Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 23. október 1997, kl. 15:54:48 (802)

1997-10-23 15:54:48# 122. lþ. 16.11 fundur 36. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sjómannaafsláttur) frv., KPál
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[15:54]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég vil nú aðeins blanda mér í það mál sem hér er til umræðu en það er svonefndur sjómannaafsláttur sem hefur verið við lýði í einu eða öðru formi síðan 1954. Hann hefur reyndar tekið mjög miklum breytingum á þeim árum sem liðin eru síðan hann var lögleiddur og verður að segjast eins og er að um tíma var hann kannski orðinn of víður í túlkun skattkerfisins og aðilar sem ekki stunduðu sjó í rauninni heldur voru tengdir sjómennsku höfðu ákveðin skattfríðindi í gegnum sjómannaafsláttinn.

Það hefur af ýmsum verið litið mjög miklu hornauga að sjómenn skyldu hafa þessar skattaívilnanir vegna starfa sinna og það talin óeðlileg mismunun. Það skal viðurkennt að í sjálfu sér felst í þessu mismunun og alltaf spurning um hvað skattkerfið á að ganga langt til að aðlaga eða gera eftirsóknarvert að fara í ákveðin störf, hvort þau séu þess eðlis að það sé nauðsynlegt og hvort þjóðarhagsmunir krefjist þess í raun að eitt starf sé metið með öðrum hætti en annað þegar um skattaleg efni er að ræða.

Þegar verið er að velta fyrir sér þjónustu við þegnana, þá höfum við líka séð að íbúar landsins greiða að sjálfsögðu mjög mismunandi með sköttum sínum fyrir þá þjónustu sem þeir njóta frá hinu opinbera. Sumir greiða mjög háa skatta og njóta þess í engu frá hinu opinbera umfram það sem þeir fá sem greiða enga skatta eða jafnvel fá til baka frá ríkissjóði í formi styrkja eða annarrar samhjálpar sem við í sjálfu sér öll teljum eðlilega. Meðan það er einhver mismunun að þessu leyti og ekki allir borga skatta, beina skatta, flata skatta, þá verður alltaf einhver mismunun. Og eins og hv. flm. sagði hér áðan, þá er skattkerfið byggt upp til þess að mismuna fólki, til þess að jafna lífskjör hjá þjóðinni. Ég held að það sé nokkuð almenn sátt um að það verði að jafna lífskjör fólks með skattkerfinu meðan það er ekki hægt að segja að allir hafi þau laun vegna vinnu sinnar eða frá hinu opinbera sem við getum sagt að dugi til almennrar framfærslu.

Þegar við veltum því fyrir okkur hvernig sjómenn eigi að njóta þessara fríðinda og hvaða rök séu fyrir því, þá hafa að sjálfsögðu komið fram mjög góð rök. Breytingar á eðli sjómannsstarfsins hafa verið mjög miklar á undanförnum árum og ef einhvern tíma hefur verið ástæða að mínu viti til að veita þennan skattafslátt eins og gert er í dag, þá er það í dag. Sjómannsstarfið er að verða miklu erfiðara heldur en það var fyrir kannski 20 árum síðan hvað varðar fjarveru frá heimilum. Togarasjómenn voru reyndar í stríðinu og eftir stríð allt upp í 1--2 mánuði fjarri heimilum sínum. Í dag erum við að sjá á frystiskipum sem sækja mjög langt að sjómenn eru úti í marga mánuði, ekki einn og hálfan mánuð, þeir eru í allt upp í 2--3 mánuði. Og á þessum stærstu skipum getur þetta verið upp í 3--4 mánuði ef menn halda út allan þann tíma. Þessir möguleikar eru til staðar og stærstu skip í eigu íslenskra aðila koma vart að landi nema einu sinni á ári. Þannig að sjómannsstarfið er í rauninni mjög mikið að breytast líka. Þessir svonefndu landróðrabátar sem komu að landi daglega eru að hverfa. Vinnsla sjávarfangs er að færast út á sjó og í greinargerð hv. flm. Péturs Blöndals er sagt að með því að greiða niður laun fiskvinnslumanna úti á sjó sé verið að mismuna vinnslunni úti á sjó miðað við vinnslu í landi. Þó svo að í raun sé ekki hægt að hrópa húrra yfir launum fiskvinnslufólks í landi, þá er ekki hægt að bera þau saman við fiskvinnsluna úti á sjó. Aðstaðan er allt önnur. Það eru alveg gríðarleg þrengsli um borð í þessum skipum og aðstaðan við vinnuna er allt önnur sem kemur m.a. fram í því að menn þurfa að standa lengur. Menn hafa í rauninni enga möguleika á því að fara frá borði eða koma sér í eitthvert annað umhverfi eða sinna sínum félagslegu þörfum með öðrum hætti en þeim að fara inn í sína káetu. Og störfin um borð í þessum skipum eru miklu meiri og fjölþættari heldur en almennt gerist þannig að ég held að ef við lítum á störf þeirra sem sinna fiskvinnslunni um borð í þessum skipum, þá eru þau orðin miklu meiri heldur en áður var og í sjálfu sér miklu erfiðari og meira krefjandi.

[16:00]

Ef við lítum á hvernig skattaívilnanir eru hjá öðrum starfsmönnum, opinberum starfsmönnum til að mynda, þá er það misskilningur hjá hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur að það séu bara og eingöngu sjómenn sem njóti skattfríðinda. Það er vitað að starfsmenn t.d. á vegum Sameinuðu þjóðanna og starfsmenn á vegum Þróunar- og samvinnustofnunar Íslands njóta algerra skattfríðinda. Þeir borga enga skatta, þeir borga ekki einu sinni tekjuskatta. Það er ekki spurningin um að vera með einhverja eftirgjöf á sköttum hvern úthaldsdag heldur eru bara allir skattar felldir niður. Hjá utanríkisþjónustunni eru ýmis skattfríðindi af hluta tekna starfsmanna og það hefur almennt verið viðurkennt að þetta væri nauðsynlegt, eins og kom fram hjá hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni áðan, vegna fjarveru frá heimilum, aukins kostnaðar og álags á nýjum stöðum og breyttu umhverfi að veita slíku starfsfólki þau fríðindi sem hægt er af hálfu hins opinbera. Þess vegna hefur þetta verið gert. Þegar við lítum á stöðu sjómanna er í rauninni enn frekar ástæða til þess að horfa á þennan þátt, miklu frekar. Ekki er einungis það að sjómenn séu fjarri heimilum sínum heldur hafa þeir enga möguleika á annarri félagslegri aðstöðu eða samskiptum en þeim sem felast í að vera um borð í sínu skipi. Þeir sem dvelja á erlendri grund geta tekið þátt í menningarlífi, félagslífi og öllu því sem fylgir að búa með öðrum þjóðum, sem er að sjálfsögðu mjög fjölbreytt og getur skapað allt aðra lífsfyllingu en þá að vera um borð í sama skipinu mánuðum saman. Ég held því að fólk sem ekki hefur stundað sjó að neinu marki geri sér ekki nokkra grein fyrir því hvernig er að vera vikum og mánuðum saman úti á reginhafi fjarri sínu fólki. Ég held því að sú tillaga sem núna er lögð fram af hv. þm. Pétri Blöndal sé algerlega óþörf. Fyrir nokkrum árum var full ástæða til að endurskoða þetta kerfi þannig að ekki væri verið að misnota það. Það var komið of mikið af gráum svæðum inn í það sem búið er að leiðrétta og þess vegna finnst mér slæmt að menn skuli sífellt vera að höggva í sjómannastéttina, reyna að draga af henni skóinn með einhverju móti skattalega eða með öðrum hætti og held ég að ástæða sé að linni.

Það er út af fyrir sig ástæða til að fara út í margt annað sem kom fram í framsögu hv. þm. Meðal annars segir hv. þm. að þessar ívilnanir séu forréttindi karla, það séu forréttindi karla að fá þennan afslátt vegna þess að það eru þá væntanlega bara karlar sem eru sjómenn. Ég hef verið útgerðarmaður fyrir fiskiskip ásamt því að vera sjómaður og ég held að óhætt sé að fullyrða að útgerðarmenn og sjómenn hafa fagnað því ef konur hafa viljað taka þátt í störfum sem fylgja sjómennskunni. Það hefur aftur á móti ekki fallið held ég að áhugasviði kvenfólks að vera á sjó. Þær hafa frekar kosið að vera í landi af ýmsum ástæðum og sennilega af þeim ástæðum sem ég hef talið upp áður, að þetta er ekki mjög áhugavert fyrir alla. Þetta gefur stundum góðar tekjur en í allt of mörgum tilfellum mjög lélegar tekjur. Við erum að sjá tekjur á sjó hjá útilegutogurum sem eru allt niður í það að vera 100 þús. kr. á mánuði eða rétt tryggingin. Ég mundi vilja sjá hv. þingmenn taka þátt í slíku. Þetta er líka mikil áhætta. Það er í sjálfu sér mikil áhætta fyrir sjómenn að fara í Smuguna, vestur á Flæmingjagrunn eða önnur fjarlæg mið vitandi nánast ekki neitt hvað fram undan er annað en það að menn fá þessar rúmu 100 þús. kr. sem er tryggingin, en þeir gætu hugsanlega fengið miklu meira. Reyndin er nefnilega sú að þau laun eru síður en svo trygg, sem hafa þó sums staðar sést sem betur fer. Það er allt of mikið um að menn koma út úr þessu með lítið. Og þegar búið er að draga frá reikningana sem hafa fallið til í túrnum, þ.e. vettlingar, matur, galli og sími o.s.frv., þá sitja margir uppi með það að eiga ekkert eftir þegar þeir koma í land, ekki neitt. Þeir hafa eytt þessu öllu um borð, ekki vegna þess að þeir hafi verið að eyða þessu að óþörfu heldur eru þetta einungis lágmarkssamskipti við ástvini sína í landi og lágmarksklæðnaður sem þeir þurfa til að geta stundað vinnuna.

Mér finnst sorglegt að sú síbylja skuli vera í þinginu að reyna að níða þetta af sjómönnum. Ef menn vildu í raun ná skattfríðindunum af með einhverju móti, þá finnst mér að þeir sömu aðilar ættu fyrst að tryggja að atvinnurekendur mundu taka á sig kostnaðinn. En það hefur ekki verið gert. Það hefur ekki nein umræða farið fram um það. Ég hefði frekar viljað sjá tillögu frá hv. flm. þar sem hann hefði einfaldlega lagt fram lagabreytingu þar sem útgerðarmönnum yrði gert skylt að greiða þær skattaívilnanir til sjómanna. Hér er einfaldlega lagt til að þær verði teknar af sjómönnum og svo yrði þetta eitthvert samningsatriði. LÍÚ er búið að lýsa því yfir að þeir muni aldrei semja um þetta og þeir muni aldrei fallast á að borga sjómönnum þann mun sem verður ef þetta verður fellt niður á hinu háa Alþingi. Ég held að það sé því á misskilningi byggt hjá hv. þm. að fara svona að þessu því að ég held að í rauninni sé hv. þm., herra forseti, frekar hlynntur sjómönnum þegar upp er staðið og ég marka það nú af upphafinu í máli hans þegar hann gerir ráð fyrir því að um þetta verði samið í frjálsum samningum við útvegsmenn. Þá er hann, hæstv. forseti, að gera ráð fyrir því að þetta verði með einhverju öðru móti sett inn í laun þeirra. En það er engin trygging fyrir því að svo verði gert og miðað við yfirlýsingar þeirra útvegsmanna, þá eru engar líkur á því að það verði gert.