt að framkvæma það eftir bestu samvisku er mér ljóst að um það hefur skapast ágreiningur og menn eru ekki á eitt sáttir í þessu efni. Hér er reynt að ráða á því bragarbót og auðvitað fer nefndin ítarlega yfir það mál allt saman og einnig það atriði sem hv. 12. þm. Reykn. nefndi um hollustuháttaráðið. Ég hef ekki athugasemdir við að það sé skoðað sérstaklega en minni á að þótt fulltrúar atvinnulífs og sveitarfélaga eigi að skipa svo veglegan sess í hollustuháttaráðinu, þá eru það auðvitað þeir aðilar sem bera að verulegu leyti hitann og þungann af þessu starfi og kostnaðarlega séð. Þau mál sem hér er verið að ræða um fjalla auðvitað um hagsmuni bæði atvinnulífs og sveitarfélaga en auðvitað eru líka hagsmunir annarra aðila, sem ekki eru beinlínis fulltrúar atvinnurekstrarins, sem ég hef ekki á móti að menn skoði og hvort hægt sé að veita þeim aðild að þessu hollustuháttaráði eða að fylgjast að öðru leyti með framkvæmd laganna.

Ég velti því þá aðeins fyrir mér hvort eðlilegt sé að fulltrúar einnar ríkisstofnunar sitji í stjórn annarrar ríkisstofnunar en vafalaust eru fyrir því mörg fordæmi þó að ég velti því hér upp og biðji nefndina að skoða það mál sérstaklega, og eins það sem kom fram í máli hv. 12. þm. Reykv. um sérstaka skýrslu til þingsins, þá yrði það sjálfsagt viðamikið ef allar opinberar stofnanir ættu að gefa skýrslu til þingsins árlega og þær ræddar. En það kann að vera að forgangsraða megi í því efni og velja þær stofnanir og þá málaflokka sem menn telja vera sérstaklega mikilvæga og ættu öðrum fremur erindi til umræðu á þingi. Ég hef heldur ekki á móti því að menn skoði það vel í nefndinni. Eins og ég hef áður sagt þá vil ég að nefndin skoði málið vel og ítarlega og veit að hún gerir það, þekki það af reynslunni en bið eftir sem áður um að hún eftir hraði eftir föngum störfum sínum eins og ég hef áður ítrekað.

Hv. 12. þm. Reykn. ræddi svolítið um aðstæður Hollustuverndar ríkisins. Ég hef greinilega ekki tíma til að fara mjög ítarlega yfir ræður allra hv. þm. og þau atriði sem ég hef hripað hjá mér en ég sé að tími minn er að renna út.

Aðstæður Hollustuverndar ríkisins hafa auðvitað að undanförnu verið þær að þar hafa verið fjárhagslegir erfiðleikar. Við höfum verið með sérstakar nefndir sem hafa verið að skoða þau mál með stofnuninni og stjórnendum þar og átt sérstakt samstarf við fjmrn. í því efni. Ég minni á að á fjáraukalögum í fyrra, í fjárlögum þessa árs og í fjárlagafrv. fyrir næsta ár og fjáraukalögum fyrir þetta ár er í öllum þessum frumvörpum og lögum tekið á fjárveitingum til stofnunarinnar og þær auknar. Reynt hefur verið að styrkja fjárreiður stofnunarinnar umtalsvert á þessum missirum og það var full ástæða til því að stofnunin hefur tekið við mörgum og miklum nýjum verkefnum, eins og ég kom ítarlega inn á í framsöguræðu minni áðan, kannski fyrst og fremst með aðild okkar að EES-samningnum og sjálfsagt þarf að halda þeirri skoðun áfram. Ég hygg þó, eins og fram kemur í umsögn frá fjárlagaskrifstofu fjmrn. um frv., að þá gefi það nokkra möguleika á því. Nýtt skipulag, sem kveðið er á um, og breyttir stjórnarhættir taka nokkuð á starfsemi stofnunarinnar með þeim hætti að hægt verði að gera hana skilvirkari og ná fram meiri hagkvæmni þó að ég geri mér ekki vonir um að við spörum mikla fjármuni. Sparist þeir við eitthvað slíkt þá veitir sannarlega ekki af því til þess að styrkja rekstur stofnunarinnar almennt.

Hvað varðar umfjöllunina um rannsóknarstarfsemi og þá þjónustu sem stofnunin veitir og gæti selt, þá þarf auðvitað að hafa það í huga að í landinu gilda samkeppnislög og um það hefur verið fjallað varðandi ýmsar opinberar stofnanir og það á við um Hollustuverndina líka. Það þurfum við að hafa í huga. Kannski getur Hollustuverndin aukið sértekjur sínar eitthvað á þennan hátt, en ég tók það líka fram í framsöguræðu minni áðan að ég teldi að hlutverk Hollustuverndarinnar á þessu sviði væri svo mikilvægt og hefði sýnt það á undanförnum árum að við yrðum að gæta okkar í því þegar slíkar skipulagsbreytingar eru hugsanlega gerðar að fórna ekki því mikilvæga hlutverki eða fara ekki þannig með það hún geti ekki fyllilega veitt þá þjónustu sem henni ber á sviði rannsókna og eftirlits, prófana og annars sem stofnunin sinnir og veitir sveitarfélögunum og heilbrigðisnefndunum, heilbrigðisfulltrúunum og atvinnulífinu, að það sé ekki fyllilega hugað að mikilvægi þeirrar starfsemi hjá Hollustuverndinni.

Hv. 12. þm. Reykv. talaði um 18. gr. Ég hygg að þar megi segja að gæti örlítils misskilnings. Það má auðvitað skoða þetta orðalag og fara yfir efni greinarinnar ítarlega, en þegar talað er um, með leyfi forseta, að stofnunin fari því aðeins með beint eftirlit að lög mæli svo fyrir, o.s.frv. sem hv. þm. las upp, þá er verið að tala um að það eru í raun heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna sem fara með hið beina eftirlit. Það er skilgreiningin. Hér er verið að tala um það að hugsanlegt sé að fela Hollustuvernd ríkisins það eftirlit í einhverjum tilvikum, eins og þar sem lög mæla sérstaklega fyrir um að það skuli vera Hollustuverndin en ekki heilbrigðisnefndirnar eða ráðherra ákveði með reglugerð að höfðu samráði við stofnunina, ef um heildareftirlit er að ræða um allt landið þar sem slíkt samræmi þurfi að vera að það sé betur komið hjá Hollustuverndinni en hjá heilbrigðisnefndunum eða um einstök svæði sem samkomulag næst um að öðru leyti við heilbrigðisnefndirnar, eins og getið er um líka, þannig að það er það sem um er að ræða.

Allra seinast, hæstv. forseti, af því að hv. þm. gerði einnig athugasemd eða fyrirspurn við 32. gr., þá er ljóst að ágreiningur sem skapast milli heilbrigðisnefnda og sveitarstjórna fer ekki til úrskurðarnefndarinnar. Hann fer beint til ráðherra og er kveðið skýrt á um það og er það óbreytt fyrirkomulag frá því sem er í dag.