Upplýsingarit ríkisstjórnarinnar

Mánudaginn 03. nóvember 1997, kl. 15:36:41 (840)

1997-11-03 15:36:41# 122. lþ. 17.1 fundur 61#B upplýsingarit ríkisstjórnarinnar# (óundirbúin fsp.), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[15:36]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég vildi að ég hefði miklu fleiri mínútur til ráðstöfunar. Mér finnst mjög alvarlegt að hér komi fram að hæstv. forsrh. þjóðarinnar er sleginn siðferðilegri blindu. Hann er að rugla saman baráttuáróðri sem fram kemur frá verkalýðshreyfingunni í landinu þar sem hún er að berjast fyrir hagsmunum launafólks í landinu. Hún hefur ráðist í áróðursherferðir, auglýsingaherferðir t.d. gegn sjúklingasköttunum og árásunum á lífeyrisþega, en hún hefur ekki ráðist í auglýsingaherferðir til að hefja sjálfa sig til skýjanna eins og ríkisstjórn Davíðs Oddssonar er að gera á kostnað almennings í landinu. Þetta hefur ekkert með upplýsingar að gera, þetta er misnotkun á almannafé.

Ég ætla ekki og hef ekki tækifæri til að gera innihald þessa bæklings að umræðuefni, þann hálfsannleika sem þar er reiddur fram og þá röngu mynd sem dregin er upp. (Forseti hringir.) Ég vildi hins vegar nota þetta tækifæri til að fá þessar upplýsingar fram og sýna fram á þann (Forseti hringir.) siðferðisbrest sem er hjá ríkisstjórninni í þessu máli.