Utandagskrárumræða um gjaldskrárbreytingar Pósts og síma

Mánudaginn 03. nóvember 1997, kl. 15:23:52 (832)

1997-11-03 15:23:52# 122. lþ. 17.91 fundur 69#B utandagskrárumræða um gjaldskrárbreytingar Pósts og síma# (aths. um störf þingsins), SighB
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[15:23]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Það er nú komið fram sem ég benti á hér áðan hver það var sem taldi nauðsynlegt að taka daginn á morgun, sem settur hafði verið sérstaklega til hliðar til að ræða utanríkismál, undir langa umræðu um málefni Pósts og síma. Sá maður var hæstv. samgrh. sem sjálfur greindi frá því hér. Og ég ítreka þau tilmæli við hæstv. utanrrh. að sjái hann ástæðu til þess að gera umkvartanir yfir meðferð málsins, þá snúi hann sér að hæstv. samgrh. sem valdi þennan dag til þess að hafa langa umræðu um þetta sérstaka mál.

Það er ekki rétt hjá hæstv. samgrh. að þingflokkur jafnaðarmanna tilnefni einstakling í stjórn Pósts og síma. Þingflokknum var ekki boðið það. Hann hafði hins vegar samráð við mig og ég neita því ekki, það er rétt. En hann en ekki ég er yfirmaður þessarar stofnunar. Hann en ekki ég getur kallað eftir skýrslu um forsendur fyrir ákvörðunum þessarar stofnunar og hann svaraði því ekki, hæstv. ráðherrann, hvort hann mundi halda þannig á málum á þeim sólarhring sem eftir er þangað til umræðan hefst, að áður en hún hefst á morgun geti þingmenn fengið skýringar stofnunarinnar og samgrn. á forsendum þessarar miklu hækkunar. Ég hef ekki vald til að kalla eftir slíkri skýrslu en hann hefur það. Ég vil fá svar frá hæstv. ráðherra: Mun hann ekki sjá svo um að þessar skýringar stofnunarinnar og ráðuneytisins liggi fyrir áður en umræður hefjast á morgun? Og ég fer þess sérstaklega á leit við hæstv. forsrh. sem hefur haft afskipti af þessu máli að hann sjái til þess að svo verði svo að umræðurnar um málið á morgun, á heiðursdegi hæstv. utanrrh. hér í þinginu, geti verið með sem eðlilegustum og skilmerkilegustum hætti.